REAL Madrid tryggði sér meistaratitilinn í spænsku knattspyrnunni á laugardagskvöld er liðið vann fyrirhafnarlítinn sigur á nágrannaliðinu Atletico de Madrid. Þetta er 27. meistartitill Real Madrid í sögu félagsins og þykir sigurinn verðskuldaður.
Þrjú glæsimörk

tryggðu Madrid 27.

meistaratitilinn REAL Madrid tryggði sér meistaratitilinn í spænsku knattspyrnunni á laugardagskvöld er liðið vann fyrirhafnarlítinn sigur á nágrannaliðinu Atletico de Madrid. Þetta er 27. meistartitill Real Madrid í sögu félagsins og þykir sigurinn verðskuldaður. Barcelona, sem er í öðru sæti með 87 stig, er enn fimm stigum á eftir meisturunum eftir sigur á Real Betis en þessi lið mætast í úrslitum bikarkeppninnar síðar í þessum mánuði. Real Madrid nægði jafntefli í leiknum gegn Atletico og fyr irfram var búist við að taugaspenna og varfærni myndi einkenna leik liðsins. Annað kom á daginn og Real Madrid lék einn sinn besta leik á keppnistímabilinu. Liðið náði strax góðum tökum á leiknum og lék sóknarknattspyrnu eins og það getur best. Taugaspennan virtist frekar þjaka leikmenn Atletico sem fengu fá færi í leiknum og sýndu heldur lítil tilþrif. Glæsitilþrif Raúls Um 100.000 áhorfendur voru á Santiago Bernabeu-leikvanginum og gífurleg fagnaðarlæti brutust út þegar heimaliðið náði forustunni á 36. mínútu. Markið gerði besti knattspyrnumaður Spánar, Raúl Gonzalez og var það sérleg glæsilegt. Sending barst til Raúl frá vinstri þar sem hann var inni í vítateignum og sneri baki í markið. Hann tók boltann niður með vinstri fæti, hélt honum á lofti, sneri sér við og smurði leðrinu upp í þaknetið. Þetta var 21. mark Raúls á þessu keppnistímabili. Eftir markið var aldrei spurning hvort liðið myndi sigra. Varnarmaðurinn frábæri og félagi Raúl í landsliðinu, Fernando Hierro, kom Real í 2-0 með góðu marki úr aukaspyrnu fyrir utan teig. Þetta var 6. mark Hierros á leiktíðinni og fagnaði hann því ákaft enda þá ljóst að titillinn væri í höfn. Hierro hljóp að hliðarlínunni og faðmaði að sér Fabio Capello, þjálfara liðsins, en þetta var síðasti leikur hans á Bernabeu þar eð hann hefur ákveðið að gerast á ný þjálfari A.C. Milan í heimalandi sínu, Ítalíu. Svartfellingurinn Petja Mijatovic koma heimamönnum í 3-0 á 56. mínútu eftir magnaða sendingu frá Clarence Seedorf, sem átti mjög góðan leik. Mijatovic lék fram hjá markmanninum, sem kom hlaupandi út og renndi knettinum í netið. Atletico minnkaði muninn á 64. mínútu er Esnaider nýtti sér kæruleysi í vörn Madrid og sendi knöttinn framhjá Bodo Ilgner, hinum þýska markverði heimaliðsins. Lið stöðugleika og aga Með sigrinum komst Real Madrid í 92 stig og hefur fimm stiga forskot á Barcelona þegar aðeins ein umferð er eftir. Real Madrid hefur aðeins tapað þremur leikjum á þessu tímabili, öllum með einu marki gegn engu og öllum á útivelli. Enginn vafi leikur á að liðið er hið besta á Spáni. Það hefur sýnt mestan stöðugleika í þessari löngu og ströngu meistarakeppni. Liðið er geysilega vel skipað og agað. Í leikmannahópnum er að finna nokkra snillinga sem eru í hópi bestu knattspyrnumanna heims. Nægir þar að nefna þá Raul og Hierro, Króatann Davor Suker, Mijatovic og Hollendinginn Seedorf. Þá er markmaðurinn Bodo Ilgner í sérflokki. Góður árangur Robsons Þótt Barcelona hafi oftlega boðið til réttnefndra flugeldasýninga á þessari leiktíð skortir liðið þann stöðugleika sem tryggt hefur Real Madrid meistaratitilinn í spænsku fyrstu deildinni. Liðið var um of háð frammistöðu Brasilíumannsins Ronaldos á þessari leiktíð og skorti jafnvægi. Hins vegar skrýðast margir frábærir knattspyrnumenn búningi Barcelona og skulu sérstaklega nefndir þeir Ivan de la Penya, Portúgalinn Luis Figo, fyrirliðinn Pep Guardiola og búlgarski snillingurinn, hrokagikkurinn og herkillinn Hristo Stoichkov. Þjálfari liðsins, Englendingurinn Bobby Robson, var oft gagnrýndur á þessu keppnistímabili fyrir liðsuppstillinguna og sennilega átti sú gagnrýni við nokkur rök að styðjast. Robson átti sýnilega í nokkrum erfiðleikum með að aðlagast aðstæðum hér á Spáni. Engu að síður hefur hann náð góðum árangri í starfi sínu. Barcelona er í öðru sæti deildarinnar, liðið er Evrópumeistari bikarhafa og er í úrslitum í spænsku bikarkeppninni, mætir Real Betis í úrslitaleiknum þann 28. þessa mánaðar. Stoichkov í stuði Barcelona tók á móti Betis á heimavelli sínum, Camp Nou, á sunnudagskvöld og sigraði með þremur mörkum gegn engu. Leikurinn var heldur tilþrifalítill enda um ekkert að keppa. Hristo Stoichkov lagði upp fyrsta markið á 44. mínútu sem framherjinn Oscar García skoraði. Stoichkov gerði annað markið á 75. mínútu eftir glæsilega og hraða sókn sem lauk með því að Búlgarinn tók knöttinn á lofti er hann kom hlaupandi á fullri ferð inn í vítateiginn og sendi hann af afli með vinstri fæti í markið. Þriðja markið kom átta mínútum fyrir leikslok og var þar á ferðinni Luis Enrique. Þetta var 17. mark hans á tímabilinu og 100. mark Barcelona í fyrstu deildinni í ár. Evrópusæti Valladolid Valladolid, sem átt hefur mjög gott keppnistímabil, sigraði Hercules, sem fallið er í aðra deild með einu marki gegn engu. Með sigrinum tryggði Valladolid sér þátttökurétt í Evrópukeppni félagsliða á næsta ári. Auk Hercules eru Sevilla og Logronyes fallin í aðra deild en Extremadura, Rayo Vallecano og Celta berjast um að halda sæti sínu í deildinni. Í annarri deild sigraði Merida og fer liðið upp í þá fyrstu ásamt Salamanca. Hlutskipti B-liða stórliðanna spænsku, Barcelona og Real Madrid varð hins vegar að falla niður í 2-deild B ásamt Almeria og Ecija. Ásgeir

Sverrisson

skrifar

frá Spáni