"HLUTIRNIR gerast hratt í þessum efnum, menn þurfa að vinna hratt og vel og einhenda sér í að ljúka tillögugerð varðandi stækkun Leifsstöðvar vegna aukningar í flugi Flugleiða og annarra félaga," sagði Pétur Guðmundsson flugvallarstjóri í Keflavík í samtali við Morgunblaðið aðspurður um áætlanir um stækkun flugstöðvarinnar m.a. í framhaldi af fréttum um stækkun flugflota Flugleiða.
Aukin umferð um flugstöð Leifs Eiríkssonar

Brýnt að ljúka til-

lögum um stækkun

"HLUTIRNIR gerast hratt í þessum efnum, menn þurfa að vinna hratt og vel og einhenda sér í að ljúka tillögugerð varðandi stækkun Leifsstöðvar vegna aukningar í flugi Flugleiða og annarra félaga," sagði Pétur Guðmundsson flugvallarstjóri í Keflavík í samtali við Morgunblaðið aðspurður um áætlanir um stækkun flugstöðvarinnar m.a. í framhaldi af fréttum um stækkun flugflota Flugleiða.

Hjá Framkvæmdasýslu ríkisins er nú unnið að tillögum um stækkun og sagði flugvallarstjórinn að þær yrðu tilbúnar síðar í sumar. Átta stæði eru nú við landganginn og eru sjö þeirra tengjanleg með landgöngubrúm. Nokkur stæði eru fyrir fleiri flugvélar spölkorn í burtu, nærri viðhaldsstöð Flugleiða sem Pétur Guðmundsson segir unnt að grípa til ef hin stæðin fyllast. Þangað þyrfti þá að aka farangri og farþegum og því yrði þar aðeins um neyðarúrræði að ræða. Einnig sagði hann að sú fjölgun innritunarborða sem komin væri í gagnið væri aðeins skammgóður vermir og endurskoða þyrfti allar áætlanir. Fullbyggð stöð gerir ráð fyrir allt að 20 flugvélastæðum en eftir er að ákveða útfærslu og framkvæmdahraða.

Aukið álag kallar á stækkun

"Alls konar kostir hafa verið til skoðunar síðasta vetur og í vor og það er ekki langt í að áætlun liggi fyrir. Það fer ekki á milli mála að mikil lækkun fargjalda síðustu misserin hefur aukið mjög fjölda flugfarþega, frjálsræði er að aukast og Flugleiðir eru að bæta við vélum. Allt þetta eykur álagið á stöðina og kallar á stækkun. Það er ekki eftir neinu að bíða, menn verða að einhenda sér í þetta og nú er unnið að nauðsynlegri forvinnu," sagði Pétur Guðmundsson.