Opið fimmtudaga til sunnudaga frá 14-18. Til 25. júní. Aðgangur ókeypis. VERK Bandarísku listakonunnar Roni Horn vöktu drjúga athygli rýnisins er hún sýndi í öllum sölum Nýlistasafnsins í marz 1992 og er framkvæmdin honum enn í fersku minni.

Lestrar-

herbergið MYNDLIST

Ingólfsstræti 8

HUGMYNDAFRÆÐI

RONI HORN

Opið fimmtudaga til sunnudaga frá 14-18. Til 25. júní. Aðgangur ókeypis.

VERK Bandarísku listakonunnar Roni Horn vöktu drjúga athygli rýnisins er hún sýndi í öllum sölum Nýlistasafnsins í marz 1992 og er framkvæmdin honum enn í fersku minni. Einkum sá hluti er snéri að beinni virkjun íslenzkrar náttúru, en hér eru útlendir sér á báti í núlistum og hafa fyrir margt gerst lærimeistarar innlendra starfsbræðra sinna. Fiskað í íslenzkri landhelgi um nýstárlegar hliðar hugmyndafræðilegrar listar og hefur lengi verið rík ástæða til að gefa þeim fyllsta gaum.

Þegar einn mikilægasti listamaður Bandaríkjanna segir réttilega, "að þessi nútímalegu og verksmiðjulegu híbýli fólks í bæjum landsins, séu með öllu aðskilin frá náttúrulegum aðstæðum á eyjunni, og telur það sem er að gerast hálfgert hermdarverk" hljóta ýmsir að sperra upp augun. Vísaði ég til þessara ummæla í listdómi mínum og tel sérstaka ástæðu til að árétta þau hér, einkum vegna þess, að nú er komið í ljós, að sjálft landið er eitt hið skemmdasta í Evrópu. Á þá hlið sem veit að sjónrænni mengun flatneskjulegra steinkumbalda í skókassaformi, hefur rýnirinn endurtekið vísað til frá upphafi skrifa sinna, og þótt marga grunaði hitt óraði fáa að ástandið væri jafn slæmt. Er einungis að vona, að ekki fari eins fyrir fiskimiðunum, fleiri auðlindum og loks hreina loftinu. Ljóst er að hér þarf hugarfarsbreyting að koma til og hætta þarf að líta þá hornauga er hér fjalla opinskátt um hluti. Raunsæi er ekki svartagallsraus, hins vegar er það bjartsýni að álíta að rökræða og varnarorð hafi áhrif. Sú mótun sem virðist mikilvægust í stöðunni og hefur í alltof ríkum mæli mætt afgangi, er að þroska og hanna hugarfar landsmanna gangvart umhverfi sínu, og hér er mikið hlutverk í höndum metnaðarfullra listamanna. Ekki nægir, að hafa "hreint land, fagurt land" eftir gömlu meistarana hangandi á veggjum sálarlausra híbýla, og því síður bunka af verðbréfum í skúffu ef andrými og skilyrði til lífs er ekki lengur til staðar.

Roni sagði þá ennfremur, "að á Íslandi sé sama peningaviðhorfið gagnvart landinu að ryðja sér mjög til rúms og í Bandaríkjunum, en landið hér þoli bara miklu minni átroðning. Í Bandaríkjunum er landið miklu eldra, margfalt stærra og þolir mun meira." Þetta peningaviðhorf var raunar þegar fyrir hendi er hún viðhafði ummælin, hið raunalega er, að við virðumst vera löngu farnir framúr Bandaríkjamönnum sé tekið mið af hinni háskalegu þróun á allra síðustu árum.

Listakonan hefur heimsótt landið reglulega frá árinu 1975, er gagntekin af því svo sem verk hennar eru til vitnis um, og sú staðreynd að hún hefur snúið til baka svona um það bil 2O sinnum. Ekki skulum við svo vanmeta auglýsingagildi athafna hennar, sem sér stað á mikilvægum listsýningum vestan hafs og austan, okkur fullkomlega að kostnaðarlausu.

Verkin á sýningunni hlutgerast í formi texta, teikninga eða ljósmynda, er birtast í nokkrum bókum er frammi liggja, og segir listakonan að hvert bindi sé óður um ákveðin þátt gagnkvæmra hrifa á milli hennar og Íslands. Það sé ekki beinlínis um Ísland og ekki beinlínis um sig, heldur um gagnkvæm tjáskipti við ákveðinn stað í heiminum.

Textarnir eru oftar en ekki afar djúpt hugsaðir og á fallegu máli, opinbera hið nána samband við landið sem Roni hefur þróað með sér í tímans rás, og hún hefur næmt auga fyrir látlausum en hrifmiklum sjónarhornum jafnt í náttúrunni og landslaginu og byggingum.

Álykta má að þetta sé frekar bókasýning en listsýning, en menn komast á aðra skoðun við flettingu þeirra, því þær opna manni annan heim en venjulegar bækur og hreyfa við hugsanaferlinu. Afar mikilvæg sýning, er lætur lítið yfir sér í fyrstu en stækkar við nánari viðkynningu og hverja heimsókn.

Bragi Ásgerisson

Roni Horn