Í DAG kemur út hljómdiskur með íslenskum lögum og ljóðum í enskri þýðingu. Það er Magnús Magnússon sjónvarpsmaður sem velur ljóðin og les þau. Í samtali við Morgunblaðið sagði hann að hann hafi fyrst og fremst valið ljóð sem hann hefur gaman af.
Diskur með ljóðaupplestri Magnúsar Magnússonar

Vildi sýna hve fáguð

íslensk nútímaljóðlist er

Í DAG kemur út hljómdiskur með íslenskum lögum og ljóðum í enskri þýðingu. Það er Magnús Magnússon sjónvarpsmaður sem velur ljóðin og les þau. Í samtali við Morgunblaðið sagði hann að hann hafi fyrst og fremst valið ljóð sem hann hefur gaman af.

"Þarna eru uppáhaldsljóð mín eins og Sofðu unga ástin mín og Einn sit ég við drykkju, bæði eftir Jóhann Sigurjónsson sem er reyndar eitthvað skyldur mér. Þetta er annars tuttugustu aldar skáldskapur.

Með vali mínu vildi ég sýna fram á hve fáguð íslensk nútímaljóð eru. Ég hafði reyndar valið nokkur nítjándu aldar ljóð en það er svo erfitt að þýða þau án þess að þau hljómi eins og einhver léleg eftirlíking af Wordsworth; það eru í raun engar góðar þýðingar til af þessum kveðskap síðustu aldar."

Á diskinum eru ljóð eftir Stein Steinarr, Matthías Johannessen, Ólaf Jóhann Sigurðsson, Jón úr Vör, Jóhann Sigurjónsson, Njörð P. Njarðvík, Nínu Björk Árnadóttur, Hannes Pétursson, Þuríði Guðmundsdóttur, Jón Óskar, Snorra Hjartarson og Jón Dan. Þýðendur ljóðanna eru auk Magnúsar Sigurður A. Magnússon, Alan Boucher, Marchall Brement, Bernard Scudder og Kenneth East.

Áhersla á fjölbreytt val

Auk þess að sýna fágun íslensks nútímamskáldskapar segist Magnús hafa lagt áherslu á að hafa valið fjölbreytt. "Það eru bæði heimspekileg ljóð þarna og ljóðræn frásagnarljóð, þarna eru líka bæði ljóð úr sveit og borg."

Magnús segist alltaf fylgjast með íslenskri ljóðlist. "Þegar ég kem heim kaupi ég alltaf það sem hefur verið að koma út. Ég hef þó ekki getað fylgst nógu vel með síðustu fimm ár því ég hef ekkert komið heim. Það er vegna þess og einnig vegna þess að það er svo lítið til þýtt af yngstu höfundunum sem þeir eru ekki með á þessum diski. Þetta er bara sýnishorn og reynir held ég ekki að vera neitt annað og meira."

Magnús

Magnússon

sjónvarpsmaður velur ljóðin og les þau. Í samtali við Morgunblaðið sagði hann að hann hafi fyrst og fremst valið ljóð sem hann hefur gaman af.