Höfundur tónlistar: Andrew Lloyd Webber. Höfundur texta: Tim Rice. Þýðandi: Jónas Friðrik Guðnason. Leikstjóri: Andrés Sigurvinsson. Tónlistarstjóri: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Söngþjálfun: Sverrir Guðjónsson. Dansahöfundar: Ástrós Gunnarsdóttir og Hany Hadaya. Leikmynd: Axel Hallkell Jóhannesson. Ljós: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Búningar: Ásta Guðmundsdóttir.

Stelpa slær

í gegn og giftist vel

LEIKLIST

Pé-leikhópurinn í Húsi íslensku óperunnar

EVÍTA

Höfundur tónlistar: Andrew Lloyd Webber. Höfundur texta: Tim Rice. Þýðandi: Jónas Friðrik Guðnason. Leikstjóri: Andrés Sigurvinsson. Tónlistarstjóri: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Söngþjálfun: Sverrir Guðjónsson. Dansahöfundar: Ástrós Gunnarsdóttir og Hany Hadaya. Leikmynd: Axel Hallkell Jóhannesson. Ljós: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Búningar: Ásta Guðmundsdóttir. Hárgreiðslumeistari: Árni Kristjánsson. Förðun: Árdís Bjarnþórsdóttir og Svavar Örn. Hljómsveit: Eiður Arnarson, Einar St. Jónsson, Eiríkur Örn Pálsson, Karl Olgeirsson, Kjartan Valdimarsson, Matthías Hemstock, Ólafur Hólm Einarsson og Óskar Guðjónsson. Leikarar, söngvarar og dansarar: Agnes Kristjónsdóttir, Andrea Gylfadóttir, Arnar Freyr Gunnarsson, Arnbjörg Valsdóttir, Árni Kristjánsson, Baldur Trausti Hreinsson, Benedikt Elfar, Bjartmar Þórðarson, Björgvin Halldórsson, Bryndís Halldórsdóttir, Ellen Erla Egilsdóttir, Egill Ólafsson, Geir Magnússon, Georg Haraldsson, Guðbjörg Jóhannsdóttir, Guðmundur Karl Friðjónsson, Hany Hadaya, Hera Björk Þórhallsdóttir, Jóhann Freyr Björgvinsson, Jóhanna Harðardóttir, Margrét Sif Sigurðardóttir, Pétur Örn Guðmundsson, Sigrún Waage, Sigursteinn Stefánsson, Sveinbjörg Þórhallsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Vilhjálmur Goði Friðriksson. Mánudagur 16. júní.

EINU SINNI var forsetafrú í Argentínu, blanda í réttum hlutföllum af Maríu mey, Raspútín, Jesebel og La Pasionöru. Hún hóf ferilinn sem leikkona af lágum stigum, en tókst með persónutöfrum sínum og mælgi að bjarga manni sínum úr prísund og koma honum á forsetastól. Þaðan stjórnaði hún sem hægri hönd hans, endurskipulagði velferðarkerfi landsins, barðist fyrir réttindum kvenna, deildi og drottnaði og lét mikið á sér bera. Að henni látinni reyndu fylgismenn hennar að koma henni í dýrlingatölu svo óvinir hennar létu lík hennar hverfa. Eva Perón skóp ímynd hinnar gáfuðu, ljóshærðu forsetafrúar sem er efalaust einhverjum fyrirmynd enn í dag.

Það eru rúm tuttugu ár síðan söngleikurinn um Evítu sá dagsins ljós, en frumsýning kvikmyndagerðar eftir honum á árinu sem leið hefur án efa ýtt undir þá ákvörðun að setja þetta verk upp nú og hér. Það er auðsætt að tekinn hefur verið sá póll í hæðina að skapa vandað sviðsverk og leggja jafna áherslu á söng, leik, dans og útlit sýningarinnar. Í heildina er þetta jafnbesta uppfærsla á söngleik sem ég hef séð hér á landi, en auðvitað má finna ýmsa vankanta.

Veigamestir eru þeir gallar sem eru á verkinu sjálfu og þá helst hve hratt er farið yfir sögu í byrjun áður en byrjað er á eiginlegu söguefni ­ þ.e. sambandi Peróns og Evu og valdabrölti þeirra. Annað er nokkuð vandræðalegt hlutverk sögumanns, nefndum eftir Che Guevara, byltingarhetjunni góðkunnu. Hér tekur leikstjóri hárrétta ákvörðun og dregur úr tengslum þessarar persónu við fyrirmyndina, enda hitti Guevara aldrei Evu Perón og var einungis sex ára gamall er sagan hefst. Einnig er þýðingin nokkuð misjöfn. Þótt oft takist dável til vill brenna við að rangar áherslur séu á setningum og þær of flóknar þannig að merkingin skilar sér ekki. Ekki bætti úr skák að það kom fyrir að textaframburði var áfátt.

Hér hefur verið valið í hlutverk eins og gera á í söngleik; þ.e. söngurinn er í fyrirrúmi og í raun stórt afrek hve vel tekst til, hvort sem er í einsöng eða kórsöng. Dansinn er frábær, hvort sem um er að ræða tangódans Hany Hadaya og Bryndísar Halldórsdóttur eða hópdansa. Hinir mörgu ungu dansarar gefa von um að nú verði hægt að taka til höndum og setja Broadway- söngleiki upp hér á landi með glans í framtíðinni. Vanur leikstjóri hefur reynt að nýta söngvara og dansara í leik eins og honum framast var unnt og þótt leikurinn sé veikasti hlekkurinn brestur hann aldrei. Einsöngvararnir eiga það til að fara úr einni uppstillingunni í aðra, enda flestir rútíneraðir í sviðsframkomu, en leikstjórinn hefur greinilega tekið á þessu eins og honum framast var unnt.

Andrea Gylfadóttir er sú þeirra sem helst tekst að brjótast úr þessum viðjum. Hún náði að samræma túlkunina í söng og leik þannig að unun var að fylgjast með og það ásamt einstakri útgeislun leiddi til þess að Andrea og Evíta runnu saman í eina heild. Egill Ólafsson féll eins og flís við rass að ímynd hins einráða forseta og söngur hans var meistaralega unninn. Björgvin Halldórsson átti góða takta í hlutverki gamals elskhuga Evítu og söng fagmannlega. Vigdís Hrefna Pálsdóttir átti salinn er hún söng um hvað tæki við í lífi hennar eftir að Evíta varpar þessari fyrri hjákonu Peróns á dyr. Baldur Trausti Hermannsson söng vel og greinilega og sýndi ótrúlegt öryggi í túlkun sögumannsins.

Umgjörðin var einnig vandlega unnin. Sviðsmyndin er einföld og góð til síns brúks ­ enda vart á öðru val á þröngu sviðinu ­ en það sem bjargaði útliti sýningarinnar voru skyggnur og firnagóð ljós. Búningar voru hugvitsamlega unnir, fjölbreyttir og gáfu sýningunni ákveðinn tímastimpil. Ekki má gleyma hljóðinu: þar var náð einhverju jafnvægi sem hefur ekki áður heyrst í íslenskri söngleiksuppfærslu. Einstöku sinnum var notast við upptöku á bandi til að fylla botninn á söng og tókst með ólíkindum vel að splæsa þetta allt saman. Eini annmarkinn á þessum upptökum var frámunalega ofleikin tilkynning lesin af Arnari Jónssyni.

Í heildina hefur nýjum hjalla verið náð í íslenskum söngleikjauppfærslum. Það sem er minnisstæðast er hve jafngóður söngurinn er, hve leikhópurinn er traustur í söng og dansi og svo auðvitað stjarnan: Andreu allt!

Sveinn Haraldsson.

Morgunblaðið/Jim Smart "EVA PERÓN skóp ímynd hinnar gáfuðu, ljóshærðu forsetafrúar sem er efalaust einhverjum fyrirmynd enn í dag," segir Sveinn Haraldsson m.a. í gagnrýni sinni um söngleikinn.