AUGNDEILD Landspítalans hefur, eftir breytingar sem gerðar voru fyrir skömmu, fjögur rúm til umráða á einni stofu. Það er fækkun um helming, eða úr 8, en þegar deildin var á Landakoti hafði hún 12 rúm til umráða. Að sögn Einars Stefánssonar yfirlæknis er þessi ráðstöfun vonandi tímabundin og verður á meðan reynt að halda fjölda aðgerða uppi með því að gera þær sem flestar án innlagnar.
Breytingar á augndeild Landspítala

Legurúmum fækk-

að í sumar en þjón-

ustan bætt í haust AUGNDEILD Landspítalans hefur, eftir breytingar sem gerðar voru fyrir skömmu, fjögur rúm til umráða á einni stofu. Það er fækkun um helming, eða úr 8, en þegar deildin var á Landakoti hafði hún 12 rúm til umráða. Að sögn Einars Stefánssonar yfirlæknis er þessi ráðstöfun vonandi tímabundin og verður á meðan reynt að halda fjölda aðgerða uppi með því að gera þær sem flestar án innlagnar.

Einar segir þrengslin á Landspítalanum gríðarleg og koma fram á margan hátt. Ráðstöfunin á augndeildinni sé angi þeirra og hluti af sumarþrengingum spítalanna og heilbrigðiskerfisins í heild og þótt hún valdi vissulega óþægindum þá sé reynt að láta hana hafa sem minnst áhrif á starfsemi deildarinnar. "Við reynum eftir bestu getu að gera aðgerðir án innlagnar. Í staðinn kemur það að sjúklingar gista heima hjá sér. Þannig ráðum við við þá miklu fækkun rúma sem verið hefur á síðustu árum, sem er að mörgu leyti eðlileg þróun," segir Einar. Vandamál leyst í samráði við aðrar deildir Breytingin hefur það í för með sér að sjúklingar af báðum kynjum eru saman í stofu. Einar segir ekki rúmafjöldann umkvörtunarefni í sjálfu sér heldur frekar þrengslin og vöntun á starfsaðstöðu og búningsaðstöðu fyrir sjúklinga sem þar af leiðandi hafa ekki það næði sem æskilegt væri. Sjúklingarnir taki þessu alveg ótrúlega vel og sýni starfsfólki skilning. "Þetta er stór spítali og við komum til með að reyna að leysa vandamál sem upp koma í samráði við aðrar deildir," segir Einar. Hann segir breytingar á deildinni hafa verið örar síðustu misserin en reynt hafi verið að gera ráðstafanir til að laga starfsemina að þeim, m.a. með því að gera fleiri aðgerðir án innlagnar. Þá segist hann vongóður um að útbúin verði bærileg aðstaða fyrir skurðaðgerðir án innlagnar á spítalanum á næstu mánuðum og þannig muni hluti þess vanda, sem nú er við að glíma, leysast. Þjónustan bætt í haust Anna Stefánsdóttir hjúkrunarforstjóri segir ástandið á augndeild tímabundið. Hún segir að þegar augndeildin hafi flust á Landspítalann af Landakoti hafi hún verið á lyflækningasviði en nú hafi hún verið flutt á handlækningasvið.

Hún segir að starfsemi deildarinnar dragist saman í sumar en í haust verði hún aukin aftur og þá verði dagdeildarrýmum fjölgað og þjónustan bætt. Þá verður starfsemin tvískipt. Legurýmin verða þar sem starfsemi deildarinnar er núna og hins vegar bætist við aðstaða annars staðar í spítalanum og þar verður dagdeild en stór hluti sjúklinga augndeildar getur verið á dagdeild. Á dagdeild er ekki um að ræða ákveðinn fjölda rúma og verður þar hægt að sinna breytilegum fjölda sjúklinga. Anna segir að með þesssari breytingu geti deildin bætt þjónustu sína og sinnt fleiri skjólstæðingum en alltaf þurfi að draga úr yfir sumartímann.