"HÖFUM við gengið til góðs.." spurði skáldið, Jónas Hallgrímsson, sem í kvæðum sínum hvatti þjóðina til aukins frelsis og framfara, rúmri öld áður en við fögnuðum frelsi, sem sjálfstæð og fullvalda þjóð". Þannig hefst leiðari Bæjarins besta á Ísafirði í síðustu viku.
»Mannhelgi "HÖFUM við gengið til góðs.." spurði skáldið, Jónas Hallgrímsson, sem í kvæðum sínum hvatti þjóðina til aukins frelsis og framfara, rúmri öld áður en við fögnuðum frelsi, sem sjálfstæð og fullvalda þjóð". Þannig hefst leiðari Bæjarins besta á Ísafirði í síðustu viku. LEIÐARAHÖFUNDUR segir: "Meðal þingmanna við Öxará 1944, þegar þingmenn kusu fyrsta forseta lýðveldisins, var Ólafur Thors, umdeildur stjórnmálamaður en mikilhæfur leiðtogi."

Í ræðu sem Ólafur flutti nokkru eftir lýðveldisstofnunina sagði hann m.a.: "Kjörorð hins íslenska lýðveldis er mannhelgi".

Ástæða að staldra við OG ÁFRAM segir: "Ástæða er til að staldra við þessi orð. Þau vekja áleitnar spurningar og það er freistandi að velta fyrir sér hver merking þeirra var frá brjósti hins látna stjórnmálaskörungs, tengja hugleiðingar því sem nú er að gerast á mörgum helstu sviðum þjóðlífsins og einfaldlega spyrja okkur nokkurra samviskuspurninga. Svo mikið er víst að sú fyrirhöfn rýrir ekki gildi þjóðhátíðardagsins, sem ætlunin er að halda hátíðlegan í næstu viku."

Mátturinn til mannhelgi LOKS segir: "Stúdentar tengjast þjóðhátíðardeginum sterkum böndum þótt minna fari nú en áður fyrir upphafningu hvítu kollanna þann dag. Við skólaslit Framhaldsskóla Vestfjarða fyrir sömmu sagði Björn Teitsson, skólameistari m.a. í ávarpi sínu til nýstúdenta: "Við lifum líklega á bestu tímum sem runnið hafa upp yfir Íslendinga. Við lifum við betri lífskjör en flestar aðrar þjóðir. Fjölskyldur hér á landi eru yfirleitt býsna vel efnum búnar og gera prýðilega við börn sín. En það er ekki víst að þetta verði alltaf svona. Best er að gá vel að sér. Nokkrar blikur eru á lofti. Fólk þarf að mennta sig vel til að auka þekkingu sína og víðsýni, af hvorugu fæst seint nóg. Sumt bendir nú hins vegar til þess að við Íslendingar metum menntun ekki nægilega mikils. Til dæmis virðist íslenskt atvinnulíf ekki borga nógu vel fyrir hana. Þetta þurfa sem flestir að íhuga. Ég vil skora á ykkur að halda á lofti gildi menntunar, hvar sem þið komið."

Orð skólameitara eru gott vegarnesti ungu fólki, sem bíður þess að erfa landið og takast á við framtíðina.

Tilvitnað kjörorð lýðveldisins ber aftur á móti að hafa í öndvegi. Menntun dugar skammt ef máttinn til mannhelgi þrýtur. Fari svo er stutt í efasemdina, sem felst í spurningu þjóðskáldsins."