Valgarður Gunnarsson. Opið fimmtudaga ­ sunnudaga frá 14­18. Til 29. júní. Aðgangur 200 krónur. MÁLARINN Valgarður Gunnarsson hefur skapað sér nokkra sérstöðu í íslenzkri myndlist með myndverkum sem hann byggir á ákveðin hátt á mynstri.

Mynstraður

heimur

MYNDLIST

Sjónarhóll

MÁLVERK

Valgarður Gunnarsson. Opið fimmtudaga ­ sunnudaga frá 14­18. Til 29. júní. Aðgangur 200 krónur.

MÁLARINN Valgarður Gunnarsson hefur skapað sér nokkra sérstöðu í íslenzkri myndlist með myndverkum sem hann byggir á ákveðin hátt á mynstri. Ekki þó endilega formrænu mynstri, því að í smærri myndum hans kemur fram fíngerður saumur eftir endilöngu og þvers og kruss um grunnflötin, myndar skipulegan byggingarfræðilegan heim. Að hluta til fá myndirnar þá yfir sig svip af mynstruðum einingum, en þó er frekar að listamaðurinn sé að styrkja burðargrindina og auka á ríkdóm fíngerðra blæbrigða, jafnframt því að hann jarðtengir sterka liti innri lífæðum myndflatarins. Fyrir vikið fá myndirnar svip fyllingar og einslitir fletirnir eru kirfilega skorðaðir við myndflötinn. Kennimark Valgarðs er afar einfaldur myndheimur, þar sem mest ber á fólki eða afmörkuðum hluta þess, jafnvel eitthvað sem það notar og ber dags daglega, t.d. skór eða húfa.

Vinnubrögðin eru mjög vönduð og jafnframt er ferlið afar seinvirkt, en hér er markmiðið, að byggja upp sannfærandi myndheildir á mjög skýran og ljósan hátt, frambera stóra lifandi og mettaða fleti sem iða af innra lífi.

"Hugmyndirnar að þessum verkum koma úr ýmsum áttum. Stundum er mér ekki ljóst hvaðan þær eru ættaðar, sennilega úr undirvitundinni. Oft kannst ég ekki við þær þegar þær eru komnar á striga eða blað. Þá er eins og þær hafi tekið af mér völdin. En til samans eru þær sjálfsagt framlengingar af eigin sálarmynstri, án þess að ég geti skýrt það nánar."

Hér snertir Valgarður við þekktu fyrirbæri hjá málurum, því hversu skipulagðir sem þeir nú eru í vinnu sinni kemur að því að litir og form losa um sköpunarþörfina og leiða þá rökrétt að nokkuð öðrum niðurstöðum en þeir áttu von á. Hugsæi og skapandi undirvitund vaknar til lífs og hér skilur á milli listar og handverks, egg getur orðið að andliti og andlit að eggi, en hvernig þetta þróast á myndfletinum fer eftir upplagi málarans og hugmyndauðgi. Það er nú þetta sem skapar átök á myndfleti og gerir myndlistina svo heillandi, fyrr en varir geta vinnubrögðin snúist upp í pataldur og þráhyggju sem getur af sér ný og fersk viðhorf. Þannig er það óheft og eðlisborin vinnan sem skapar nýjungarnar og heimspeki þeirra verður til jafnharðan, því öll skapandi list er í andstöðu við ytri valdboð hvort sem þau eru pólitísk eða listpólitísk.

Valgarður segist geta hugsað sér að mála abstrakt, og virðist þá ekki gera sér fulla grein fyrir að sköpunarferli myndanna er í sjálfu sér mjög sértækt, þótt hann styðjist við hlutvakin form. Í raun er styttra í það óhlutlæga en hlutbundna og sviðið opið til beggja átta. Listamaðurinn notar hið hlutbundna í myndunum til að vekja upp fjarrænar tímalausar stemmningar og það er afar áríðandi í hinu ákveðna sköpunarferli sem hann hefur tileinkað sér. Hins vegar er einnig hægt að ná þessu fram á alveg óhlutbundinn hátt, en liggur einfaldlega ekki í eðli hans, í öllu falli ekki enn sem komið er. Það er eitthvað munúðarfullt og austrænt í vinnubrögðunum sem streymir á vit skoðandans, sjónrænt helst í myndum eins og Sjónarhóll og Landslag. Yfirleitt eru myndirnar vel byggðar upp og yfir þeim ró og höfgi, hárauða myndin "Samtal" er í afar jöfnum og heillegum stígandi og "Röndótt húfa" framúrskarandi vel máluð. Sama má segja um myndir eins og "Bjartur stafur" og "Túnfótur" sem eru einfaldar og ferskar í lit og byggingu og vísa til fortíðar. Valgarði Gunnarssyni er óhætt að rækta rólegur sinn garð um langa framtíð því hann er á hægri og jafnri þroskabraut sem hægast getur skilað af sér ennþá mikilsverðari hlutum.

Bragi Ásgeirsson



VALGARÐUR Gunnarsson: "HÖFUÐ", olía á striga.