VISSULEGA virðast möguleikar sumra knapanna minni en annarra og eru vafalítið fyrst og fremst að reyna að ná sér í reynslu. En það er með þessa keppni eins og happdrættin að sá sem ekki á miða getur verið öruggur um það eitt að fá ekki vinning.
Margir kallaðir en fáir útvaldir HESTAR Keppni um sæti í landsliðinu hefst á morgun þar sem 29 knapar munu keppa um þau fimm sæti sem í boði eru. Valdimar Kristinsson gluggaði í skrána og sá að fjórtán knapar hafa bæst í þann hóp sem hann nefndi til sögunnar í hestaþætti í síðustu viku og eru þar á meðal þrautreyndir fyrrum landsliðsmenn niður í unga efnilega knapa sem rétt hafa slitið barnsskónum á þessum vettvangi.

VISSULEGA virðast möguleikar sumra knapanna minni en annarra og eru vafalítið fyrst og fremst að reyna að ná sér í reynslu. En það er með þessa keppni eins og happdrættin að sá sem ekki á miða getur verið öruggur um það eitt að fá ekki vinning. Sigurður Matthíasson er ekki skráður til leiks eins og til stóð sem þýðir að hann mun nýta keppnisrétt sinn á Hugin frá Kjartansstöðum og verða þar með áttundi landsliðsmaðurinn. Þessir 29 knapar mæta með 36 hesta í keppnina, fimm knapanna eru með tvo hesta en einn er með þrjá hesta. Fimmgangshestarnir eru mun fyrirferðarmeiri en mest skráning er í gæðingaskeið 21 og vekur það nokkra athygli því greinin ein og sér gefur ekki sæti í liðinu heldur reiknast aðeins með í keppninni um stigasöfnunarsætið. Í fimmgang eru 20 skráðir, í tölt T1 sem er hefðbundna töltkeppnin 19, í tölt T2, oft kallað slaktaumatölt, 18. Í fjórgang eru skráðir 9 og aðeins 2 í fimikeppni. Fimmgangsarmurinn sterkari

Þessi skipting er mjög í samræmi við það sem verið hefur og undirstrikar mikinn styrk á fimmgangsvængnum en heldur veikari stöðu á fjórgangsvæng. Yngsti keppandinn að þessu sinni er Davíð Matthíasson með Prata frá Stóra Hofi en aðrir sem ekki var getið um í síðustu viku eru Páll Bragi Hólmarsson með Hramm frá Þóreyjarnúpi, Gunnar Arnarsson með Snilling frá Austvaðsholti, Vignir Jónasson með Þokka frá Bjarnanesi, Halldór Svansson með Ábóta frá Bólstað, Þóra Brynjarsdóttir með Kjarna frá Flögu, Erling Sigurðsson er með Adam frá Götu og Feng frá Skörðugili, Auðunn Kristjánsson með Njörð frá Aðalbóli og Ask frá Djúpadal, Einar Þ. Jóhannsson með Sálm frá Stokkseyri, Adolf Snæbjörnsson með Pistil frá Búlandi, Sigurjón Gylfason með Kolbak frá Viðvík, Elsa Magnúsdóttir á Demanti frá Bólstað, Guðmundur Einarsson með Stjörnufák frá Viðvík, Tómas Snorrason með Óðinn frá Miðhjáleigu, og gamla brýnið Ragnar Hinriksson er með þá Hjört frá Ketilsstöðum, Glað frá Sigríðarstöðum og Jóreyk frá Beinakeldu. Tveir keppa um skeiðsætið

Úrtökukeppnin er tvær umferðir og hefst fyrri umferðin á morgun klukkan 10 með fjórgangi og síðan í þessari röð, gæðingaskeið, fimi, slaktaumatölt og fimmgangur. Á fimmtudegi hefst dagskrá á sama tíma með 250 metra skeiði, þá tölt T1 og endað á 250 metra skeiði. Frí verður á föstudag en dagskrá hefst klukan tíu bæði laugardag og sunnudag. Röð dagskrárliða verður sú sama og fyrri dagana tvo en gert er ráð fyrir að keppendur verði mun færri í síðari umferðinni. Keppendum er ekki skylt að fara alla spretti í skeiði. Hafi keppandi náð viðunandi tíma að hans mati þarf hann ekki að fara næsta sprett en verður þó að tilkynna það með klukkustundar fyrirvara. Skeiðhestur sem valinn verður sem slíkur þarf að hafa náð skeiðtíma 23 sek. eða þar undir á árinu og bestum tíma þeirra sem keppa um skeiðsætið í úrtökukeppninni. Tvö hross Sprengi-Hvellur frá Efstadal og Hátíð frá Hóli hafa náð þessu lágmarki og munu þau ásamt knöpunum Loga Laxdal og Sigurði Marínussyni koma til með að berjast um þetta sæti. Aðrir knapar sem taka þátt í 250 metra skeiði nýtist árangurinn í greininni sem þeir ná þar í keppninni um stigasöfnunarsætið. Keppnin verður haldin að Varmárbökkum í Mosfellsbæ, félagssvæði Harðar í Kjósarsýslu, og má ætla að fylgst verði með af miklum áhugi þessa fjóra daga sem keppnin stendur yfir. Þetta mun í annað sinn sem úrtaka er haldin að Varmárbökkum.

Valdimar Kristinsson Morgunblaðið/Valdimar Kristinsson TVEIR munu berjast um sætið í skeiðinu , Logi Laxdal sem hér sést ásamt hesti sínum, Sprengi-Hvelli frá Efstadal, á sigurstundu og Sigurður Marínusson sem er með Hátíð frá Hóli. Staða Loga og Sprengi- Hvells er vænlegri fyrir keppnina en spurt er að leikslokum.