YFIRMENN austur-þýsku leyniþjónustunnar færðu sér í nyt áætlanir nasista í heimsstyrjöldinni síðari um hreinan arískan kynstofn til að koma útsendurum sínum fyrir á Vesturlöndum á tímum kalda stríðsins. Þetta kemur fram í skjölum sem nýlega komu í ljós í Berlín en þau tengjast m.a. örlögum barna af norsku móðerni og þýsku faðerni, sem flutt voru til Þýskalands í stríðinu.

Njósnað í nafni

norskra barna

Berlín. The Daily Telegraph.

YFIRMENN austur-þýsku leyniþjónustunnar færðu sér í nyt áætlanir nasista í heimsstyrjöldinni síðari um hreinan arískan kynstofn til að koma útsendurum sínum fyrir á Vesturlöndum á tímum kalda stríðsins. Þetta kemur fram í skjölum sem nýlega komu í ljós í Berlín en þau tengjast m.a. örlögum barna af norsku móðerni og þýsku faðerni, sem flutt voru til Þýskalands í stríðinu. Í ljós hefur komið að minnsta kosti þrír njósnarar héldu til Noregs á vegabréfum slíkra barna og höfðu samband við fjölskyldur þeirra undir fölsku flaggi.

Hluti af áætlun nasista um hreinan arískan kynstofn, var að hvetja þýska hermenn til að geta börn með arískum konum. Var áætlunin hugarfóstur Heinrichs Himmlers og kölluð Lebensborn. Alls fæddust um 6.000 börn í Noregi, sem áttu þýskan föður, og voru um 300 þeirra tekin af mæðrum sínum og flutt til Þýskalands þar sem þau ólust upp á barnaheimilum en þau átti að ala upp sem næstu kynslóð hins aríska yfirburðakynstofns.

Svipað var uppi á teningunum í öðrum hernámslöndum Þjóðverja í heimsstyrjöldinni. Er Þýskalandi var skipt upp í lok heimsstyrjaldarinnar, lentu mörg þessara barna austan megin járntjaldsins, aðeins um helmingur þeirra komst aftur til mæðra sinna. Gerði austur-þýska leyniþjónustan sér fljótlega grein fyrir því að tilvist barnanna gæti komið henni til góða. "Við urðum yfir okkur spennt vegna þess hversu ríkulegur mannlegi efniviðurinn var," segir einn starfsmanna Stasi, í samtali við Spiegel .

Norðmenn tortryggnir

Í nýjasta hefti blaðsins er rakin saga manns, sem átti norska móður og þýskan föður. Maðurinn, Ludwig Bergman, var fluttur til Þýskalands árið 1941, þar sem hann ólst upp og býr raunar enn. Fylgst var vandlega með honum, ef ske kynni að hann færi að grennslast fyrir um uppruna sinn og árið 1964 hóf Heinz nokkur Hempel þjálfun hjá Stasi. Ári síðar sótti Hempel um norskt vegabréf í nafni Bergmans.

Beiðninni var tekið með nokkurri tortryggni, þar sem vestur-þýsk og norsk yfirvöld grunaði að hann væri njósnari. En þar sem maðurinn lagði fram skjöl sem sögðu hann hálfnorskan, fékk hann vegabréfið. Hempel flutti til Noregs, hafði samband við móður sína, sem taldi sig hafa endurheimt týnda soninn, og urðu viðbrögð hennar til að draga úr tortryggni norsku leyniþjónustunnar.

Hempel stundaði verkamannavinnu en hélst illa á henni og flutti oft. Að því er segir í Aftenposten var hann slakur njósnari og var kallaður heim til Austur-Þýskalands árið 1983, þegar norska leyniþjónustan, sem tortryggt hafði Hempel allan tímann, var farin að grennslast af alvöru fyrir um hann. Hempel flýði land og urðu blaðaskrif um flóttann í Noregi. Móðir Bergmans hafði látist ári fyrr í þeirri trú að Hempel væri sonur hennar. Hlaut hann arf eftir hana, um 80.000 ísl. kr.

Þrír njósnarar til Noregs

Ludwig Bergman komst að því fyrir nokkrum vikum að nafn hans hefði verið misnotað og hefur hann ekki viljað tjá sig um málið. Bergman hitti systkini sín fyrir um mánuði síðan en vill ekki sjá tvífara sinn.

Þá hafa tveir menn til viðbótar komist að því að nöfn þeirra voru misnotuð. Annar þeirra fékk vitneskju um málið í maí, nokkrum dögum eftir að móðir hans lést.