SVALBARÐAMÁLIÐ hefur verið eitt erfiðasta utanríkismál Íslands allt frá því að Danir fóru með þau mál. Réttur Íslendinga til fiskveiða í Barentshafi ætti að vera til jafns við Norðmenn, eftir að Ísland varð aðili að Parísarsamningnum um Svalbarða frá 1920. Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra, var frumkvöðull þessa, en hafði því miður ekki aðstöðu til þess að fylgja málinu eftir.
Martröð utanríkisþjónustunnar

Við höfum allt að vinna, segir Gunnlaugur Þórðarson, en engu að tapa.

SVALBARÐAMÁLIÐ hefur verið eitt erfiðasta utanríkismál Íslands allt frá því að Danir fóru með þau mál.

Réttur Íslendinga til fiskveiða í Barentshafi ætti að vera til jafns við Norðmenn, eftir að Ísland varð aðili að Parísarsamningnum um Svalbarða frá 1920. Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra, var frumkvöðull þessa, en hafði því miður ekki aðstöðu til þess að fylgja málinu eftir.

Jan Mayenmálið hefur um hálfrar aldar skeið verið blettur á íslenskum ríkisstjórnum. Loðnusamningarnir á árunum 1980­81 um "frímerkið" svokallaða, voru frá upphafi hneyksli.

Íslensk stjórnvöld hefðu fyrir löngu átt að vera búin að krefjast eignarhalds á Jan Mayen á móti Norðmönnum. Líkt og er um Svalbarða, sem er í eignarhaldi margra þjóða.

Það væru svik við ókomnar kynslóðir, ef lausn þessara mála fæst ekki hið fyrsta. Íslenskum stjórnvöldum ber að stefna Noregi til Alþjóðadómstólsins í Haag til þess að fá viðurkenndan rétt Íslands á umræddum svæðum.

Í þeim dómsmálum höfum við allt að vinna, en engu að tapa.

Danir brugðust Íslendingum í París 1920

Á árunum 1919­20 sátu fulltrúar níu þjóða að samningagerð um Svalbarða í París. Ári áður hafði íslenska þjóðin öðlast fullveldi, en sá annmarki var á því, að Danir fóru með utanríkismál Íslands. Sú skipan hélst til 10. maí.

Meðan umræðurnar stóðu yfir í París, höfðu norsk stjórnvöld hafið "Stór-Noregs-stefnu" sína og hugðust leggja hluta af Grænlandi undir norska ríkið, Austur­Grænland. Yfirgangur Norðmanna gagnvart Dönum varpaði ógnarskugga á ráðstefnuna í París.

Utanríkisráðherra Dana, sem samkvæmt Sambandslögunum var líka utanríkisráðherra Íslands, mun vafalaust hafa óttast, að ef fleiri deilumál kynnu að koma upp á milli þeirra og Norðmanna meðan fundað var í París að það gæti spillt fyrir lausn Austur­Grænlandsdeilunnar. Þess vegna hefur hann forðast að láta nefna Ísland á nafn þar. Það leiddi til þess, að íslenska þjóðin varð alls ekki aðili að hinum merka Parísarsamningi 9. febrúar 1920.

Deilumálinu út af Austur­Grænlandi lauk með því, að Danir stefndu Norðmönnum fyrir Alþjóðdómstólinn í Haag og gjörsigruðu þá þar.

Við höfum allt að vinna í ofangreindum málum og engu að tapa. Áhættan er enginn, aðeins að þora.

Vakandi utanríkisráðherra

Jón Baldvin varð óþyrmilega var við sjötíu ára sinnuleysi fyrirrennara sinna, þegar hann varð utanríkisráðherra. Þrátt fyrir að Ísland væri orðið aðili að Svalbarðasamningnum, neituðu norsk stjórnvöld eftir sem áður, að viðurkenna rétt íslensku þjóðarinnar samkvæmt honum. Svo undarlegt, sem það má vera láta norsk stjórnvöld Ísland nú gjalda þess að íslenska þjóðin hafði skömmu áður en Svalbarðasamningurinn var gerður verið síðasta nýlenduþjóð Evrópu og í skjóli þess skal þeim neitað um allan rétt á umræddum svæðum.

Alþjóðadómstóllinn gæti aldrei haft slíka fortíðarstaðreynd að yfirvarpi og getur heldur ekki látið íslensku þjóðina gjalda þess, að hún átti hvorki kröfu til né rétt á að komast að samingaborðinu í París vegna þess að menn af öðru þjóðerni fór einir með mikilvægasta mál þjóðarinnar, utanríkismálin.

Við hljótum að sigra að meira eða minna leyti fyrir Alþjóðdómstólnum í Haag í báðum áðurnefndum málum. Norsk stjórnvöld munu aldrei geta gleymt óförunum í Haag 1931.

Ótti við að tapa aftur gæti hugsanlega komið vitinu fyrir þau gagnvart skýlausum rétti íslensku þjóðarinnar.

Utanríkisþjónustan þarf að taka á, en ekki að gleyma sér í síðdegisgleðskap sendiráða.

Höfundur er lögfræðingur.

Gunnlaugur Þórðarson.