FASTEIGNAMAT ríkisins undirbýr nú endurmat allra fasteigna í miðborg Reykjavíkur á svæði sem afmarkast af Hverfisgötu, Snorrabraut, Grettisgötu, Hallveigarstíg, Amtmannsstíg og Lækjargötu. Búast má við lækkun lóðarmats á vestasta hluta svæðisins, að sögn Davíðs Arnljótssonar, forstöðumanns Reykjavíkurdeildar Fasteignamats ríkisins,
Fasteignamat ríkisins beitir nýjum aðferðum við fasteignamat

Allar fasteignir í miðborg-

inni verða endurmetnar

FASTEIGNAMAT ríkisins undirbýr nú endurmat allra fasteigna í miðborg Reykjavíkur á svæði sem afmarkast af Hverfisgötu, Snorrabraut, Grettisgötu, Hallveigarstíg, Amtmannsstíg og Lækjargötu. Búast má við lækkun lóðarmats á vestasta hluta svæðisins, að sögn Davíðs Arnljótssonar, forstöðumanns Reykjavíkurdeildar Fasteignamats ríkisins, en sú varð raunin þegar fasteignir í Kvosinni voru endurmetnar fyrir tveimur árum. Fasteignamatið metur nú fasteignir með breyttum hætti og í samræmi við breytt lög um skráningu og mat fasteigna. Nú er miðað við að matsverð sé líklegasta gangverð eigna á markaði. Áður var hins vegar mest miðað við byggingarkostnað með afskriftum að viðbættu lóðarmati en að sögn Davíðs þarf það ekki að vera hið eðlilega markaðsverð. "T.d. geta lélegar eignir haft talsvert markaðslegt gildi og eins geta mjög dýrar byggingar haft lágt söluverð," segir hann.

Davíð segir ekki hægt að segja fyrir um hverjar breytingar verði við endurmatið, það verði að koma í ljós. Breytingar fari eftir því mati sem fyrir er. Oft séu húseignir mikið afskrifaðar og mannvirkjamat orðið lágt. Þannig geti breytingar á mati gengið í báðar áttir en á íbúðarhúsnæði er það oft til hækkunar.

Hús við margar götur á einni lóð Davíð segir í mörgum tilfellum nokkuð snúið að meta eignir á þessu svæði þar sem sumar lóðir séu það stórar að hús á þeim standi við tvær til þrjár götur og mikið sé um bakhús. Oft séu margir eigendur að einu húsi og ekki liggi alltaf fyrir eignaskiptasamningar. Húsagerðir eru mjög mismunandi og notkun þeirra einnig. Þannig getur í einu húsi verið bæði íbúðar-, verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Davíð segir framkvæmd matsins með formlegra sniði en áður þar sem um það er tilkynnt fyrirfram og fólk beðið um að hafa samband til að segja til um hvenær það geti sýnt eignina. "Áður var bara vaðið á eignirnar," eins og hann segir. Reiknað er með að næstu vikur fari í að skipuleggja skoðanir og síðan verður byrjað á eiginlegu mati og mun það, að sögn Davíðs, væntanlega standa fram eftir þessu ári.

Búið að teikna upp fjölda eigna Davíð segir endurmat þessa hverfis annan hluta endurmats á öllu því sem kallast miðborg Reykjavíkur. Byrjað var fyrir tveimur árum þegar fasteignir í Kvosinni voru endurmetnar. Áðurnefnt svæði austan Lækjargötu er næsta skref og síðan verður væntanlega haldið áfram með aðliggjandi svæði sem einnig teljast til miðborgarinnar.

Forsenda þess að hægt sé að meta eignir er að til séu skýrar teikningar þar sem stærðir koma réttilega fram. Þær voru ekki til fyrir nærri öll þessara húsa en nú hefur starfsfólk byggingarfulltrúa farið í þau, mælt þau upp og skilað af þeim teikningum. Nú þegar þær liggja fyrir er auðveldara að framkvæma mat, en að sögn Davíðs veldur eignarhald í fjöleignarhúsum oft erfiðleikum þar sem ekki eru til eignaskiptasamningar. Þá þarf að komast að því hver á hvað til að hægt sé að meta hverja eign. Hækkanir í Skeifunni Að sögn Davíðs er jöfnum höndum unnið að því að endurmeta iðnaðarsvæði borgarinnar. Í fyrra var t.d. stór hluti Skeifunnar endurmetinn og var niðurstaðan úr því mati almennt til talsverðrar hækkunar. Þá segir hann að nú liggi fyrir teikninar af eignum á Höfðunum og verður ráðist í endurmat þeirra á næstunni.