Verk efti Giovanni Gabrieli, J. S. Bach, Kurt Weill, Hoagy Carmichael og Richard Wagner. Lúðrahópurinn Serpent (Birkir Freyr Mattíasson, Edda Rut Björnsdóttir, Guðmundur Hafsteinsson og Jóhann Stefánsson, trompetar; Emil Friðfinnsson, Jóhann Björn Ævarsson og Stefán Jón Bernharðsson, horn; David Bobroff, Edward Frederiksen, Einar Jónsson og Sigrún Sævarsdóttir,
Með ásum og englum TÓNLIST Laugarneskirkja LÚÐRATÓNLEIKAR Verk efti Giovanni Gabrieli, J. S. Bach, Kurt Weill, Hoagy Carmichael og Richard Wagner. Lúðrahópurinn Serpent (Birkir Freyr Mattíasson, Edda Rut Björnsdóttir, Guðmundur Hafsteinsson og Jóhann Stefánsson, trompetar; Emil Friðfinnsson, Jóhann Björn Ævarsson og Stefán Jón Bernharðsson, horn; David Bobroff, Edward Frederiksen, Einar Jónsson og Sigrún Sævarsdóttir, básúnur; Þórhallur Ingi Halldórsson, túba; Helgi Jónsson, slagverk; Kjartan Guðnason, pákur.) Einleikarar: David Boboroff á básúnu og Emil Friðfinnsson á horn. Stjórnandi (í Wagner): Edward Frederiksen. Laugarneskirkju, laugardaginn 14. júní kl. 14. HÓPUR 12 ungra lúðurþeytara og tveggja slagverksmanna undir samheitinu Serpent, væntanlega með vísan til hlykkjótta bassahljóðfæris zinkfjölskyldunnar aftan úr endurreisn og barokk, kom fram í Laugarneskirkju á laugardaginn var. Aðsókn var dágóð, og mátti greina fjölmarga núverandi og fyrrverandi látúnsleikara meðal áheyrenda auk almennra áhugamanna um lúðraþyt, og jafnvel þónokkra jassista. Aðalvamm tónleikanna var frágangur tónleikaskrár, sem var óþarflega spör á upplýsingar. Að vísu kom mannaskipan hinna síbreytilegu áhafna skýrt fram, en að öðru leyti var t.a.m. heldur snubbótt að tala aðeins um "Fúgu í g-moll" eftir Bach, þar eð hann samdi allnokkrar í þeirri tóntegund. Né heldur munu kantötuunnendur hafa orðið mikils vísari um hvaða kantötuaría hafi legið að baki heitisins "My Spirit Be Joyful" þar sem enn tíðkast um heim allan (líka hinn enskumælandi) að nefna rúmlega 200 kantötur Bachs þýzkum upphafstitlum. Þó svo að einstakir spilarar standi upp og kynni dagskráratriði munnlega, er mjög undir hælinn lagt hversu vel greinist orðaskil í hljómmikilli kirkju. "My Spirit" ­ ásamt ensku þáttaheitunum í Túskildingsóperusvítu Weills ­ bar þess utan keim af hvimleiðu enskulapi seinni ára, þar sem norræn/þýzk uppnefningarhefð í íslenzku víkur æ meir fyrir enskri ("Ottómanar," "kóbalt," "Pómeranía"-dæmin eru legíó.) Loks var ósköp klént að gerhunza nöfn umritara og útsetjara. Serpentsfélagar hófu leik og luku fyrir hlé með tveim canzónum eftir Giovanni Gabrieli Markúsarkantor í Feneyjum (1557­1612), nr. IX og III. Hin fyrri var í "cori spezzati"-stíl: 3 básúnur vinstra megin, 3 trompetar hægra, og túba í miðju. Aðskildu hóparnir hefðu mátt vera enn fjær hvor frá öðrum, svo að antífónískur ákallsrithátturinn hefði notið sín betur á aftari bekkjum, en þeir sjömenningar skiluðu hinni glæstu feneysku stórkirkjumúsík með viðeigandi englasúgi, einkum nr. III, þó að lífleg heyrð kirkjunnar hefði útheimt þurrara staccató. Tveir mismunandi skipaðir kvintettar léku sína hvora fjórrödduðu Bachfúgu, fyrrnefndu g-mollfúgu, er undirr. kannaðist ekki við í svip, en gæti stefsins vegna verið frumsamin fyrir orgel (la ­ famífare ­ mí la) og Kontrapunkt I (úr Fúgulistinni); höfug tónlist, en þó það hreyfanlega, að vandasamt er að skila nægilega skýrt við kirkjuakústík. Milli fúgna var leikin fyrrgetin "My Spirit Be Joyful;" eftir öllu að dæma umritun á einni af þessum glaðværu danskenndu kantötuaríum Sebastians í sem komu undir þegar guðsorð dagsins gaf tilefni til. Gilti þar sem um fúgurnar, að flutningur var smekkvís og furðu liðug ­ þ.m.t. túbuleikurinn í aríunni, þar sem þetta fyrirferðarmikla ferlíki brassfjölskyldunnar lét á köflum sem vakrasta fjallageit ­ þó að ákveðnara portató og veikara spil á veikustu stöðum hefði getað ljáð heildinni enn meiri svip og festu. David Bobroff bassabásúnuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands lék stórt hlutverk í aríunni og enn meira eftir hlé með fismjúkum sólóblæstri í Londonderry Air (O Sonny Boy) í frábærri swing-leitri framreiðslu fyrir 9 blásara á írska þjóðlaginu eftir útsetjara sem tónskráin vildi ekki nefna. Sömuleiðis átti Emil Friðfinnsson, einnig í SÍ, tilkomumikinn "bláleitan" einleik á horn í Stardust eftir Hoagy Carmichael. Hvort tveggja var meðal hápunkta tónleikanna og ekki síður fyrir hnökralítinn samleik. Þar á milli var fjórþætt Svíta úr Túskildingsóperu Weills, er "sat" ekki alveg eins vel, að frátöldum lokaþættinum, "Cannon Song," er blásinn var með töluverðu trukki. Tónleikunum lauk með flutningi 13 hljóðfæraleikara á hinum stórbrotna Grafarmarsi (í einum þætti, ekki tveim eins og tónskrá gaf til kynna) úr Götterdämmerung eftir Wagner undir stjórn Frederiksens. Var marsinn fremur hægt leikinn en samt ljómandi vel, og sveif herskár og rismikill sorgarmóður Ásgarðs yfir kirkjunni litlu í Laugarnesi, er tónleikagestir gengu út í hábjart sumarloftið. Ríkarður Ö. Pálsson