Leikstjóri: Joseph Losey. Framleiðandi: Alain Delon. Leikmyndir: Alexander Trauner. Aðalhlutverk: Alain Delon, Michael Lonsdale, Jeanne Moreau. Frakkland. 1976. HERRA Klein, aðalpersónan í samnefndri mynd með Alain Delon, er velstæður, franskur borgari búsettur í París í seinni heimstyrjöldinni. Hann lætur sig lítið varða stríðið.

Herra Klein

og gyðingarnir

KVIKMYNDIR

Háskólabíó

ALAIN DELON-HÁTÍÐ

HERRA KLEIN "MR. KLEIN"

Leikstjóri: Joseph Losey. Framleiðandi: Alain Delon. Leikmyndir: Alexander Trauner. Aðalhlutverk: Alain Delon, Michael Lonsdale, Jeanne Moreau. Frakkland. 1976.

HERRA Klein, aðalpersónan í samnefndri mynd með Alain Delon, er velstæður, franskur borgari búsettur í París í seinni heimstyrjöldinni. Hann lætur sig lítið varða stríðið. Hann prúttar við gyðinga þegar þeir koma með listaverkin til hans á flótta undan ofsóknum og virðist hafa gott uppúr því. Borgar þeim hálft andvirði verkanna. Svona eru tímarnir, segir hann og ypptir öxlum. Allt breytist það þegar hann kemst að því að annar maður í nágrenninu gengur undir nafninu Robert Klein og það sem verra er, hann er gyðingur. Lögreglan ruglar þeim saman, sem getur reynst örlagaríkt fyrir Klein okkar, svo hann fer á stúfana og reynir að komast að því hver þessi hinn herra Klein er, en það reynist örðugt að koma höndum yfir þann dularfulla mann.

Bandaríski leikstjórinn Joseph Losey gerði Herra Klein í Frakklandi árið 1976. Hann hafði þá starfað í Evrópu frá því snemma á sjötta áratugnum eftir að hafa flúið Bandaríkin í kommúnistaveiðunum. Herra Klein er einnig um ofsóknir og hvernig titilpersónan bregst við þeim og flækist æ meira í vef þeirra. Losey byrjar myndina á einkar óþægilegu atriði sem sýnir læknisskoðun á gyðingi og gefur þannig á einfaldan hátt innsýn í ástandið en að öðru leyti er sagan sögð frá sjónarhóli Alain Delons í hlutverki Kleins og Delon lýsir því hvernig hann breytist úr afskiptalausum betri borgara í mann sem lætur sig á endanum varða um gyðinginn Klein, sem aldrei sést í mynd en er þó eins og ein af aðalpersónum hennar. Delon gerir margt gott í titilhlutverkinu og finnur jafnvægi á milli hins værukæra bóhems sem Klein er í upphafi og þess Kleins er tekur að leita svara við samviskuspurningum sem eiga eftir að opna augu hans. Losey finnur myndinni þungan og drungalegan frásagnarstíl sem eykur sífellt á einangrun Kleins. Hann hefur sagt sjálfur að myndin sé um tómlæti og afskiptaleysi frammi fyrir þjáningum annarra og saman með Delon, sem framleiðir myndina, gerir hann samvisku Herra Klein að samvisku heimsins frammi fyrir ekki aðeins gyðingaofsóknum heldur ofsóknum í hvaða birtingarformi sem er.

Arnaldur Indriðason