DAVID Buch, prófessor í tónlistarsögu við Háskóla Norður-Iowa í Bandaríkjunum, kvaðst fyrir helgi hafa komist að því að Wolfgang Amadeus Mozart hefði samið brot úr tveimur lítt þekktum Vínaróperum um yfirnáttúrleg fyrirbæri. Sagði hann að þetta sýndi að austurríska tónskáldið hefði unnið að tónsmíðum með öðrum.

Óperubrot eftir

Mozart finnst

New York. The Daily Telegraph.

DAVID Buch, prófessor í tónlistarsögu við Háskóla Norður-Iowa í Bandaríkjunum, kvaðst fyrir helgi hafa komist að því að Wolfgang Amadeus Mozart hefði samið brot úr tveimur lítt þekktum Vínaróperum um yfirnáttúrleg fyrirbæri. Sagði hann að þetta sýndi að austurríska tónskáldið hefði unnið að tónsmíðum með öðrum.

Buch rakst á brotin, sem talið er að taki samanlagt 20 mínútur í flutningi, þegar hann var að vinna að rannsóknum vegna bókar um ævintýri og hið yfirnáttúrlega í óperum á átjándu öld. Fann hann þau í skjalasafni borgaryfirvalda og háskólans í Hamborg fyrir ári.

Annað handritið er að óperu, sem nefnist Steinn heimspekingsins og er frá 1790. Því hefur verið haldið fram að Mozart hafi verið höfundi þessarar óperu innan handar, en í handritinu í Hamborg, sem hafnaði í Rússlandi eftir heimsstyrjöldina síðari og var skilað fyrir skömmu, stendur nafn Mozarts ekki aðeins við eina aríu, sem hefur verið eignuð honum, heldur einnig við stóra kafla í lok annars þáttar.

Hin óperan nefnist Góðviljaði farandmunkurinn og hefur verið eignuð Emanuel Schikaneder, vini Mozarts. Það var Schikaneder, sem fól Mozart að skrifa Töfraflautuna. Buch vitnar í bréf, sem þeir skrifuðu hvor öðrum og hingað til hafa verið talin snúast um Töfraflautuna. Í raun hafi þeir hins verið að skiptast á hugmyndum um farandmunkinn.

Buch hyggst birta grein um þetta mál í tímaritinu Cambridge Opera Journal í nóvember. Hafa aðrir fræðimenn sagt að gögnin, sem hann hafi fundið, virðist óvefengjanleg.

Mikilvægur fundur

Buch sagði að þetta væri mikilvægur fundur og gæfi til kynna að ævintýri hefðu verið Mozart mjög hugleikin síðustu árin fyrir andlát sitt 1791. Buch mælist til þess að það efni, sem varðveist hefur úr leikhúsi Schikaneders, verði skráð og rannsakað í heild sinni þar sem búast megi við að í ljós komi að þar leynist fleiri verk eftir Mozart. Hann telur einnig að vilji Mozarts til samstarfs í óperunum tveimur hafi leitt til þess að hann var beðinn um að skrifa Töfraflautuna.

Wolfgang Amadeus Mozart.