Ýmis kórlög. Kórar á vegum Tónlistarsambands Alþýðu (TÓNAL): Álafosskórinn, Trésmiðakór Reykjavíkur, Reykjalundarkórinn, UMFÍ-kórinn, Blandaður kór/Kvennakór/Karlakór TÓNAL. Undirleikarar: Hrönn Helgadóttir, Guðlaugur Viktorsson, píanó; Guðbjörg Sigurjónsdóttir, Örn Arason, harmoníkur. Stjórnendur: Helgi R. Einarsson, Jóhanna V.

Þú skalt

samt fram!

TÓNLIST

Langholtskirkja

KÓRTÓNLEIKAR

Ýmis kórlög. Kórar á vegum Tónlistarsambands Alþýðu (TÓNAL): Álafosskórinn, Trésmiðakór Reykjavíkur, Reykjalundarkórinn, UMFÍ-kórinn, Blandaður kór/Kvennakór/Karlakór TÓNAL. Undirleikarar: Hrönn Helgadóttir, Guðlaugur Viktorsson, píanó; Guðbjörg Sigurjónsdóttir, Örn Arason, harmoníkur. Stjórnendur: Helgi R. Einarsson, Jóhanna V. Þórhallsdóttir, Lárus Sveinsson, Lisbeth Dahlin, Svanhildur Sveinbjörnsdóttir og Guðlaugur Viktorsson. Langholtskirkju, sunnudaginn 15. júní kl. 20.30.

Í TILEFNI af aðsteðjandi söngför á Norðurlandamót í Uddevalla í Svíþjóð í byrjun næsta mánaðar efndi Tónlistarsamband alþýðu til tónleika í Langholtskirkju á sunnudagskvöldið var. Fyrst kynntu fjórir kórar sig með tveim lögum hver, þvínæst söng sameinaður fjöldi þeirra 3 lög, þarnæst sameinaðir karlar 2 lög, þá sameinaðar konur 2 og loks öll saman aftur 3 dagskráratriði. Voru konur alls um 100 talsins, en karlar um 50.

Fyrstu 8 lögin voru ekki prentuð í tónleikaskrá, né heldur nöfn flytjenda og stjórnenda, og verður því að hafa fyrirvara um hugsanlega misheyrn, en eins og kunnugt er berast munnlegar kynningar sjaldan óbrjálaðar í hljómmikilli kirkju. Álafosskórinn undir stjórn Helga R. Einarssonar söng Máríusönginn úr Gullna hliðinu af þrótti og annað lag er greindist ekki í kynningu. Sama átti við um fyrra lag Trésmiðakórsins undir velmótaðri stjórn Jóhönnu Þórhallsdóttur, en hið seinna var Enginn grætur Íslending. Lárus Sveinsson stjórnaði Reykjarlundarkórnum, er söng Smávinir fagrir eftir Jón Nordal og Veröld smáa af þokka burtséð frá fullbröttum styrkbreytingum, og fámennur UMFÍ-karlakórinn undir stjórn Lisbethar Dahlin söng Maístjörnu Jóns Ásgeirssonar og Látum bræður lagið óma í góðu jafnvægi en fremur dauflega.

Að loknum Þjóðsöngnum stjórnaði Guðlaugur Viktorsson Blönduðum kór TÓNAL í reisulegum flutningi á tvísöngnum Ísland, farsældar frón, þar sem blástur tveggja trompeta sló á silfurbjarma með æ sjálfstæðari kontrapunkti ógetins útsetjara. 50 manna Karlakór TÓNAL söng þarnæst undir stjórn Lisbethar Dahlin Nú sefur jörðin eftir Þorvald Blöndal, og var söngurinn að sönnu fremur syfjulegur, m.a. vegna tilhneigingar til glissaðna sem virðast fylgja laginu frá fornu fari. Líkt og Geysir eftir duglegan sápuskammt tóku karlarnir þó heldur betur við sér í Þú álfu vorrar yngsta land Sigfúsar Einarssonar, þar sem stjórnandanum, Lárusi Sveinssyni, tókst að mana upp úr svefnrofum undirdjúpanna ósvikið íslenzkt karlakórsgos á orðunum "þú skalt samt fram!"

Næst á undan frábæru "þjóðlagi" Árna Harðarsonar, Tíminn líður, trúðu mér, sem Kvennakór TÓNAL söng undir stjórn Jóhönnu V. Þórhallsdóttur af fósturlenzkri innlifun, söng kvennakórinn undir stjórn Svanhildar Sveinbjörnsdóttur Maríukvæði Atla Heimis Sveinssonar við nýfundið æskuljóð Halldórs Laxness og alls ekki ólaglega, en eins og við mátti búast fannst manni þetta fallega lag fyrir blandaðan kór óhjákvæmilega missa nokkurn spón úr aski í útsetningu fyrir samkynja raddir. Öfugt var uppi á teningi í Úr útsæ rísa Íslandsfjöll eftir Pál Ísólfsson, undir einarðri stjórn Lárusar Sveinssonar og við myndugan undirleik Hrannar Helgadóttur á píanó, því hvort sem blandaða útgáfan er sú upphaflega eður ei, þá fylgdi henni vídd og reisn sem stóð karlakórsversjónininni fyllilega á sporði.

Næstsíðasta dagskráratriði blandaða kórsins var Vetrarmávur (ljóð eftir Jón úr Vör), er Þorkell Sigurbjörnsson samdi fyrir tvítugsafmæli Tónlistarsambandsins fyrir rúmu ári; gegnheilt verk og ljúfmannlegt en þó ekki með öllu kröfulaust fyrir áhugafólk, og var því dyggilega skilað undir stjórn Helga R. Einarssonar, þó að hinn annars þróttmikli sópran hafi ekki alveg dregið í suma hæstu tóna, sennilega vegna þreytu.

Fram að þessu hafði staðið góður þokki af flutningi TÓNAL-kóranna, og var því óneitanlega töluverð "hádeyða" (antíklímax) að síðasta atriðinu, Sjómannalagasyrpunni, er kom hér frekar eins og skratti úr sauðarlegg ­ ekki sízt vegna kirkjuhljómguninnar - því slík alþýðulög njóta sín langbezt í litlum sönghóp við óformlegri aðstæður. Um leið og söngfólkinu er óskað velfarnaðar meðal norrænna bræðra á Oddavöllum, má vonandi geta sér til, að sjómannalögunum sé ætlaður annar staður og annað samhengi í dagskránni ytra.

Ríkarður Ö. Pálsson