FINNSK rannsókn sýnir að konur fá mun oftar höfuðverk en karlar og að tengsl eru milli launa og þess hve oft viðkomandi fær höfuðverk. Talið er að skýringuna sé að hluta til að finna í framleiðslu líkamans á kvenhormóninu Estrógen.

Konur fá

frekar

höfuðverk

en karlar

FINNSK rannsókn sýnir að konur fá mun oftar höfuðverk en karlar og að tengsl eru milli launa og þess hve oft viðkomandi fær höfuðverk. Talið er að skýringuna sé að hluta til að finna í framleiðslu líkamans á kvenhormóninu Estrógen.

Esti Laaksonen, heimilislæknir í Turgo í Finnlandi, gerði könnun á tíðni höfuðverkja meðal íbúa fjögurra finnskra borga. Rannsóknin stóð yfir frá árinu 1988 til 1994 og bárust svör frá 76% þátttakenda, um 33 þúsundum manns. Niðurstöður voru kynntar á þingi norrænna heimilislækna í Reykjavík. Þar kemur m.a. fram að konur þjást tvisvar sinnum frekar af tíðum höfuðverkjum en karlar. Flestar konur sem kvörtuðu undan tíðum höfuðverkjum voru í aldurshópunum 20 til 24 ára og 55 til 59 ára. Tíðni höfuðverkja var mest hjá körlum yfir fimmtugu. Tíðir höfuðverkir voru helmingi algengari hjá þeim sem sögðu fjárhag heimilisins bágan en hjá þeim sem betur voru staddir fjárhagslega. Einnig mátti sjá samband milli þess hve mikill kostnaður fólks var við heilbrigðisþjónustu og tíðni höfuðverka.

Að sögn Esti Laaksonen bendir niðurstaða rannsóknanna eindregið til sambands milli efnahags fólks og höfuðverkja. Stress og vinnuálag ásamt fjölmörgum öðrum þáttum eigi sína sök á tíðum höfuðverkjum fólks. Mesta athygli hafi þó vakið að höfuðverkur er algengastur hjá körlum eldri en 50 ára auk þess að vera miklu algengari hjá konum, því við sextugsaldurinn aukist framleiðsla estrógen-kvenhormóns hjá körlum. Flest bendi því til þess að orsök tíðra höfuðverkja sé að finna í hormóninu estrógen sem skýri kynbundinn mun tíðra höfuðverkja.