Leikstjóri Dennis Dugan. Handritshöfundar Mark Feldberg og Mitch Klebanoff. Kvikmyndatökustjóri Arthur Albert. Tónlist George S. Clinton. Aðalleikendur Chris Farley, Nicolette Sheridan, Robin Shou, Nathanel Parker, Soon-Tek Oh. 90 mín. Bandarísk. TriStar 1997.
Allt er

feitlögnum fært

KVIKMYNDIR

Stjörnubíó

KUNG FU KAPPINN Í BEVERLY HILLS (BEVERLY HILLS NINJA)

Leikstjóri Dennis Dugan. Handritshöfundar Mark Feldberg og Mitch Klebanoff. Kvikmyndatökustjóri Arthur Albert. Tónlist George S. Clinton. Aðalleikendur Chris Farley, Nicolette Sheridan, Robin Shou, Nathanel Parker, Soon-Tek Oh. 90 mín. Bandarísk. TriStar 1997. CHRIS FARLEY er einn af nýju trúðunum í bandarískum kvikmyndum, gott ef hann kemur ekki næstur Jim Carrey. Í Kung fu. . . fær hann heldur betur að sýna listir sínar, ég held að jafnvel svæsnustu fýlupokar komist ekki hjá því að hafa nokkurt gaman að þeim makalausu hundakúnstum sem þessi fituhlunkur nær að töfra fram úr erminni. Myndin hefst á því að kornabarn rekur á fjörur ninjaskóla, "dojo", í Japan. Senseiinn sem þar ræður ríkjum (Soon-Tek Oh) hefur hugboð um að þar sé komið efni í mesta njnjakappa allra tíma, sannkölluð himnasending. Árin líða, en barnið, sem nú er orðinn fulltíða maður Haru (Farley) að nafni, hefur brugðist kennurum sínum gjörsamlega. Vandfundinn er annar eins klaufi og bögubósi á öllum Japanseyjum. Til sögunnar kemur bandarísk þokkadís (Nicolette Sheridan), telur Haru það köllun sína að fylgja henni eftir til Los Angeles til að bjarga henni úr hinum mannskæðustu ógöngum og sanna sig í leiðinni sem hinn "mikli, hvíti ninja" . Vissulega algjör endemisvitleysa sem krefst afdráttarlausra trúðshæfileika af Farley, sem heldur sínu striki á hverju sem gengur og á lof skilið. Án hans væri myndin sjálfsagt óþolandi. Tímasetningin er góð hjá þessum fáránlega yfirvigtarmanni, svipbrigðin og raddbeitingin til sóma fyrir stétt farsaleikara. Handritið er ekki beysið svo það lendir nánast einvörðungu á Farley að halda sýningunni á floti. Hann bregst ekki frekar en í fyrri myndum sínum, Tommy Boy og Black Sheep , útkoman vitfirrtur ærslagangur sem tekst það sem til er ætlast; að koma áhorfendum í gott skap. Svo það er engin ástæða til að kvarta. Skiljið vandlætinguna eftir heima og hlæið með. Hláturinn lengir lífið. Leikstjórinn, Dennis Dugan, á líka sinn þátt í hversu ærslin ganga vel upp og Nicolette Sheridan skilar sínu vel. Þetta er hin vörpulegasta stúlka sem minnir á siðprúða útgáfu af Susan George. Það skaðar ekki.

Sæbjörn Valdimarsson