SKOTINN Colin Montgomerie hefur síðustu fjögur árin verið besti kylfingur Evrópu, en þrátt fyrir það hefur honum aldrei tekist að sigra á einu af stóru mótunum fjórum. Oft hefur munað litlu en nógu samt. árið 1992 virtist hann öruggur með sigur á Pebble Beach vellinum þegar Opna bandaríska meistaramótið fór þar fram. En Tom Kite fann taktinn í rokinu síðasta daginn og sigraði.
Hrakfarir Montgomeries SKOTINN Colin Montgomerie hefur síðustu fjögur árin verið besti kylfingur Evrópu, en þrátt fyrir það hefur honum aldrei tekist að sigra á einu af stóru mótunum fjórum. Oft hefur munað litlu en nógu samt. árið 1992 virtist hann öruggur með sigur á Pebble Beach vellinum þegar Opna bandaríska meistaramótið fór þar fram. En Tom Kite fann taktinn í rokinu síðasta daginn og sigraði. Montgomerie tapaði í þriggja manna umspili á Oakmont vellinum í sama móti 1994 þegar Ernie Els sigraði og 1995 tapaði hann í PGA-meistaramótinu, enn og aftur í umspili.

Woods í efsta sæti

UNDRABARNIÐ Tiger Woods náði ekki að sýna sitt besta á mótinu, en hann stóð sig samt nógu vel til að komast í efsta sæti heimslistans og verða þar með sá yngsti til að ná þeim árangri, aðeins 21 árs. Greg Norman frá Ástralíu hefur verið í efsta sæti um nokkurt skeið en nú náði Woods því, aðeins ári eftir að hann gerðist atvinnumaður. Frábær árangur hjá pilti. Efstu menn eru Woods með 9,91 stig, Norman (9,78), Montgomerie (9,61), Ernie Els (9,31) og Nick Price (9,24).

Woods gekk illa að pútta

TIGER Woods reið ekki feitum hesti frá viðureign sinni við Congressional-vellinum. Þrátt fyrir það gerði hann margt fallegt sem gladdi mikinn fjölda áhorfenda sem fylgdi honum allar 72 brautirnar. "Ég tek ofan fyrir þessum velli, hann var mjög erfiður og fór illa með mig," sagði Woods sem sagðist samt nokkuð ánægður með margt sem hann gerði. "Púttin fóru með mig. Ég gat ekki reiknað út réttan hraða í þeim og þá fór stefnan veg allra veralda," sagði Woods sem þrípúttaði þrisvar á seinni níu holunum á laugardaginn og endurtók leikinn á fyrri níu síðasta daginn.

Margir duttu úr keppni

ELDINGARNAR á föstudaginn, öðrum degi keppninnar, virtust fara illa í suma keppendur og margir frægir kylfingar urðu að sætta sig við að fá ekki að spila nema tvo hringi, því eftir það var keppendum fækkað og til að komast áfram urðu menn að leika á 147 höggum, eða sjö höggum yfir pari. Meðal þeirra sem ekki komust áfram má nefna Corey Pavin, Bernhard Langer, Mark Calcavecchia, Mark Brooks, Scott Simpson, Robert Allenby, Ian Woosnam, Curtis Strange, Masashi Ozaki og Greg Norman, sem var efstur á heimslistanum fyrir mótið.