SÚ TÆKNI, sem myndir þeirra Kjartans Péturs Sigurðssonar og Jóhanns Ísbergs í Ráðhúsinu í Reykjavík, byggist á, þróaðist út frá útgáfu "Íslandsbókarinnar", sem kom út fyrir síðustu jól. "Við fundum aðferð til að setja saman myndir sem uðru sífellt betri og betri," segir Kjartan um aðdragandann.
Félagi augans

SÚ TÆKNI, sem myndir þeirra Kjartans Péturs Sigurðssonar og Jóhanns Ísbergs í Ráðhúsinu í Reykjavík, byggist á, þróaðist út frá útgáfu "Íslandsbókarinnar", sem kom út fyrir síðustu jól. "Við fundum aðferð til að setja saman myndir sem uðru sífellt betri og betri," segir Kjartan um aðdragandann. Hingað til hafa ljósmyndarar gjarnan sett saman sjálfstæðar myndir í þeim tilgangi að fá mjög gleitt sjónarhorn. Vandamálið er hins vegar fólgið í þeim erfiðleikum sem takast verður á við þegar kemur að samsetningunni. Aðalverkfærið er því panorama myndavél til að ná sannfærandi gleiðhorni. Kjartan segir að að þeim félögum hafi aftur á móti tekist að ná ótakmörkuðu horni og leysa samtengingarvandann. "Okkar aðferð leiddi okkur að þeirri niðurstöðu að við gátum tekið ótakmarkaðan fjölda mynda og fyrir bragðið gátum við verið með mismunandi linsur í stað þess að vera takmarkaðir af einni linsu eða minna sjónarhorni." Með þeim búnaði sem Jóhann og Kjartan hafa þróað er mögulegt að spanna 360 gráður í einni mynd. "Með þessu móti getum við einnig verið mjög nálægt myndefninu og þannig tekið inn mörg smáatriði," segir Kjartan og sýnir mynd af Vestfjarðakjálkanum í heild sinni. "Á milli einstakra mynda með gömlu tækninni er lýsingarmunur og endalaus tæknileg vandamál og það þarf að leiðrétta bogalínur í myndum. Þetta erum við nú búnir að leysa og getum orðið sett saman myndir án þess að það sé stórmál." Kjartan segir að einn kosturinn við nýju aðferðina felist í því að nú sé unnt að keyra myndirnar út fyrir stafrænar prentvélar. Allar myndirnar eru teknar á venjulegar filmur en að því loknu eru þær skannaðar inn og við tekur flókin vinnsla í stafrænu kerfi. "Þessi flókna stafræna vinnsla snýr að samsetningu á myndunum. Það hefur engum tekist að setja saman myndir í þessum gæðum án þess að mannsaugað sjái það."

Allur hringurinn

Á sýningunni í Ráðhúsinu eru 20 myndir úr bókinni og auk þess 15 nýjar myndir frá Reykjavík og afskekktum stöðum. Þar er fremst meðal jafningja mynd sem tekin var frá gamla hitaveitutanknum við Veðurstofu Íslands. Myndin er 360 gráður í hlutföllunum 1:10 þannig að hægt er að skeyta saman endunum, snúa sér í hring og ekkert fer fram hjá manni. "Þessi mynd er samsett úr 8 sjálfstæðum myndum. Myndavélinni er snúið á þrífæti og unnin stafrænt sem og allar hinar myndirnar," segir Kjartan. Á sýningunni eru einnig nýjar myndir af afskekktum stöðum svo sem frá Vatnajökli, norðausturöræfum og af ýmsum öðrum gönguleiðum á Íslandi. "Þetta eru staðir sem allajafna blasa ekki við ferðamönnum." Þegar Kjartan er spurður um viðbrögð sýningargesta hingað til lætur svarið ekki á sér standa. "Hver og einn sér myndir frá þeim stað er honum er hugleikinn. Vegna þeirra mörgu smáatriða, sem komast með er algengt að sjá menn útskýra hvern fyrir öðrum hvar þeir voru í sveit eða hvert þessi vegurinn liggur eða hvað þessi fjöll heita. Það leynir sér nefnilega ekki að örnefnin, sem við höfum víða bætt inn á myndirnar höfða afar sterkt til ættfræðihefðarinnar." Af þessu má að líkum leiða, að mörkin milli landakorta og ljósmynda séu óðum að deyfast með þessari tækni. "Þetta er ákveðin samræming á myndum og kortum. Við höfum tekið niður GPS punkta af öllum myndatökustöðum og þess verður ekki langt að bíða að hægt verður að kalla upp víðmynd af leitarstað í neyðartilfellum svo eitthvað sé nefnt."

BORG miðnætursólarinnar. Myndin spannar 360 gráður og er samsett úr 8 sjálfstæðum myndum.

ÍSHELLIR í Kringilsá í Brúarjökli. Stafræna vinnslan hentar hellamyndatöku vel vegna lítillar birtu og langs tökutíma.