ÁGÆTI Víkverji. Ég þakka þér skrifin vegna útkomu nýju símaskrárinnar hér á dögunum. Þú minntist á að óeðlilegt væri að gefa hana ekki út á tölvutæku formi. Ég er þér innilega sammála og langar að því tilefni að segja þér eftirfarandi: Fyrir nokkrum árum varð ég samferða Þorvarði Jónssyni, yfirverkfræðingi Pósts og síma, en við vorum á leið heim frá útlöndum.
Tölvusímaskrá fyrir blinda og sjónskerta

Opið bréf til Víkverja

Gísla Helgasyni:

ÁGÆTI Víkverji. Ég þakka þér skrifin vegna útkomu nýju símaskrárinnar hér á dögunum. Þú minntist á að óeðlilegt væri að gefa hana ekki út á tölvutæku formi. Ég er þér innilega sammála og langar að því tilefni að segja þér eftirfarandi:

Fyrir nokkrum árum varð ég samferða Þorvarði Jónssyni, yfirverkfræðingi Pósts og síma, en við vorum á leið heim frá útlöndum. Við spjölluðum margt og mikið og þá fræddi Þorvarður mig á því að yfirvöld í Frakklandi gæfu út símaskrá þar í landi á tölvutæku formi og úthlutuðu tölvum eða skjáum til um 50.000 heimila á ári. Við hjá Blindrafélaginu höfðum um nokkurt skeið hugleitt hvort ekki væri hægt að fá símaskrána á tölvutæku formi fyrir okkar félagsmenn. Vegna þessa hafði ég samband við Þorvarð, sem mér var tjáð að væri æðsti yfirmaður símaskrárinnar, auk póst- og símamálastjóra og leitaði eftir þessari heimild. Hann varð góðfúslega við beiðni okkar með því skilyrði að leyfi tölvunefndar fengist. Í ársbyrjun 1991 eða 92 fékkst þetta leyfi og starfsmenn tölvudeildar Pósts og síma létu okkur í té prufuútgáfu, sem okkur líkaði allvel. En svo, þegar reyna átti á efndirnar um að fá skrána, tóku undirmenn Þorvarðar af skarið og neituðu okkur um skrána nema gegn 25 þúsund króna gjaldi á hvert eintak. Þannig átti að mismuna okkur, sem gátum ekki nýtt okkur prentuðu skrána, jafnvel þótt við hefðum greitt fyrir hana með afnota- eða umframsímtölum okkar, en þess skal getið að sjónskert fólk fær frí afnotagjöld af símum. en greiðir umframsímtöl og allan annan kostnað, sem til fellur. Og það var sama hvernig við reyndum að ræða og reifa málin, ekkert dugði.

Samgönguráðherra, Halldór Blöndal var þversum og svaraði með tilvísun í bréf frá starfsmönnum Pósts og síma, sem var fullt af óþarfa, þar á meðal var því haldið fram að ástæða væri til að endurskoða hvort sjónskert fólk ætti að hafa frí afnotagjöld af símanum. En málið leystist að nokkru, þegar sá ágæti maður Helgi Seljan var fenginn til að yrkja tvær afbragðs vísur til samgönguráðherra, þar sem hann fór fram á ókeypis afnot sjónskertra að símanúmeri 118. Svo vel kveðnar vísur gat Halldór ekki staðist, heldur svaraði með ágætum ljóðum og heimilaði afnotin.

En eftir stendur að þeir, sem hafa aðgang að tölvum og eru sjónskertir eða blindir, vildu gjarnan sitja við sama borð og aðrir landsmenn og fá símaskrána á því formi, sem þeim hentar. Þrátt fyrir afbragðsgóða þjónustu fólksins í síma 118, er það viss liður í sjálfstæði hvers og eins að getað dundað sér við að skoða símaskrána og fletta í henni að vild. Hvernig þætti þér, Víkverji góður, ef þér væri meinað að fletta eða blaða eða leita að númerum í símaskránni og yrðir að treysta á aðstoð annarra í því efni?

Ég vona að Póstur og sími endurskoði afstöðu sína og dreifi símaskránni á stafrænu formi til þeirra, sem þannig geta nýtt sér hana. Í þess stað væri ég, sem nota blindraletur, reiðubúinn að kaupa símaskrána í svartletursformi af Pósti og síma, til þess að koma að einhverju leyti til móts við fyrirtækið, sem ku nú hafa grætt vel á símaskránni í ár með sölu auglýsinga. Fyrir tveimur sumrum fékk sjónskert stúlka atvinnu við að innheimta í gegnum síma. Hún þurfti tilfinnanlega á tölvutækri símaskrá að halda, en fékk alls ekki. Ég var svo heppinn að komast yfir nýlegt eintak af símaskránni á tölvutæku formi, fékk góðan vin minn til þess að afrita hana fyrir mig og gaf síðan stúlkunni, sem gat sinnt starfinu sínu. Þannig gerðist ég sekur um stórfelldan glæp, stal afriti af skránni svo að stúlkan sú sjónskerta gæti stundað vinnu sína. Þetta játast hér með og ef einhverjar afleiðingar verða af þessari gjörð minni, verð ég að taka þeim.

GÍSLI HELGASON,

Skildingatanga 6, 101 Reykjavík.