LeiðariFULLVELDI OG FRAMTÍÐ RJÚ ÁR rísa hæst í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á þessari öld. Árið 1904 þegar við fengum heimastjórn og stjórnarráð var stofnað í Reykjavík. Árið 1918 þegar fullveldi okkar var viðurkennt með dansk-íslenzku sambandslögunum. Árið 1944 þegar íslenzka lýðveldið var stofnað. "Föðurland vort hálft er hafið.
Leiðari FULLVELDI OG FRAMTÍÐ

RJÚ ÁR rísa hæst í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á þessari öld. Árið 1904 þegar við fengum heimastjórn og stjórnarráð var stofnað í Reykjavík. Árið 1918 þegar fullveldi okkar var viðurkennt með dansk-íslenzku sambandslögunum. Árið 1944 þegar íslenzka lýðveldið var stofnað. "Föðurland vort hálft er hafið." Þar af leiðir að rétt er að bæta við árinu 1948, þegar samþykkt voru lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, sem og árunum 1952, 1958, 1972 og 1975, þegar fiskveiðilandhelgin var færð út, síðast í 200 mílur. Og raunar einnig árinu 1949 þegar Ísland tryggði öryggishagmuni sína í viðsjálum heimi með þátttöku í Norður- Atlantshafssamningnum.

Fullveldisbarátta lítillar þjóðar er viðvarandi. Á þjóðhátíð er skylt að beina athygli og umhyggju hennar að hornsteinum hins íslenzka fullveldis: sögunni, menningararfleifðinni og móðurmálinu. Mikilvægast er að hinir fullorðnu deili ræktarsemi við söguna og tunguna með uppvaxandi kynslóðum ­ myndi með þeim skjaldborg til framtíðar um menningararfleifðina. Sem og um hvers konar þjóðminjar, sem eru í raun undirstaða sjálfstæðrar þjóðmenningar. Á tímum þegar við tengjumst öðrum þjóðum og menningarheimum miklu nánari böndum en áður er ræktun og varðveizla arfleifðar þjóðarinnar mikilvægari en nokkru sinni fyrr.

Á þjóðhátíð ­ og reyndar dag hvern ­ er og mikilvægt að búast þeim vopnum, sem bezt bíta í baráttunni fyrir framtíðarvarðveizlu efnalegs, menningarlegs og stjórnarfarslegs fullveldis þjóðarinnar, það er almennri og sérhæfðri menntun og þekkingu, eins og hún bezt býðst í heiminum á hverjum tíma.

Morgunblaðið óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.

FLUGLEIÐIR Í SÓKNARHUG

IKILL metnaður og sóknarhugur kemur fram í ramma áætlun Flugleiða til næstu tíu ára, sem kynnt var opin berlega á laugardaginn var og gerð voru ítarleg skil hér í Morgunblaðinu í fyrradag. Flugleiðir hyggjast á næsta áratug festa kaup á allt að 12 nýjum þotum frá Boeing-verksmiðjunum, sem er fjárfesting upp á allt að 50 milljarða króna. Þegar hefur verið gengið frá kaupum félagsins á fjórum þotum, sem er fjárfesting upp á 14 til 15 milljarða króna og fjármögnun fyrstu tveggja vélanna, upp á tæpa sjö milljarða króna, er frágengin.

Félagið mun á næstunni hefja flug á nýja áfangastaði austan hafs og vestan, áætlanir gera ráð fyrir árlegri aukningu í flutningum sem nemur níu af hundraði og forsvarsmenn fyrirtækisins hafa einsett sér að ná fram um 5,5% hagnaði af rekstri á ári.

Augljóst er, að Flugleiðir setja markið hátt með þeirri rammaáætlun, sem verður umgjörð starfsemi félagsins næstu tíu árin. Flugfloti félagsins í dag er átta þotur, fjórar B-737- 400 og fjórar B-757-200. Þar af á félagið þrjár vélar en leigir fimm. Félagið hefur ákveðið að byggja flugflotann upp á næstu árum og velur að kaupa B-757-200 og síðar B-757- 300 þoturnar, sem samkvæmt lýsingum forsvarsmanna Flugleiða virðast henta starfsemi félagsins mæta vel, sérstaklega á Ameríkuleiðum.

Lykillinn að mögulegum vexti Flugleiða virðist samkvæmt áætlunum fyrirtækisins m.a. felast í Keflavíkurflugvelli sem aðaltengiflugvelli áætlanakerfis Flugleiða. Í eina tíð var talið að millilending í Keflavík væri Flugleiðum fjötur um fót. Af ýmsum ástæðum virðist sú aðstaða hafa gjörbreytzt. Engu er líkara en Keflavíkurflugvöllur sé að verða sams konar lykill að velgengni Flugleiða og lág fargjöld voru á sínum tíma fyrir Loftleiðir.

Annað lykilatriði í þessari nýju útrás Flugleiða, er að félagið hyggst veðja á sókn vestanhafs og austan, á mörkuðum þar sem framboð er minna en eftirspurn. Slíku virðist vera til að dreifa, að því er varðar nýja áfangastaði félagsins, Helsinki í Finnlandi og Minneapolis í Bandaríkjunum. Með slíkri sókn verður ugglaust auðveldara fyrir félagið að vaxa að burðum.

Það er ljóst, að Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, og samstarfsmenn hans hafa unnið þrekvirki við endursköpun félagsins á einum áratug. Sá metnaður, sem einkennir aðgerðir og áform Flugleiðamanna hlýtur að auka mönnum bjartsýni á öðrum sviðum viðskiptalífsins.