HAGNAÐUR af reglulegri starfsemi Íslenska járnblendifélagsins hf. nam 741,2 milljónum króna á síðasta ári en nam 711,4 milljónum árið 1995. Hagnaður eftir fjármagnsliði, skatta og gjaldfærslu hagnaðarhlutdeildar Landsvirkjunar var 611,7 milljónir króna, sem er rúmlega 15% af brúttóveltu. Árið á undan nam hagnaðurinn 519,8 milljónum króna.
ÐAðalfundur Íslenska járnblendifélagsins

Tæplega 612 millj-

óna hagnaður 1996

HAGNAÐUR af reglulegri starfsemi Íslenska járnblendifélagsins hf. nam 741,2 milljónum króna á síðasta ári en nam 711,4 milljónum árið 1995. Hagnaður eftir fjármagnsliði, skatta og gjaldfærslu hagnaðarhlutdeildar Landsvirkjunar var 611,7 milljónir króna, sem er rúmlega 15% af brúttóveltu. Árið á undan nam hagnaðurinn 519,8 milljónum króna. Ákveðið var á aðalfundi félagsins að greiða hluthöfum 364 milljónir króna í arð vegna ársins 1996.

Nafnverð hlutafjár 1.412,9 milljónir

Verksmiðja félagsins var í fullum rekstri allt árið og náðust metafköst, 72.476 tonn miðað við 75% kísiljárn, sem er 470 tonnum meira heldur en fyrra metár 1989. Verðlag á afurðum var stöðugt lengst af ársins en gaf lítillega eftir undir árslok. Fyrirsjáanlegt er að afkoma ársins 1997 verður einnig góð þótt ekki sé að vænta jafn góðs árangurs og 1996, segir í frétt frá félaginu.

Á aðalfundi Íslenska járnblendifélagsins sem haldinn var síðastliðinn laugardag voru staðfestar fyrri ákvarðanir eigenda félagsins um aukningu hlutafjár að nafnvirði 423,9 milljónir króna og er nafnverð þess í heild eftir þá breytingu 1.412,9 milljónir króna. Elkem ASA skrifar sig fyrir allri hlutafjáraukningunni og eignast þar með 51% eignarhlut í félaginu. Hlutur íslenska ríkisins verður þar með 38,5%, en hlutur Sumitomo Corporation 10,5%. Í samræmi við þetta varð sú breyting á skipan stjórnar að fulltrúum Elkem fjölgar úr 2 í 4, en fulltrúum ríkisins fækkar að sama skapi úr 4 í 2.

Í erindi Jóns Sveinssonar, stjórnarformanns Íslenska járnblendifélagsins, á aðalfundinum kom meðal annars fram í samkomulagi eignaraðila félagsins að Elkem hefur rétt til að kaupa 9% hlut af ríkinu á verði sem jafngildir 2,5-földu nafnverði eða á alls 317,9 milljónir króna ef Elkem ákveður frekari stækkun verksmiðjunnar með fjórða ofninum fyrir 1. júlí 1999. "Við þær aðstæður hefur Sumitomo jafnframt rétt til þess að kaupa 3% af ríkinu með sömu kjörum. Þá er umsamið að félagið verði skráð á Verðbréfaþing Íslands þegar á þessu ári svo mögulegt verði að hefja sölu hlutabréfa ríkisins í félaginu, þ.e. 26,5% sem ríkið hefur til ráðstöfunar fram til 1. júlí 1999.

Þegar liggur fyrir í breytingarlögum um járnblendiverksmiðjuna heimild til iðnaðarráðherra að selja þennan hlut ríkisins í félaginu og er undirbúningur þess hafinn, eftir því sem ég veit best. Enn frekari breytingar á eignarhaldi verksmiðjunnar og þar með skipan stjórnar hennar eru því fyrirsjáanlegar. Er ekkert nema gott um slíkt að segja enda eðli hlutafélags og frjáls markaðar að eignabreytingar á einstökum hlutum hluthafa geti átt sér stað með eðlilegum hætti," segir Jón Sveinsson.

Nýr stjórnarformaður

Á aðalfundinum voru Guðmundur Einarsson, framkvæmdastjóri kísilmálmsviðs Elkem, Marius Grönningsæter, lögmaður Elkem, Stefán Ólafsson, prófessor og Þórólfur Árnason, markaðsstjóri, kjörnir í stjórn fyrir Elkem. Fyrir íslenska ríkið voru þeir Jón Sveinsson og Sturla Böðvarsson kjörnir og Mitsuhiko Yamads fyrir Sumitomo. Á fundi hinnar nýju stjórnar í kjölfar aðalfundar skipti stjórnin með sér verkum þannig að Guðmundur Einarsson er formaður og Jón Sveinson varaformaður.