LEIÐTOGI Rauðu khmeranna í Kambódíu, Pol Pot, var í gær sagður vera á leið til Thailands, eftir að flestir liðsmanna hans höfðu snúið við honum baki. Óeining ríkir innan stjórnar Kambódíu um hvernig bregðast skuli við uppreisnarmönnum.
Fregnir af Pol Pot á flótta til Thailands

Klofningur í

stjórn Kambódíu

Phnom Pehn. Reuter.

LEIÐTOGI Rauðu khmeranna í Kambódíu, Pol Pot, var í gær sagður vera á leið til Thailands, eftir að flestir liðsmanna hans höfðu snúið við honum baki. Óeining ríkir innan stjórnar Kambódíu um hvernig bregðast skuli við uppreisnarmönnum.

Fyrsti forsætisráðherra landsins, Norodom Ranariddh prins, sagði í gær að Pol Pot, sem sagður er vera á flótta eftir að hafa banað yfirmanni lífvarðar síns, og ellefu fjölskyldumeðlimum, hefði flúið í átt að Thailensku landamærunum á sunnudag í lest tíu jeppa. Pol Pot var við völd í Kambódíu 1975-79 og undir "ógnarstjórn" hans var um ein milljón manna líflátin.

Fréttaskýrendur búast við uppgjöri milli Ranariddhs og meðforsætisráðherra hans, Hun Sen, vegna deilna um hvernig bregðast skuli við upplausn innan skæruliðahreyfingarinnar í landinu. Sen varaði við því að þeir embættismenn sem ættu samningaviðræður við skæruliða yrðu teknir höndum.

Eftir fund fulltrúa flokka leiðtoganna tveggja í gær, um hvernig best mætti taka á deilu þeirra, var fréttamönnum tjáð að yfirlýsing Ranariddhs í gær, um að hópur harðskeyttra uppreisnarmanna úr röðum skæruliða myndi ganga í lið með stjórninni hefði verið ótímabær.