TALSVERÐ aukning varð í umsóknum um húsbréfalán í maímánuði og þá einkum í nýbyggingum. Greinilegt er, að markaðurinn hefur tekið við sér á ný, eftir þann samdrátt sem varð í marz og apríl og eflaust mátti rekja til verkfallsumræðunnar, sem þá einkenndi þjóðfélagið.
Uppsöfnuð eftir- spurn segir til sín á markaðnum TALSVERÐ aukning varð í umsóknum um húsbréfalán í maímánuði og þá einkum í nýbyggingum. Greinilegt er, að markaðurinn hefur tekið við sér á ný, eftir þann samdrátt sem varð í marz og apríl og eflaust mátti rekja til verkfallsumræðunnar, sem þá einkenndi þjóðfélagið. Mikil hreyfing er á markaðnum, sem ber það með sér, að nokkur uppsöfnuð eftirspurn hefur orðið til í marz og apríl og hún hefur sagt til sín, eftir að leystist úr kjarasamningum að mestu. Vorið er líka að jafnaði mikill sölutími. Þar við bætist, að efnahagsástand og horfur í landinu eru nú almennt góðar og þá eykst eftirspurn að jafnaði. Áður fyrr var hreyfingin á markaðnum oft minni yfir aðal sumarmánuðina. Nú nota margir, sem eru í íbúðarhugleiðinum, sumarleyfin til þess að skoða sig um á markaðnum. Þeir sem eiga eign fyrir, þurfa um leið að setja hana í sölu. Allt tekur þetta sinn tíma. Gert er ráð fyrir aukningu í íbúðarbyggingum á þessu ári. Á undanförnum árum hefur orðið verðlækkun á nýjum íbúðum og þá sérstaklega á verði nýrra íbúða í fjölbýlishúsum. Þetta hefur aukið eftirspurnina og eftir því, sem verðmunur milli nýs og notaðs húsnæðis hefur minnkað, setja æ færri það fyrir sig, að flytja í nýju hverfin, enda þótt þau séu yfirleitt á jaðarsvæðunum. Langtímalán frá lánastofnunum hafa einnig haft sín áhrif á nýbyggingamarkaðinn. Þau bætast við húsbréfakerfið og hafa aukið möguleika margra á að fjármagna fasteignakaup, ekki hvað sízt kaup á stærri eignum, en lán þessi eru til allt að 25 ára. Þá er það ljóst, að markaðurinn fyrir atvinnuhúsnæði hefur lifnað í takt við þau auknu umsvif og væntingar, sem nú eru til staðar í þjóðfélaginu. Á síðasta ári var aftur tekið til við að byggja atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu að einhverju marki. Ennþá er samt sáralítið komið á markaðinn af nýju atvinnuhúsnæði.