ÁRIÐ 1791 birtist ritgerð í riti Lærdómslistafélagsins eftir séra Guðlaug Sveinsson, prófast í Vatnsfirði við Djúp, sem nefndist Um húsa eða bæjarbyggingar á Íslandi og höfðu skrif þessi legið óbirt í handriti í um tvo áratugi.
Æskuheimili Jóns Sigurðssonar forseta hefur verið endurgert á Hrafnseyri við Arnarfjörð

MINNINGU

FRELSISHETJU

HALDIÐ Á LOFTI

Endurgerð æskuheimilis Jóns Sigurðssonar forseta á Hrafnseyri við Arnarfjörð var vígð á laugardag að viðstöddum gestum en í dag verður húsið opið almenningi til sýnis. Um veglegan bæ er að ræða, með þremur burstum og fagra sýn yfir fjörðinn.

ÁRIÐ 1791 birtist ritgerð í riti Lærdómslistafélagsins eftir séra Guðlaug Sveinsson, prófast í Vatnsfirði við Djúp, sem nefndist Um húsa eða bæjarbyggingar á Íslandi og höfðu skrif þessi legið óbirt í handriti í um tvo áratugi.

Með ritgerðinni birti séra Guðlaugur grunnmyndir og útlitsteikningar af þremur gerðum sveitabæja; smábýli, meðalbæ og stórbæ. Tvær þær fyrstu voru endurbætur á ríkjandi skipulagi en með þriðju tillögunni boðaði séra Guðlaugur algjöra umbyltingu á stöðu bæjarhúsa á Íslandi og útliti þeirra, að sögn Harðar Ágústssonar í ritinu Íslensk þjóðmenning, en Hörður hefur rannsakað sögu íslenska torfbæjarins betur en flestir aðrir.

Hugmyndir séra Guðlaugs voru í raun þær fyrstu um byggingu burstabæjar á landinu sem vitað er um. Skömmu fyrir aldamótin 1800 var reistur bær á Hrafnseyri og var sá sem að byggingu hans stóð afi og alnafni Jóns Sigurðssonar. Telja má nokkuð öruggt að séra Jón byggði bæinn eftir teikningum starfsbróður síns í Vatnsfirði og að burstabærinn á Hrafnseyri er í hópi allra fyrstu bæjarhúsa á landinu með því lagi, hugsanlega sá fyrsti, en burstabæir urðu ekki algengir í sveitum fyrr en um miðja 19. öld. Í þessum bæ fæddist Jón Sigurðsson fyrir réttum 186 árum, 17. júní árið 1811.

Þegar séra Böðvar Bjarnason tók við forráðum á Hrafnseyri árið 1902 voru bæjarhús staðarins að falli komin og með öllu óhæf til íbúðar. Ekki fékkst fjármagn til endurbyggingar og voru húsin því rifin fyrir utan gaflhlað eins hússins og séra Böðvar byggði nýtt hús úr timbri. Sumarið 1994 var hafist handa við að endurbyggja bæinn á vegum Hrafnseyrarnefndar og var stuðst við úttektargjörðir og lýsingu Guðbjargar Kristjánsdóttur frá Baulhúsum, en hún gekk til spurninga hjá séra Richard Torfasyni þar skömmu fyrir aldamótin 1900.

Auðun H. Einarsson og Ágúst Böðvarsson gerðu vinnuteikningar, en Auðun hefur verið yfirsmiður við verkið ásamt Sófusi Guðmundssyni.

Matthías Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, hefur verið formaður Hrafnseyrarnefndar um nokkurra ára skeið og á að öðrum ólöstuðum stærstan þátt í að eftirmynd æskuheimilis Jóns er nú risin. Hann kveðst telja mjög vel hafa til tekist og ekki síst sé vert að benda á viðbætur til að auðvelda aðgengi gesta, svo sem göngustíg fyrir fatlaða.

Gamall draumur Hrafnseyrarnefndar

"Það var gamall draumur okkar nefndarmanna að reisa hér hús í mynd æskuheimilis Jóns. Ég hef haft mikinn áhuga á þessu máli og sömuleiðis forveri minn í embætti, Þórhallur Ásgeirsson ráðuneytisstjóri, sonur Ásgeirs Ásgeirssonar forseta, sem var fyrsti formaður nefndarinnar, en þeir hafa einungis verið þrír frá upphafi. Uppi voru hugmyndir um að endurhlaða það sem stóð af bænum og var rætt við Svein Einarsson hleðslumann af Austurlandi um að taka það að sér, en hann vildi fremur byggja upp allan bæinn. Ekkert varð þó úr því, þar sem hann féll frá vetri eftir að við hann var rætt.

Hrafnseyrarnefnd tók síðan málið upp og hófust framkvæmdir árið 1994 eftir grunnuppdráttum Ágústar Böðvarsson með hliðsjón af líkani sem er að finna í safni Jóns Sigurðssonar og teikningum Auðuns H. Einarssonar. Hornsteinninn var lagður 17. júní það ár, og hafa nefndarmenn fyrr og síðar verið afar samstiga og unnið ötullega við að ná þessu marki," segir Matthías.

Enginn torfbær er nú uppistandandi í heilu lagi á Vestfjörðum, eftir því sem næst verður komist, en ljóst er að bærinn á Hrafnseyri var í stærra lagi miðað við það sem algengt var í þeim landsfjórðungi. Tæpur tugur manna hefur unnið við endurbygginguna á þeim árum sem hún hefur staðið. Matthías segir framkvæmdina mun dýrari en menn hafi reiknað með í upphafi hennar, og sé útlit fyrir að endanlegur kostnaður nemi um 17 milljónum króna.

Einkaaðilar lagt fram fé

"Heildartalan liggur enn ekki fyrir, en í árslok 1996 nam kostnaður 13,8 milljónum króna og talsvert hefur bæst við síðan, en við áætluðum að kostnaður yrði um 11 milljónir króna. Í þessum tölum eru hins vegar einnig tæki og áhöld sem notuð eru m.a. í nútímalegu eldhúsi í bænum, og voru ekki í upphaflegri kostnaðaráætlun. Ríkissjóður á Hrafnseyri og hefur Alþingi lagt 3,3 milljónir króna alls frá 1994 til verksins. Ríflega 20 fyrirtæki og stofnanir sem leitað var til hafa síðan lagt til um 7 milljónir króna, auk þess sem Hrafnseyrarnefnd hefur ráðstafað 2,3 milljónir króna til hússins af takmarkaðri fjárveitingu sinni.

Nefndin hefur staðið fyrir þessari framkvæmd og lagt sig mjög fram um að fá aðstoð til hennar, og kunnum við sérstakar þakkir til þeirra fyrirtækja sem hafa styrkt endurbygginguna. Við vitum ekki enn hvernig við öflum þess sem upp á vantar, en væntum þess að áhugi Alþingis á málinu sé ekki þrotinn," segir Matthías.

Samstarf hefur tekist á milli nefndarinnar og Byggðasafnsins á Ísafirði um að munir úr safninu verði til sýnis í bæ Jóns Sigurðssonar, auk þess sem í honum er að finna muni úr safni Jóns Sigurðssonar. Matthías segir það von manna að munum verði skipt út reglulega, þannig að stöðugt muni eitthvað nýtt bera fyrir sjónir gesta. Bærinn er hluti af safni Jóns og verða veitingar seldar þar í sumar undir forystu Erlu Ebbu Gunnarsdóttur, en safnverðir eru Sigríður Steinþórsdóttir og Tómas Jónsson. Matthías kveðst telja bæinn veglega viðbót við það sem ferðamönnum stendur til boða að skoða á Vestfjörðum, en miður sé að vegir á Vestfjörðum auðveldi fólki ekki sérstaklega að komast á milli staða.

Minnisvarði um boðbera frelsis

"Við stefnum að því að safnið verði ekki byrði á okkur, heldur standi undir rekstrarkostnaði. Bærinn er í mínum huga vel til þess fallinn að halda á lofti minningu Jóns, sem stóð fremstur manna í baráttunni fyrir sjálfstæði þessarar þjóðar. Hann barðist ekki með vopnum heldur með orðum og naut mikillar virðingar, jafnt samherja og þeirra sem hann barðist við. Minning hans má ekki dofna og unga fólkið má ekki gleyma honum eða sögu þessarar þjóðar. Æska og uppeldi Jóns á jafn ágætu heimili og hér var á Hrafnseyri á án vafa mikinn þátt í að Jón varð sá sem raun ber vitni; boðberi frelsis til handa íslensku þjóðinni. Síðan með skólagöngu hans og samskiptum við bæði sér eldri menn, jafnaldra og yngri, vex áhugi hans á sjálfstæðismálum Íslendinga," segir Matthías.

Vagga lækninga á Íslandi

Fleiri en Jón hafa þó komið við sögu Hrafnseyrar og gert garðinn frægan og bendir Matthías á Hrafn Sveinbjörnsson í því sambandi. "Hér stóð vagga íslenskra lækninga og var Hrafn fyrsti menntaði íslenski læknirinn, einn allra besti og mikilhæfasti maður á sínum tíma. Þrátt fyrir að vera friðsamur höfðingi og læknir urðu hans örlög þau að bær hans var brenndur og hann tekinn af lífi.

Við í nefndinni viljum gjarnan að í framtíðinni verði meira gert til að verk og störf Hrafns verði eftirminnileg fyrir komandi kynslóðir. Einnig hafa hér búið margir ágætir bændur og prestar, sem ráku hér skóla um langa hríð, bæði barnafræðslu og unglingaskóla, sem þyrfti að minnast og grafast betur fyrir um.

Háaldraðir menn sem voru í þessum skóla í tíð séra Böðvars, hafa sagt mér að ekki hafi verið mikil þægindi í heimavistinni. Tveir voru saman í koju og hvorugur vildi vera við vegginn, vegna þess að torfið fraus og kalt þótti að sofa við klakann," segir Matthías.

Matthías kveðst þeirrar skoðunar að Hrafnseyrarnefnd hafi næg verkefni að vinna í framtíðinni, og þá einkum í sambandi við aðra mektarmenn sem tengjast sögu staðarins eins og áður er getið. Næsta verk sem bíði sé hins vegar endurbætur á húsi staðarhaldara, Hallgríms Sveinssonar, og konu hans, Guðrúnar Steinþórsdóttur.

Reisulegri en áður var

Hallgrímur segir að í bæ Jóns í sé meðal annars skrifstofa prestsins, skáli, hlóðaeldhús og port þar sem inngangurinn er, auk eldhúss í nútímamynd, baðstofur, tveimur fleiri en upphaflega, hjónaherbergi og eitt herbergi til viðbótar.

"Í þessum bæ er miklu meira timbur en áður var, enda þá víðast hvar moldargólf og torfveggir. Aðeins hjónaherbergið og skrifstofan voru þiljuð," segir Hallgrímur. "Innanmál bæjarins er um 150 fermetrar en utanmálið um 200 fermetrar, þannig að hann er nokkuð stærri en bærinn sem hér stóð á sínum tíma. Við vitum ekki nákvæmlega hvernig bærinn leit út fyrir aldamótin 1800, en teljum þó að bærinn nú gefi sæmilega góða mynd af útliti hans miðað við þær heimildir sem liggja fyrir.

Hann er þó aðeins reisulegri, bæði lengri og lofthæðin ögn hærri, sem sumum finnst þó of lítil, en er samt um 20 sentímetrum hærra en var á sínum tíma. Þjóðin gekk hokin um þessar byggingar til forna. Mér finnst að flestu leyti hafa vel tekist til, einkum að tengja saman gamalt og nýtt sem hefur heppnast á afar skemmtilegan hátt. Ég tel að þetta hús muni laða fólk að sögunni."

Í bænum eru ýmsir sögufrægir munir úr byggðasafninu á Ísafirði, svo sem brúðhjónastóllinn úr Hraunskirkju í Keldudal í Dýrafirði, skriftastóll sem er sennilega einnig úr Hraunskirkju, altaristafla frá 1699 úr Álftamýrarkirkju á strönd Arnarfjarðar og fleiri munir sem eiga að minna á uppvaxtartíma Jóns Sigurðssonar, þótt enga hluti sé að finna í húsinu sem tilheyrðu honum persónulega eða fjölskyldu hans.

Vel tekist til

"Jón hefði vonandi þekkt sig hér innanstokks þrátt fyrir allt, og eflaust kunnað vel við sig," segir Hallgrímur. "Ég hef alltaf búist við að sá dagur rynni upp að hús sem þetta risi, til að viðhalda minningu og virðingu frelsishetju okkar, en átti tæpast von á að eins vel myndi til takast og nú er raunin."

Sóknarpresturinn á Þingeyri, séra Guðrún Edda Gunnarsdóttir, flutti blessunarorð á laugardag, rakti í stuttu máli æsku og uppvöxt Jóns og kvaðst vona að bærinn myndi um ókomin ár minna á það umhverfi og jarðveg sem Jón var sprottinn úr.

Morgunblaðið/Jim Smart Í BÆ Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri er vönduð endurgerð hlóðaeldhúss eins og þau voru á öndverðri 19. öld.

MEÐ þessum hætti ímynda forráðamenn safns Jóns að svefnherbergi foreldra hans hafi litið út, eða því sem næst.

BÆRINN er merktur sem fæðingarstaður Jóns á hógværan hátt yfir aðalinngangi, en þar fæddist hann 17. júní árið 1811.

Morgunblaðið/Jim Smart HORNSTEINN að bænum var lagður 17.júní 1994 og nú þremur árum síðar er húsið fullbúið, en mjög var vandað til verksins.

HALLGRÍMUR Sveinsson staðarhaldari á Hrafnseyri og Matthías Bjarnason, formaður Hrafnseyrarnefnda, hafa unnið ötullega að endurbyggingu bæjarins.

GIFSMYND af vangasvip Jóns, sem hangir uppi í svefnherbergi bæjarins.