BRAUTSKRÁNINGARHÁTÍÐ Háskólans á Akureyri fór fram í Akureyrarkirkju sl. laugardag. Brautskráðir voru 73 kandídatar frá fjórum deildum skólans og er þetta næststærsti hópurinn sem útskrifaður hefur verið frá skólanum. Fjórar stúlkur útskrifuðust úr sjávarútvegsdeild að þessu sinni, þær fyrstu sem útskrifast frá deildinni.
Fyrstu stúlkurnar útskrifaðar frá sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri 73 kandídatar

útskrifaðir

BRAUTSKRÁNINGARHÁTÍÐ Háskólans á Akureyri fór fram í Akureyrarkirkju sl. laugardag. Brautskráðir voru 73 kandídatar frá fjórum deildum skólans og er þetta næststærsti hópurinn sem útskrifaður hefur verið frá skólanum. Fjórar stúlkur útskrifuðust úr sjávarútvegsdeild að þessu sinni, þær fyrstu sem útskrifast frá deildinni.

Þorsteinn Gunnarsson, rekstor HA, gerði að umtalsefni í skólaslitaræðu sinni skýrslu menntamálaráðherra þar sem fram kemur að Íslendingar standa töluvert langt að baki helstu samkeppnisþjóða hvað varðar hlutfall þeirra sem lokið hafa háskólaprófi. "Hér á landi hafa 6­17% af einstökum árgöngum lokið háskólaprófi em meðaltal 22 OECD-landa er 13­23%. Hlutfallslega færri Íslendingar stunda nú háskólanám miðað við aðrar OECD-þjóðir, sérstaklega í tæknivísindum."

Aðeins 2% vinna við sjávarútveg

Þorsteinn benti einnig á niðurstöður rannsókna á starfsvettvangi háskólamenntaðra manna en þær sýna að háskólamenntað fólk vinnur að öllu jöfnu í opinbera geiranum en í miklum minnihluta í framleiðslu- og útflutninsgreinum. "Aðeins um 2% háskólamenntaðra manna vinna við sjávarútveg en sú atvinnugrein eru þó undirstaða útflutningsteknanna," sagði Þorsteinn.

Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, hefur heimilað að Háskólinn á Akureyri stofni námsbraut í iðjuþjálfun næsta haust. Námstíminn er fjögur ár og lýkur með 120 eininga BS-prófi. "Nám í iðjuþjálfun er löngu tímabær nýjung hér á landi enda mikill skortur á fagfólki í þessari grein. Talið er að um 200 iðjuþjálfa vanti til starfa hérlendis."

Nám í ferðaþjónustu að hefjast

Þorsteinn sagði að við rekstrardeild væri unnið að því að koma á fót námi í ferðaþjónustu er hefjist haustið 1998. Hér er um að ræða nám sem skiptist í tveggja ára rekstrarfræðinám með möguleika á viðbótarári sem gæfi BS-gráðu en hins vegar þriggja ára samfellt nám til BS-gráðu.

Háskólaárið 1996­97 voru 120 nemendur í heilbrigðisdeild, 109 í kennaradeild, 69 í rekstrardeild og 65 í sjávarútvegsdeild. Um leið og Þorsteinn afhenti þeim 73 kandídötum sem útskrifuðust frá skólanum á sunnudag vitnisburð um námsárangurinn, sagði hann m.a.: "Hvert sem leið ykkar liggur, til starfa eða framhaldsnáms, mun háskólinn verða metinn eftir menntun ykkar hér."

Morgunblaðið/Björn Gíslason GESTIR á brautskráningarhátíð Háskólans á Akureyri í Akureyrarkirkju hlýða á skólaslitaræðu Þorsteins Gunnarssonar, rektors.