Á NESJAVÖLLUM eru framkvæmdir hafnar á vegum Ármannsfells við byggingu rafstöðvarhúss fyrir jarðvarmavirkjun með allt að 60 MW afli að Nesjavöllum. Áætlaður kostnaður er um 5 milljarðar en auk þess er ráðgert að veita 100 milljónum til stækkunar á varmaorkuveri Hitaveitunnar á árinu.
Hitaveita Reykjavíkur

5,5 milljarðar

til framkvæmda



Á NESJAVÖLLUM eru framkvæmdir hafnar á vegum Ármannsfells við byggingu rafstöðvarhúss fyrir jarðvarmavirkjun með allt að 60 MW afli að Nesjavöllum. Áætlaður kostnaður er um 5 milljarðar en auk þess er ráðgert að veita 100 milljónum til stækkunar á varmaorkuveri Hitaveitunnar á árinu. Þá verður um 200 milljónum varið til Reykjaæðar frá Reykjum í Mosfellsbæ og 250 milljónum vegna endurnýjunar á eldri lögnum. Jafnframt er gert ráð fyrir að Hitaveitan greiði 900 milljónir í afgjald til borgarsjóðs á þessu ári.

"Nesjavellir eru í góðum gangi eftir smátöf og er verið að vinna við sökklana að stöðvarhúsinu," sagði Gunnar Kristinsson hitaveitustjóri. Samið var við Ármannsfell um byggingu rafstöðvarhúss, sem verður stálgrindarhús og eru um 40 til 50 manns við þá vinnu um þessar mundir en þeim á eftir að fjölga seinna í sumar. Áætlað er að framkvæmdin kosti öll um 5 milljarða og er gert ráð fyrir 1.970 milljónum til verksins á þessu ári en 2.600 milljónum á næsta ári þegar vélbúnaður verður settur upp. Innifaldar í þeirri upphæð eru 500 milljónir vegna háspennulínu frá virkjuninni, sem Rafmagnsveita Reykjavíkur mun sjá um að leggja.

Endurnýjun á veitukerfi

Í sumar verður einnig unnið við endurnýjun á veitukerfi Hitaveitunnar í og að borginni og verður 200 milljónum varið til Reykjaæðar frá Grafarholti á árinu og 160 milljónum á næsta ári auk þess sem gert er ráð fyrir 250 milljónum vegna endurnýjunar á lögnum í eldri hluta borgarinnar og í Breiðholti. "Framkvæmdir eru að hefjast en þetta fer frekar seint af stað," sagði Gunnar. "Það er langt komið með að endurnýja lagnir í vesturbænum og má segja að þeirri framkvæmd sé nánast lokið."

Morgunblaðið/Árni Sæberg VERIÐ er að vinna við sökkla að rafstöðvarhúsinu á Nesjavöllum en síðan verður reist stálgrindarhús. Áætlaður heildarkostnaður vegna framkvæmdanna er um fimm milljarðar.