ERNIE Els frá Suður-Afríku sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi um helgina, lék á 276 höggum, einu höggi færra en Skotinn Colin Montgomerie, sem varð enn og aftur að sjá af titlinum. Það sem skildi á milli var fyrst og fremst sjálfstjórn. Els var sex höggum á eftir Montgomerie eftir fyrsta hring, en lék síðustu þrjá hringina af öryggi á meðan Montgomerie sprakk á limminu.
GOLF / OPNA BANDARÍSKA MEISTARAMÓTIÐ

Els hafði það sem

Montgomereie vantaði ERNIE Els frá Suður-Afríku sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi um helgina, lék á 276 höggum, einu höggi færra en Skotinn Colin Montgomerie, sem varð enn og aftur að sjá af titlinum. Það sem skildi á milli var fyrst og fremst sjálfstjórn. Els var sex höggum á eftir Montgomerie eftir fyrsta hring, en lék síðustu þrjá hringina af öryggi á meðan Montgomerie sprakk á limminu. Els er fyrsti útlendingurinn í 87 ár sem sigrar tvisvar á Opna bandaríska meistaramótinu.

Veður setti mark sitt á annan og þriðja dag því þá þurfti að fresta leik vegna eldinga sem gengu yfir svæðið. Lokaspretturinn var spennandi enda voru fjórir að berjast um sigur; Els, Montgomerie, Tom Lehman og Jeff Maggert. Maggert heltist þó úr lestinni á síðustu holunum en hinir tveir sáu sæng sína uppreidda á 17. holunni. Els hélt ró sinni, lék síðustu fimm holurnar á pari og hampaði bikarnum öðru sinni á þremur árum, en kappinn sigraði einnig á mótinu árið 1994, eftir bráðabana meðal annars við Montgomerie.

"Reynslan kennir manni að halda ró sinni og það er nauðsynlegt til að sigra í stórmóti sem þessu, sérstaklega þegar mjótt er á mununum," sagði Els eftir sigurinn. "Ernie var hræðilega rólegur. Hann er þannig gerður að hann getur haldið ró sinni þegar mest á reynir og það er það sem þarf til að sigra á svona móti," sagði Montgomerie sem lék með Els í síðasta riðli á sunnudaginn.

Montgomerie viðurkenndi á sunnudaginn að hann hugsaði of mikið um þann vafasama heiður að vera útnefndur besti kylfingurinn sem aldrei hefur sigrað á stórmóti. "Ég er aðeins mennskur og viðurkenni því fúslega að ég grét eftir að ljóst varð að ég myndi missa enn eina ferðina af sigri á stórmóti," sagði hinn 33 ára gamli Skoti sem aldrei þessu vant lét áhorfendur fara í taugarnar á sér og skammaði þá á föstudaginn þegar hann þurfti að bíða í fimm mínútur eftir þögn þegar hann var að pútta á 17. flöt. Hann sló síðan á létta strengi og sagði: "Ef ég held áfram að banka svona harkalega á dyrnar hlýtur það að enda með því að þær opnast."

Lehman reyndi eins og hann gat að halda í við Els en möguleikar hans hurfu þegar hann sló í vatnið við 17. flöt. "Í síðasta hring varð ég að spila af ákveðni og alltaf beint á pinna til að eiga möguleika. Ég hafði möguleika og Monty [Montgomerie] líka. Mér líður illa yfir því að hafa ekki sigrað og mér finnst eitthvað vanta þó svo ég hafi alltaf einn sigur á stórmóti til að hugga mig við, en Monty hefur aldrei sigrað. Honum hlýtur að líða hræðilega," sagði Lehman sem var valinn besti leikmaður Bandaríkjanna í fyrra. Hann hefur haft forystu fyrir síðasta dag Opna bandaríska síðustu þrjú árin, en ávallt þuft að játa sig sigraðan.

"Ég hef alltaf verið sannfærður um að ég gæti sigrað á stórmóti, þau eru allt öðruvísi en önnur mót því þá þarf maður að einbeita sér mun meira og kafa djúpt í sálartetrið til að halda stöðugleika. Sjáið hvernig Nicklaus gerði þetta, en hann hefur 18 sinnum sigrað á stórmóti. Hann var alltaf með fulla stjórn á sveiflunni og á leik sínum. Ég veit að það er erfitt að gera slíkt, en ég held að þetta sé allt að koma hjá mér," sagði Els.

Afi hjálpaði mér mikið

Foreldrar Els voru meðal áhorfenda á sunnudaginn, en þau leika bæði golf og hafa gert í 27 ár, eða frá því Els fæddist. Það var Ernie Vernaak, móðurafi Els, sem kynnti þau fyrir golfíþróttinni þegar hann fæddist og Els ræðir oft við þennan 89 ára gamla kylfing. "Ég hringdi heim á laugardaginn og ræddi við afa. Mér fannst ég verða að heyra í gamla manninum, hann er svo fróður og vitur. Eftir samtalið leið mér mjög vel og ég hugsaði mikið til hans síðasta hringinn," sagði meistarinn.

Reuter ERNIE Els sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu á sunnudaginn. Hér slær hann upp úr sandglompu á fjórðu braut. Els lék síðustu fimm holurnar allar á pari á meðan helstu keppinautar hans fengu óþarfa skolla á 17. holunni.