BYRJUNARLAUN hjúkrunarfræðinga eru um 11 þúsund krónum hærri en byrjunarlaun læknakandídata eftir nýjan kjarasamning hjúkrunarfræðinga. Helgi H. Helgason, formaður Félags ungra lækna, segir þetta lýsandi dæmi um slæma launaþróun hjá læknum. Þeir hafi dregist aftur úr í kjörum og þróunin sé úr takti við ábyrgðina.
Byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga hærri en læknakandítata

Launaþróun lækna úr

takti við ábyrgðina

BYRJUNARLAUN hjúkrunarfræðinga eru um 11 þúsund krónum hærri en byrjunarlaun læknakandídata eftir nýjan kjarasamning hjúkrunarfræðinga. Helgi H. Helgason, formaður Félags ungra lækna, segir þetta lýsandi dæmi um slæma launaþróun hjá læknum. Þeir hafi dregist aftur úr í kjörum og þróunin sé úr takti við ábyrgðina.

Helgi segir að laun kandídata eftir útskrift séu kringum 95 þúsund krónur og byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga séu um 106 þúsund krónur. Í síðustu samningum náðu hjúkrunarfræðingar fram ákvæðum um að miða launin við lífaldur og náðu fram hækkunum sem nema um 20% til næstu aldamóta. Segir Helgi að fram hafi komið í norrænni könnun í fyrra að laun hjúkrunarfræðinga hefðu verið um 11% lægri en laun lækna hér, algengur munur á hinum Norðurlöndunum væri 30­50% og upp í 80% í Finnlandi.

Helgi sagði þetta sýna að læknar hérlendis hefðu dregist mjög afturúr í kjörum og nefndi sem dæmi að læknanemi á fyrsta ári sem væri í sumarvinnu hjá borginni hefði 95 til 100 þúsund króna laun við gróðursetningastörf. "Launaþróun síðustu ára og samsetning launanna er gjörsamlega úr takti við þá miklu ábyrgð sem læknir ber og hin auknu afköst læknisþjónustunnar sl. áratug," segir Helgi.

Langvarandi óánægja

Formaður Félags ungra lækna segir að ekki sé útlit fyrir nýjan samning sjúkrahússlækna í bráð.

"Ég sé þá ekki fram á annað en viðræður frestist til haustsins. Slæm kjör lækna hér eru ekkert ný af nálinni en hafa valdið mikilli og langvarandi óánægju meðal allra lækna, heimilislækna, sjúkrahúslækna og sérfræðinga. Þetta hefur þegar haft slæm áhrif á heilbrigðisþjónustuna og mun valda verulegum vandræðum og jafnvel skorti á læknisþjónustu strax í haust. Staðreyndin er sú að margir læknar eru að flytjast úr landi, aðrir hugsa sér til hreyfings og svo hefur hægt verulega á heimkomu lækna úr sérnámi erlendis," sagði Helgi H. Helgason.