GJÁIN sem myndaðist í eldgosinu í Vatnajökli síðastliðið haust er enn hrikaleg ásýndum. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Raunvísindastofnun HÍ, stýrir þessa dagana tveggja vikna vorferð Jöklarannsóknafélags Íslands á Vatnajökli. Hann sagði miklu meira eftir af gjánni en hann hefði búist við eftir veturinn.
Jöklarannsóknafélag Íslands í einni umfangsmestu vorferð sinni á Vatnajökul Gossvæðið við Gjálp er hættulegt yfirferðar

GJÁIN sem myndaðist í eldgosinu í Vatnajökli síðastliðið haust er enn hrikaleg ásýndum. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Raunvísindastofnun HÍ, stýrir þessa dagana tveggja vikna vorferð Jöklarannsóknafélags Íslands á Vatnajökli. Hann sagði miklu meira eftir af gjánni en hann hefði búist við eftir veturinn. Austan til í gosgjánni, þar sem gígurinn var, sést 40 metra hár kollur á fjallinu, sem myndaðist við gosið, standa upp úr gjárbotninum. Gosefnin sem mynda kollinn eru nú að ummyndast í móberg og er hæð fjallsins um 300 metrar, mælt frá jökulbotninum.

Umfangsmikil rannsóknaferð

Þessi vorferð Jöklarannsóknafélagsins er ein umfangsmesta rannsóknarferð á vegum félagsins til þessa, að sögn Magnúsar Tuma. Meira en 40 einstaklingar, bæði vísindamenn og aðstoðarmenn, taka þátt í vorferðinni og dvelja þeir ýmist eina eða tvær vikur á jöklinum við margvísleg verkefni. Aðaláhersla er lögð á rannsóknir sem tengjast gosstöðvunum í Gjálp, norðan Grímsvatna, og breytingum sem urðu á jöklinum í kjölfar gossins í haust er leið. Leiðangurinn heldur til í skálum Jöklarannsóknafélagsins á Grímsfjalli. Hverju sinni eru fjórir til fimm vinnuhópar að störfum á ýmsum stöðum á jöklinum.

Hættulegt svæði

Blaðamenn Morgunblaðsins voru á ferð í Grímsvötnum um helgina ásamt fleirum og fóru meðal annars niður í gosgjána að vestanverðu. Það ferðalag gekk betur en á horfðist því ljósmyndarinn datt niður í sprungu. Undir sakleysislegri snjóþekjunni leyndist op sem hefði hæglega getað gleypt mann. Ljósmyndaranum tókst að stöðva sig þegar hann var kominn upp undir axlir í holuna og var hjálpað úr sprungunni af samferðamönnum.

Þessi óskemmtilega reynsla var alvarleg áminning um að svæðið er stórhættulegt yfirferðar. Undir þunnu snjólagi leynast víða sprungur og göt. Ekki er ráðlegt að fara þarna um nema gæta ýtrustu varúðar. Enginn ætti að leggja leið sína um þessar slóðir án þess að vera bundinn í öryggislínu.

Morgunblaðið/Árni Sæberg MENNIRNIR eru næsta smáir undir jökulveggjunum vestast í gjánni þar sem vatnið sem bráðnaði við gosið fékk útrás.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

ÞEGAR horft er austur eftir gjánni, í átt að sjálfum gígnum, sést hvernig íshellan hefur rofnað og umbylst á löngum kafla.