HIÐ fjárvana jarðlestakerfi í London kann að verða selt í hendur einkaaðila samkvæmt tillögum bresku stjórnarinnar, að því er fram kemur í skjölum sem lekið var til breska ríkissjónvarpssins, BBC.
Jarðlestakerfið í London

Stjórn Blairs íhug-

ar einkavæðingu

London. Reuter.

HIÐ fjárvana jarðlestakerfi í London kann að verða selt í hendur einkaaðila samkvæmt tillögum bresku stjórnarinnar, að því er fram kemur í skjölum sem lekið var til breska ríkissjónvarpssins, BBC.

Þessi hugmynd kemur fram í tillögum sem John Prescott, aðstoðarforsætisráðherra, hefur nú til endurskoðunar. Meðal þess sem lagt er til, er að selja meirhluta í jarðlestakerfinu, sem þarf nauðsynlega á fjármagni að halda til viðgerða og viðhalds, eigi ástand þess ekki að versna enn frekar.

Í skjölum Prescotts er vandanum lýst sem "knýjandi", og í viðtali sem sjónvarpað var í gær gekkst hann við vandanum og sagði: "Ég er að tala um miklar [breytingar] ... og að gera grundvallarbreytingar á framtíð þessa iðnaðar."

Talsmenn einkaaðila í samgöngumálum voru ánægðir með þessi tíðindi. Chris Moyes, starfsmaður lestafyrirtækisins Go-Ahead í London, sagði að fyrirtækið myndi hafa áhuga á að taka þátt í rekstri jarðlestanna ef til kæmi.

Í samgönguráðuneytinu er talið að um einn til tveir milljarðar sterlingspunda, eða um eitt til tvö hundruð milljarðar króna, fengjust fyrir jarðlestakerfið, verði það selt. Fyrst verður þó að verja 1,2 milljörðum punda, um 120 milljörðum króna, til að greiða upp skuldir vegna reksturs kerfisins.