KAPPAKSTURSMENN voru rækilega minntir á hætturnar sem fylgja íþrótt þeirra í Formúla-1 kappakstrinum í Montreal á sunnudag. Keppni var hætt vegna slysa á brautinni er fjórðungur leiðarinnar var enn óekinn en þá voru 12 keppendur af 22 úr leik vegna slysa.

Ólán Coulthards varð Schumacher að láni



KAPPAKSTURSMENN voru rækilega minntir á hætturnar sem fylgja íþrótt þeirra í Formúla-1 kappakstrinum í Montreal á sunnudag. Keppni var hætt vegna slysa á brautinni er fjórðungur leiðarinnar var enn óekinn en þá voru 12 keppendur af 22 úr leik vegna slysa. Fannst keppnisstjóra nóg komið er Prost-bifreið Frakkans Oliviers Panis slengdist utan í grindverk, endasentist yfir brautina á öryggisvegg og brotnaði í tvennt. Eftir lá Panis tvíbrotinn á báðum fótum og ekur tæpast meira á keppnistímabilinu.

Alain Prost, eigandi Prost-liðs ins, sagði í gær, að bilun í aftari fjöðrunarbúnaði hefði valdið því að Panis missti stjórn á bíl sínum á einum af hraðari köflum brautarinnar. Hefði verið ekið aftan á hann í byrjun keppninnar og síðar hefði hann rekist utan í grindverk á leið inn á viðgerðarsvæði til að taka eldsneyti. Væri þar líklega að finna skýringuna á hvers vegna fjöðrunarbúnaður gaf sig.

Keppni var hætt rétt eftir óhapp Panis á 51. hring af 69. Þjóðverjinn Michael Schumacher á Ferrari-bíl var úrskurðaður sigurvegari þar sem hann var þá með forystu í keppninni. Hefur hann tekið forystu í stigakeppni ökumanna af Jacques Villeneuve sem gerði byrjendamistök á öðrum hring; bremsaði ekki nægilega mikið svo að fremri hjólbarðarnir gripu ekki sleipa brautina í beygju með þeim afleiðingum að hann ók út af á vegg. Kenndi hann sér sjálfur um hvernig fór, barði í sífelllu í hjálm sinn er hann steig upp úr bílnum. Lét Villeneuve í ljós iðrun enda við miklu af honum búist á heimavelli á kappakstursbraut sem nefnd er eftir föður hans, Gilles. Vegna væntinga um góða frammistöðu Villeneuve, sem var með forystu í stigakeppninni fyrir mótið, höfðu rúmlega 100 þúsund manns keypt sig inn í stúkuna meðfram brautinni, sem er metfjöldi í 30 ár. Meðal þeirra var móðir hans, Joan, sem var mætt til að horfa á son sinn í fyrsta sinn í Formúlu-1 kappakstri.

Villeneuve hafði vonast til að vinna hundraðasta sigur Williams- liðsins í heimaborg sinni en liðið fer sneypt heim þar sem Heinz-Harald Frentzen varð einungis í fjórða sæti.

Óheppni Skotans Davids Coulthards, sigurvegara fyrsta kappaksturs ársins, varð Schumacher að láni því sá fyrrnefndi hafði haft góða forystu í Montreal er hann skaust inn til að skipa um hjólbarða er kúplingin gaf sig og drapst á bílnum. Við það missti Coulthard forystuna og um sama leyti var keppnin blásin af. Í stað þess að komast upp í þriðja sæti í stigakeppni ökumanna sat hann eftir með sárt ennið og engin stig.

Lítið var um fögnuð er verðlaun voru veitt. Keppendur höfðu áhyggjur af líðan hins slasaða franska félaga síns. Var því hinu hefðbundna kampavínssprauti sleppt.

Montreal-kappaksturinn verður Damon Hill, heimsmeistara frá í fyrra, minnisstæður sakir þess að Arrow-bílarnir luku nú sinni fyrstu keppni á árinu. Í flestum tilvikum hefur mótor gefið sig í báðum bílum eða önnur óhöpp orðið þess valdandi að þeir luku ekki keppni.

Einna athyglisverðust var frammistaða Ítalans Giancarlos Fisichella á Jordan-bíl sem ók stórvel og varð þriðji eftir harða baráttu við Frakkann Jean Alesi á Benetton.

Að loknum sjö kappökstrum af 17 hefur Schumacher 37 stig, Villeneuve 30, Panis 15, Irvine 14, Frentzen og Alesi 13 og Coulthard 11. Í keppni bílasmiða er Ferrari með 51 stig, Williams 43, Benetton 23, McLaren 21, Prost 16 og Jordan 12.

Næsti kappakstur verður á Magny-Courts brautinni í Frakklandi um aðra helgi.

Reuter PROST-bifreið Frakkans Oliviers Panis hafnar á öryggisvegg í kappakstursbrautinni í Montreal. Ein dekkjastæðan hentist á loft og skall á höfði Panis. Tvíbrotnaði hann á báðum fótum. Talið er að rekja megi óhappið til bilunar í fjöðrunarbúnaði.