STEFÁN P. Eggertsson, formaður nefndar um tónlistarhús í Reykjavík, segir að nefndin sé þeirrar skoðunar að lóðin við Borgarleikhúsið myndi ekki rúma svo stóra byggingu sem tónlistarhúsið verður. Stefán sagði að nefndin hefði fengið Þórhildi Þorleifsdóttur leikhússtjóra á sinn fund þar sem hún viðraði þessar hugmyndir.
Hugmynd um tónlistarhús við Borgarleikhúsið

Ekki álitleg

staðsetning

STEFÁN P. Eggertsson, formaður nefndar um tónlistarhús í Reykjavík, segir að nefndin sé þeirrar skoðunar að lóðin við Borgarleikhúsið myndi ekki rúma svo stóra byggingu sem tónlistarhúsið verður.

Stefán sagði að nefndin hefði fengið Þórhildi Þorleifsdóttur leikhússtjóra á sinn fund þar sem hún viðraði þessar hugmyndir. Hann sagði að nefndin hefði séð annmarka á þessu í tengslum við bílastæði sem nauðsynleg eru vegna slíkrar byggingar. Nefndarmönnum þótti ólíklegt að samnýta mætti bílastæði fyrir Kringluna og tónlistarhúsið. Viðburðir yrðu í tónlistarhúsinu á svipuðum tíma og bílastæðin í Kringlunni eru mikið nýtt.

"Okkur fannst þessi hugmynd ekki vera heppileg en það er kannski eitthvað í þessu sem okkur yfirsést," sagði Stefán.

Nefndin hefur lagt fram þrjá kosti varðandi staðsetningu tónlistarhúss, Öskjuhlíð, við Hótel Sögu og í Laugardal þar sem Samtök um tónlistarhús hafa átt lóð frá árinu 1985.