MIKIL ólga hefur verið á Vesturbakkanum undanfarna daga. Bardagar hafa brotist út, hvað eftir annað, á milli Palestínumanna og ísraelskra hermanna í Hebron og tugir Palestínumanna slasast í gúmmíkúlnaskothríðum Ísraela.
Ófriður og spilling í Ísrael

Samþykkt Banda-

ríkjaþings um Jer-

úsalem vekur reiði

Jerúsalem. Reuter

MIKIL ólga hefur verið á Vesturbakkanum undanfarna daga. Bardagar hafa brotist út, hvað eftir annað, á milli Palestínumanna og ísraelskra hermanna í Hebron og tugir Palestínumanna slasast í gúmmíkúlnaskothríðum Ísraela. Ísraelar segja ráðamenn palestínsku sjálfstjórnarinnar hafa hvatt til óeirðanna til að setja þrýsting á Ísrael og palestínskir ráðamenn ásaka Ísraela um að beita gúmmíkúlum í stað táragass vegna kvartana frá ísraelskum landnemum sem búsettir eru í miðbæ Hebron.

Mikil óánægja er meðal Palestínumanna vegna landnáms gyðinga á palestínsku landi, bæði í Austur- Jerúsalem og annars staðar á Vesturbakkanum. Þá hafa forystumenn Palestínumanna auk margra arabaríkja harðlega mótmælt nýrri samþykkt Bandaríkjaþings þar sem "ein og óskipt" Jerúsalem er viðurkennd sem framtíðarhöfuðborg Ísraelsríkis. Deilur hafa staðið um stöðu borgarinnar frá því Ísraelar hertóku Austur-Jerúsalem, sem var nær eingöngu byggð Palestínumönnum, árið 1967. Palestínumenn gera kröfu til hluta borgarinnar sem framtíðarhöfuðborgar palestínsks ríkis en stjórn Netanyahus segir að það muni aldrei verða. Samþykkt Bandaríkjaþings þykir sýna að Bandaríkin séu langt frá því að vera sá hlutlausi sáttasemjari sem ráðamenn þar hafa viljað vera láta.

Netanyahu ekki lögsóttur Réttur í Ísrael ákvað á sunnudag að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra landsins, verði ekki lögsóttur fyrir spillingu. Fyrir réttinum lá áfrýjun þeirrar ákvörðunar ríkissaksóknara að lögsækja ekki forsætisráðherrann vegna ráðningar Roni Bar-On í embætti lögfræðilegs ráðgjafa ríkisstjórnarinnar.

Bar-On var ráðinn í starfið í janúar síðastliðinn en varð að segja af sér eftir einungis 12 klukkutíma vegna mikillar óánægju með ráðningu hans sem m.a. var talin tengjast spillingarmáli Aryeh Deris, formanns hins trúarlega stjórnmálaflokks Shas.

Ísraelska lögreglan hafði mælt með því, eftir rannsókn málsins í apríl, að forsætisráðherrann yrði saksóttur. Netanyahu hefur beðist afsökunar á mistökum sínum en vísar því á bug að um nokkuð annað hafi verið að ræða.

Fjórir af þeim fimm dómurum sem fjölluðu um málið voru sammála um að ekki væri grundvöllur til að taka málið upp en einn þeirra sagði í séráliti að hann vildi að saksóknari opinberaði rök fyrir ákvörðun sinni.

Andstæðingar forsætisráðherrans segja að líklega verði ákvörðun réttarins ekki áfrýjað. Þeir segjast hins vegar vera þess fullvissir að málið muni halda áfram að íþyngja honum og draga úr fylgi hans.



Reuter

ÍSRAELSKUR hermaður handtekur Palestínumann fyrir að kasta grjóti að ísraelskum hermönnum í Hebron þar sem miklar óeirðir hafa geisað undanfarna daga.