Feneyjatvíæringurinn sá 47ndi var settur á sunnudaginn. Agnes Martin og Emilo Vedova fengu Gullljónið fyrir framlag sitt til samtímalistar. Þá voru skálar hinna ýmsu þjóðlanda opnaðir og í íslenska skálanum vakti myndbandsverk Steinu Vasulku ótvíræða athygli. Einar Falur Ingólfsson var viðstaddur hátíðarhöldin.




Átök á Balkanskaga túlkuð á beinahrúgu

Feneyjum. Morgunblaðið

Feneyjatvíæringurinn sá 47ndi var settur á sunnudaginn. Agnes Martin og Emilo Vedova fengu Gullljónið fyrir framlag sitt til samtímalistar. Þá voru skálar hinna ýmsu þjóðlanda opnaðir og í íslenska skálanum vakti myndbandsverk Steinu Vasulku ótvíræða athygli. Einar Falur Ingólfsson var viðstaddur hátíðarhöldin.

TVÍÆRINGURINN í Feneyjum hefur stundum verið kallaður Ólympíuleikar myndlistarinnar. Sú nafngift er ekki fjarri lagi, því ólíkt öðrum reglulegum yfirlitssýningum á samtímamyndlist, þá er það ekki í höndum eins eða örfárra listfræðinga að velja allt það sem fólk á að sjá á þessari 102 ára gömlu myndlistaruppákomu hér í Feneyjum. Fjölmargar þjóðir, og þar á meðal Íslendingar, hafa hér yfir skála að ráða og velja sjálfar hverja og hvernig þær sýna. Mesta athyglin beinist að þeim hluta tvíæringsins sem er inni hjá Ítölunum og í gamalli skemmu rétt fyrir utan aðalsýningarsvæðið. Er það ein og sama sýningin, kölluð "FRAMTÍÐ NÚTÍÐ ÞÁTÍÐ", og á henni eru verk sem 66 listamenn á öllum aldri og frá ýmsum löndum, flestir kunnir vel, hafa gert sérstaklega fyrir sýninguna að ósk sýningarstjórans Germano Celant.

En áður en óbreyttir listunnendur gátu farið að leggja mat á sýninguna að þessu sinni ­ blaðamenn og þungavigtarfólk listheimsins fengu þriggja daga forskot ­ voru veittar ýmsar viðurkenningar við setninguna. Bandaríski málarinn Agnes Martin og feneyskur kollegi hennar, Emilio Vedova, hlutu Gullljón fyrir framlag sitt til samtímalistarinnar. Hin alþjóðlegu verðlaun Tvíæringsins hlutu Gerhard Richter, "listamaður hvers áhrif á 20. aldar málverk verða langvarandi" eins og segir í umsögn dómnefndar, og Marina Abramovich sem fæddist í fyrrum Júgóslavíu árið 1946 en býr í Amsterdam. Gerningur Marinu hefur vakið mikla athygli hér, en hún situr í myrkvuðum sal og skrúbbar blóðug stórgripabein sönglandi, á meðan myndböndum er varpað á veggina og meðal annars útskýrt á þeim hvernig eigi að drepa rottur. Verkið fjallar á áhrifamikinn hátt um átökin á Balkanskaga á síðustu árum og dómnefndin segist verðlauna listamann "sem er að endurnýja verk sem hún hefur hlotið alþjóðlega hylli fyrir á síðasta aldarfjórðungi, breyta þeim á nútímalegan og hugmyndaríkan hátt í performanslist."

Frakkar hlutu viðurkenningu fyrir athyglisverðasta skálann og Premio 2000-verðlaunin hlutu þrír listamenn undir fertugu: Douglas Gordon, Pipilotti Rist og Rachel Whiteread. Sú síðastnefnda sýndi grafíkverk á síðustu Listahátíð í Reykjavík, er ein af skærustu stjörnum Breta í myndlistinni í dag og sýnir í skála þeirra hér. Sérstakar viðurkenningar hlutu Belginn Thierry De Cordier, Ik-Joong Kang frá Suður-Kóreu, Marie-Ange Guilleminot frá Frakklandi og Japaninn Mariko Mori.

Framlag Íslendinga vekur mikla athygli

Ekki fer á milli mála að framlag Íslendinga er meðal þess sem vekur mesta athygli hér í ár. Í litla bláa húsinu sem Alvar Aalto teiknaði fyrir finnsku sýninguna árið 1956 og átti aðeins að nota einu sinni en er nú friðað og Íslendingar hafa leigt í á annan áratug, hefur Steina Vasulka komið sér fyrir með myndbandsverk sem heitir ORKA. Steina, eða Steinunn Bjarnadóttir, er búsett í Santa Fe í Bandaríkjunum og var ásamt eiginmanni sínum, Woody Vasulka, einn af frumkvöðlum videolistarinnar á árunumum um og upp úr 1970. Hún hefur breytt íslenska skálanum þannig að hann er orðinn hluti af verkinu; myrkvað er inni í skálanum sem hefur verið málaður svartur að innan og klæddur speglum á langveggjunum. Þrír myndvarpar senda myndir á jafnmörg gagnsæ tjöld og þær sjást síðan aftur í speglunum og virðast koma víða að í rýminu, en það virðist ennfremur vera margfalt stærra en það er í raun. Í myndunum vinnur Steina með íslenska náttúru; haf, vötn, hveri og fugla, klippir þetta saman og meðhöndlar mynd og hljóð á áhrifaríkan hátt, þannig að fólk hefur iðulega staðið lengi við í þessum óræða íslenska speglasal og notið kraftmikils og ljóðræns verksins.

Verk Steinu tengist á einhvern hátt einu af þeim þemum sem birtast í sumum skálum Tvíæringsins, en það er endurómun af ósnortinni náttúru eða eftirjsá eftir náttúru sem hefur verið spillt. Sumir spá því hér að náttúran og umhverfið eigi eftir að taka mikið rými í myndlist næstu áratuga. Morgunblaðið/Einar Falur Ingólfsson

GERNINGUR Marinu Abramovich vekur mikla athygli, en hún situr í myrkvuðum sal og skrúbbar blóðug stórgripabein sönglandi, á meðan myndböndum er varpað á veggina..