SMÁBÁTAEIGENDUR telja að gangi eftir spá sjávarútvegsráðuneytisins um fjölda sóknardaga á næsta fiskveiðiári, þýði það dauðadóm yfir smábátaútgerð í landinu. Í spánni er gert ráð fyrir að sóknardagar smábáta í línu- og handfærakerfinu verði 19 talsins, en báta í handfærakerfinu 32.
Trillukörlum líst illa á spá sjávarútvegsráðuneytisins um fjölda sóknardaga

"Dauðadómur yfir

smábátaútgerð"



SMÁBÁTAEIGENDUR telja að gangi eftir spá sjávarútvegsráðuneytisins um fjölda sóknardaga á næsta fiskveiðiári, þýði það dauðadóm yfir smábátaútgerð í landinu. Í spánni er gert ráð fyrir að sóknardagar smábáta í línu- og handfærakerfinu verði 19 talsins, en báta í handfærakerfinu 32.

Smábátaeigendur sem Morgunblaðið ræddi við segjast ekki hafa trú á því að spánni verði fylgt eftir, þar sem það þýddi að fjöldi manns missti atvinnuna og heilu byggðarlögin legðust af.

Byggð leggst víða af

Gunnar Hjaltason, formaður Félags smábátaeigenda á Austurlandi og stjórnarmaður í stjórn Landssambands smábátaeigenda, segir að spáin sem slík eigi ekki að koma neinum á óvart. Hinsvegar trúi menn ekki að hún gangi eftir. "Nú standa ráðamenn frammi fyrir að svara því hvort leggja eigi smábátaveiðar niður eða ekki, og þar af leiðandi byggð á hinum ýmsu stöðum á landinu. Spáin þýðir einfaldlega það. Hvernig er hægt að réttlæta það að senda þessa báta á sjó 20 daga á ári þegar togararnir mega vera 320 daga á sjó? Ég bara trúi ekki að það sé hægt, málið hlýtur að verða tekið upp að nýju í haust. Að öðrum kosti skil ég ekki hvernig þingmenn ætlast til þess að við kjósum þá í næstu kosningum. Ég tel að menn grípi til aðgerða af einhverju tagi, gangi spáin eftir. Menn láta ekki murka úr sér líftóruna möglunarlaust," segir Gunnar.

Gunnar segir smábátaeigendur ekki hafa verið tilbúna að úrelda, því þeir hafi ekki í aðra atvinnu að hverfa. "Fyrir mitt leyti hafði ég gert ráð fyrir því að hafa af þessu atvinnu. Þá er ég ekki tilbúinn að selja bátinn fyrir pening sem endist engum til langs tíma. Það er ekki spurning hvað við getum sætt okkur við marga daga, heldur hve marga daga við þurfum til að geta lifað. Ég gæti sjálfur tórað á 60 dögum en það hlýtur að vera gerð krafa um 80 sóknardaga á ári," segir Gunnar.

Tilverugrundvellinum rústað

Sveinbjörn Jónsson, trillukarl á Suðureyri, segir kerfið í heild sinni vera tilgangslaust rugl frá hendi stjórnvalda, að sínu viti. "Það er fáránlegt að á Íslandi skuli vera svo komið að menn telji nauðsynlegt að rústa tilverugrundvelli nokkurra manna til þess að viðhalda misheppnuðum verndunaraðgerðum á fiskistofnum. Smábátar stunda flestir grunnslóðafiskirí. Uppistaðan í afla þeirra er fjögurra ára gamall fiskur. Yfirvægið í fjögurra ára stofninum er svo mikið að hann hefur neikvæð áhrif á næstkomandi nýliðanir. Þorskurinn er nefnilega ekki aðeins skapari sinn, heldur einnig óvinur sinn. Þess vegna er það út í hött, á forsendum einhverra verndunarsjónarmiða, að rústa tilveru örfárra sjómanna sem eru að gera þorskstofninum og öðrum sjómönnum gagn. Þeir sem hafa verið við stjórnvölinn í 12 ár ættu að fara að skammast sín og velta því fyrir sér hvort ekki er eitthvað að hjá þeim sjálfum en ekki öðrum sem þeir skipta sér af."

Sveinbjörn tekur það fram að hann sé sjálfur í þorskaflahámarki, hagsmunir hans séu því annarsvegar sem óðalsbónda í úthlutuðum rétti stjórnvalda til veiða og hinsvegar sem sjómanns með ákveðnar skoðanir á líffræði hafsins. "Ég er jafnframt einstaklingur sem hef ákveðnar skoðanir á frelsi og búsetu- og framfærslurétti manna. Á öllum þessum sviðum er verið að brjóta mannréttindi, af mönnum sem ofsækja trillukarla og fiskistofnana á vægast sagt hæpnum forsendum," segir Sveinbjörn.

Getur ekki verið svartara

Jóhannes Henningsson, trillukarl í Grímsey, segir spána þýða dauðadóm yfir byggð í eynni. "Útlitið getur ekki verið svartara. Manni heyrist auk þess á ráðamönnum að ekki sé að vænta neinna breytinga á þessum lögum. Okkur eiginlega sárnar að þessir menn geti ekki skilið um hvað málið snýst. Auk þess tel ég að það myndi ekki ríða þorskstofninum að fullu þótt við fengjum fasta 80 sóknardaga á ári, þó að það væri ekki meira. Mönnum líst alveg skelfilega á þetta og vita ekkert hvað þeir eiga til bragðs að taka. Það er ekki hægt að bjóða mönnum upp á að vinna aðeins 19 daga á ári. Hvað eiga menn að gera hér í Grímsey ef þeir mega ekki stunda sjóinn?" spyr Jóhannes að lokum.