SAMKEPPNISRÁÐ hefur bannað Osta- og smjörsölunni að auglýsa Klípu sem fituminnsta viðbitið. Þetta kemur fram í úrskurði ráðsins í máli Karls K. Karlsonar ehf. gegn Osta- og smjörsölunni. Forsaga þessa máls er sú að Karl K.

Bannað að auglýsa

Klípu sem fitu-

minnsta viðbitið

SAMKEPPNISRÁÐ hefur bannað Osta- og smjörsölunni að auglýsa Klípu sem fituminnsta viðbitið. Þetta kemur fram í úrskurði ráðsins í máli Karls K. Karlsonar ehf. gegn Osta- og smjörsölunni.

Forsaga þessa máls er sú að Karl K. Karlson sendi erindi til Samkeppnisstofnunnar í febrúar síðastliðnum vegna sjónvarpsauglýsingar Osta- og smjörsölunnar þar sem Klípa var auglýst sem fituminnsta viðbitið. Var því haldið fram að Hellmann's majónes, sem fyrirtækið er umboðsaðili fyrir, væri fituminna en Klípa, samkvæmt upplýsingum á umbúðum varanna.

Samkvæmt orðabók Menningarsjóðs frá 1983 er orðið viðbit skilgreint sem feitiefni til að hafa með brauði eða öðrum þurrum mat. Karl K. Karlson telur að majónes geti flokkast undir þá skilgreiningu þar sem víða erlendis sé það notað ofan á brauð í stað smjörs. Osta- og smjörsalan vildi ekki samþykkja að majónes gæti talist viðbit og vísaði bæði í íslenskar mál- og matarvenjur og telur að hér á landi sé notkun majónes ofan á brauð í stað smjörs ekki mjög algeng.

Í úrskurði Samkeppnisráðs kemur fram að óumdeilanlegt sé að Hellmann's Low Fat majónes sé fituminna en Klípa en deilt sé um hvort majónes geti talist viðbit eða ekki. Vísað er til þess að majónes sé notað í stað smjörs í ákveðnum tilvikum og geti þessvegna talist viðbit þar sem það er feitiefni notað ofan á brauð. Með vísan til 21. greinar samkeppnislaga bannar því Samkeppnisráð Osta- og smjörsölunni að auglýsa Klípu sem fituminnsta viðbitið þar sem slíkt sé villandi.