Á TYLLIDÖGUM verður okkur tíðrætt um menningu okkar og sögu og fer vel á því. Jafnan kemur þar í ræðuhöldum að sagt er að menning okkar og líf sem sjálfstæðrar þjóðar byggist á ræktun og varðveislu íslenskrar tungu. "Líf íslenskrar þjóðar er samofið íslenskri tungu og þeirri menningu sem vér tókum í arf eftir áa vora" ­ eða eitthvað í þá veru segja stjórnmálamennirnir.
Íslenska - það er málið

Málfarslegt "lauslæti" slævir stórlega, að mati Baldurs Ágústssonar, málvitund landsmanna.

Á TYLLIDÖGUM verður okkur tíðrætt um menningu okkar og sögu og fer vel á því. Jafnan kemur þar í ræðuhöldum að sagt er að menning okkar og líf sem sjálfstæðrar þjóðar byggist á ræktun og varðveislu íslenskrar tungu. "Líf íslenskrar þjóðar er samofið íslenskri tungu og þeirri menningu sem vér tókum í arf eftir áa vora" ­ eða eitthvað í þá veru segja stjórnmálamennirnir. Háfleygt en hverju orði sannara og um stund slær ungmennafélagshjarta í brjóstum okkar ­ og það er gott og hlýtt hjarta.

En hve fljótt gleymast ekki fögur orð og metnaðarfullar tilfinningar þegar hversdagsleikinn tekur við. Og hvar eru þau verk sem þeim ættu að fylgja? Því miður er staðreyndin sú að við erum að glutra niður menningararfinum. Íslenskan er á hægu en stöðugu undanhaldi fyrir erlendum orðum og orðskrýpum sem við tökum upp í einhverju samblandi af metnaðarleysi og minnimáttarlegri þörf fyrir að apa eftir öðrum þjóðum. Lítið sést til þeirra vísu manna sem með sköpun nýyrða og samstarfi við íslenska alþýðu og menntastofnanir eiga að annast málgæslu. Meira að segja Ríkisútvarpið sem löngum hefur hreykt sér af varðstöðu um íslenskt mál er löngu sofnað á verðinum. Svo djúpur er sá svefn að heilu dagskrárliðirnir heita skrýpinöfnum sem eiga uppruna sinn í erlendum tungumálum. Dæmi um þetta er þáttarheitið Mótorsport. Til er ágætt íslenskt orð, akstursíþróttir, sem ljómandi vel hæfir þessu dagskrárefni. Víðar þarf Ríkisútvarpið að taka til en það þurfa líka fleiri: Eigendur verslana og veitingastaða seilast í vaxandi mæli til að nota erlend nöfn: Adria, Carpe Diem, Madonna, Mondo, Cara, Cosmo, Urbania, Select og Smart svo örfá dæmi séu tekin. Þá er allnokkuð um ensk-íslensk nafnskrýpi eins og gesthús, grillhús og steikhús. Auglýsingaskilti allskonar fyrirtækja verða líka sífellt ensku-skotnari e.t.v. til að höfða til erlendra ferðamanna, en einnig oft að virðist til að sveipa viðkomandi alþjóðlegum ljóma ­ líkja eftir útlöndum og útlendingum.

Stjórnendur Reykjavíkurborgar þurfa líka að athuga sinn gang. Auk vegvísa eins og City Center, sem deila má um hvort séu nauðsynlegir, má sjá akreinar merktar Taxi og a.m.k. á einum stað, framan við Perluna, má sjá stæði fyrir langferðabifreið merkt Bus.

Ég er þess fullviss að málfarslegt "lauslæti" af þessum toga slævir stórlega málvitund okkar allra ­ ekki síst barna og unglinga og það algerlega að þarflausu. Íslenskan er ríkt mál og við höfum margsýnt að það sem á skortir getum við búið til þannig að vel falli að málinu. Dæmi um það eru orð eins og þota, sjónvarp, bifhjól, Viðtæki, rás og útvarp.

Hvað snertir vegvísa og upplýsingaskilti fyrir erlenda ferðamenn, vil ég gera það að tillögu minni að þau verði stöðluð og höfð alltöðruvísi en þau skilti sem við eigum að venjast. T.d. má hugsa sér að þau séu græn með svörtum stöfum og svartri rönd: City Center, Airport, Shopping Center, Taxi Rank, Museum o.s.frv. Sjálfsagt er þá líka að þau séu ekki aðeins á ensku. Með þessu vinnst tvennt: Erlendir ferðamenn eiga auðveldara með að finna leiðbeiningar þeim ætlaðar og við Íslendingar sjáum skýr mörk íslensku og "útlensku". Börn og unglingar læra hin erlendu orð ­ sem er vel ­ en gera sér um leið betri grein fyrir því hvað er íslenska og hvað "útlenska".

Ég hef á ferðum mínum erlendis bæði séð og heyrt hvernig fer þar sem ekki er vakað yfir hreinleika móðurmálsins. Ekki aðeins festast í sessi ný aðskotaorð eins og telefon, computer og satellite heldur einnig orð eins og weekend, job og babysitter eins og margir þekkja t.d. úr sænsku. Í Bandaríkjunum er mikið um annan rithátt en í Englandi auk þess sem fjöldi innflytjenda talar óskiljanlegt hrognamál eða eingöngu sitt móðurmál svo sem spænsku eða vietnömsku. Bandaríkjamenn gjalda þess nú að hafa aldrei fest í lög sín eða stjórnarskrá hvert tungumál þjóðarinnar skuli vera.

Þetta leiðir hugann að Íslandi. Svo sérstakt sem það er þá mælir stjórnarskrá okkar fyrir um t.d. þjóðtrú, en ekki að íslenska skuli vera tunga okkar. Hér þarf að bæta úr. Stjórnmálamenn þurfa að láta verk fylgja fögrum orðum sínum: Lögfesta íslensku sem okkar eina mál og fylgja verndun hennar og ræktun fast eftir.

Stundum kemur á skjáinn minn ­ skjáinn okkar allra ­ unglingsstúlka í boði Mjólkursamsölunnar. Hnarreist og stolt syngur hún til okkar um fegurð íslenskunnar og nauðsyn þess að vernda hana. Það er reisn yfir þessari stúlku ­ mér þykir vænt um hana.



Á íslensku má alltaf finna svar

og orða stórt og smátt sem er og var

og hún á orð sem geyma gleði' og sorg,

um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.



Á vörum okkar verður tungan þjál,

þar vex og grær og dafnar okkar mál.

Að gæta hennar gildir hér og nú,

það gerir enginn ­ nema ég og þú.

Baldur Ágústsson

Höfundur er fyrrverandi forstjóri Öryggisþjónustunnar Vara.