VEIÐI hófst í nokkrum af þekktustu laxveiðiánum um helgina og bar árangur veiðimanna nokkurn keim af aðstæðum, en kuldar herja enn á menn og laxa. Þó voru menn á eitt sáttir um að byrjunin hefði verið ljómandi góð miðað við aðstæður, því alls staðar var eitthvað að hafa.
Eru þeir að fá 'ann?

Laxinn gaf sig

aðeins í kuldanum

VEIÐI hófst í nokkrum af þekktustu laxveiðiánum um helgina og bar árangur veiðimanna nokkurn keim af aðstæðum, en kuldar herja enn á menn og laxa. Þó voru menn á eitt sáttir um að byrjunin hefði verið ljómandi góð miðað við aðstæður, því alls staðar var eitthvað að hafa.

Veiði hófst í Langá á sunnudagsmorgun og fengust þá þrír laxar, allir á Breiðunni. Í gær veiddist síðan einn lax. Tveir fyrstu laxarnir voru um 9 pund hvor og veiddust báðir á flugu. Laxinn sýndi sig lítið eins og vænta mátti þar sem vatns- og lofthiti var með minnsta móti.

"Aðstæður hafa ekki verið líkar einu eða neinu sem ég hef áður séð, en það eru þó komnir fimm laxar á land," sagði Brynjólfur Markússon, annar leigutaka Víðidalsár í gærdag, en veiði hófst í ánni á sunnudagsmorgun. Laxarnir voru 8 til 13 pund og fengust þrír í Kerinu í Fitjá og tveir af Brúnni. "Við höldum að þetta sé aðallega Fitjárfiskur og lítið sé gengið í Víðidalsána enn sem komið er. Það kemur í ljós, en skilyrði mega fara að batna, í gærmorgun snjóaði samfleytt í á fimmtu klukkustund og jörð var hvít hér á láglendi. Það er örlítið skárra í dag, en þó er langt í land," bætti Brynjólfur við.

Borgarstjóralax og fleiri laxar

Elliðaárnar voru opnaðar á sunnudagsmorgun og veiddi borgarstjórinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þá fyrsta lax sumarsins, rúmlega 5 punda hrygnu í Fossinum. Það var eini laxinn á sunnudaginn, en í gærmorgun komu fjórir til viðbótar á land, 3,5 til 6 punda.

Veiði hófst í Stóru-Laxá í Hreppum á laugardaginn og veiddist þá a.m.k. einn lax, 9 punda fiskur á neðsta svæðinu. Sama dag var Sogið opnað, en þar veiddist enginn lax. Aftur á móti veiddust nokkrar vænar bleikjur, allt að 4 punda, bæði í landi Alviðru og Ásgarði.

Í gærdag voru komnir 30 laxar á land úr Laxá í Kjós og eru menn farnir að sjá dálítið af laxi. Ásgeir Heiðar, fulltrúi leigutaka árinnar sagðist aldrei hafa séð jafn marga 14-16 punda laxa og daglega væru slíkir boltar dregnir á land. "Það er hugsanlega netauppkaupunum að þakka, ég hef að minnsta kosti ekki séð svona marga svona stóra í ánni áður," sagði Ásgeir. Morgunblaðið/Ásdís

INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir borgarstjóri og Stefán Á. Magnússon stjórnarmaður hjá Stangaveiðifélaginu skoða fyrsta laxinn úr Elliðaánum kampakát.

Morgunblaðið/gg

GISSUR Ísleifsson með tvo fyrstu laxana úr Langá á sunnudaginn, 9 punda fiska.