ÉG VIL þakka fyrir skeleggan leiðara Morgunblaðsins fyrir skömmu, þar sem varað er við því að byrjað verði að kenna ensku á undan dönsku í grunnskólum. Ábendingar blaðsins eru þarfar og ráðamenn menntamála á villigötum. Væri æskilegt að fleiri létu í sér heyra um þetta svo að ekki verði tekin skyndiákvörðun í jafn mikilvægu máli. Svipaðar tillögur voru til umræðu þegar Ólafur G.
Efla þarf dönskukennslu

Sverri Jakobssyni:

ÉG VIL þakka fyrir skeleggan leiðara Morgunblaðsins fyrir skömmu, þar sem varað er við því að byrjað verði að kenna ensku á undan dönsku í grunnskólum. Ábendingar blaðsins eru þarfar og ráðamenn menntamála á villigötum. Væri æskilegt að fleiri létu í sér heyra um þetta svo að ekki verði tekin skyndiákvörðun í jafn mikilvægu máli.

Svipaðar tillögur voru til umræðu þegar Ólafur G. Einarsson var menntamálaráðhera, en var þá hafnað. Félag enskukennara reyndist ekki sérlega meðmælt þessu. Eru fagleg rök fyrir þessari breytingu af skornum skammti. Enda væri kynlegt ef efla þyrfti sérstaklega stöðu enskunnar, sem heyrist í öllum hljóð- og sjónvarpsstöðvum á hverjum degi. Hins vegar bendir margt til að danskan sé vanrækt í skólakerfinu. Þetta hefur því miður ekki verið kannað vísindalega, en allmargir Danir hafa tjáð mér að erfitt sé að fá Íslendinga til að tala dönsku. Fólk er óragara við að tala ensku, þó að kunnáttan í henni sé síður en svo betri en í dönsku. Árangur nemenda í seinasta samræmda prófi í dönsku bendir til að unglingar séu vel að sér í málinu, ef ekki er alvarleg skekkja í prófinu. Eigi að síður bregst mönnum sjálfstraustið þegar að því kemur að nota kunnáttuna. Þó að málin hafi sama vægi í skólakerfinu, gerir yfirburðastaða enskunnar í fjölmiðlum, kvikmyndahúsum, tölvum og tónlist gæfumuninn.

Staða dönsku innan skólakerfisins verður ekki bætt með því að veita ensku forgang. Íslendingar eru Norðurlandaþjóð, ekki hluti Norður-Ameríku. Á miðöldum töluðu allar Norðurlandaþjóðir sömu tungu. Íslendingar sem sóttu heim Danmörku og Noreg voru þar eins og heima hjá sér. Norðurlandamálin eru náskyld íslensku og Íslendingur sem lærir þau vel getur talað þau býsna vel, eins og íslenskir stjórnmálamenn hafa sýnt með vasklegri framgöngu í norskum spjallþáttum. Við eigum margvísleg samskipti við bræðraþjóðirnar og þiggjum frá þeim mikið fé í gegnum norrænt samstarf. Mikilvægi þess samstarfs sést í því að börnum er kennt Norðurlandamál, áður en byrjað er að kenna þeim ensku. Ef því er hætt erum við að veikja tengsl okkur við hin Norðurlöndin. Fremur væri þó þörf á að efla þau. Vitsmunum íslenskra skólabarna væri vart ofboðið með því að láta þau læra tvö Norðurlandamál í stað eins. Það væri þörf breyting á námskrá.

Fyrir tæpum 80 árum var staða dönsku á Íslandi svo sterk að einlægir föðurlandsvinir, með Benedikt Sveinsson í fararbroddi, töldu ástæðu til að sporna við dönskum áhrifum hér á landi. Nú er staða mála gjörbreytt og færi vel á því ef afkomandi Benedikts, núverandi menntamálaráðherra, yrði til að verja söguleg tengsl okkar við Norðurlönd. Þá væri hægt að snúa sér að brýnni verkefnum í skólakerfinu, eins og t.d. að lengja skólaárið. Ef grunnskólabörn hér létu sér nægja sex vikna sumarfrí, eins og er í flestum nágrannalöndunum, gætu þau menntast betur á níu árum í grunnskóla en á tíu árum nú. Þá kæmust Íslendingar kannski af botninum í alþjóðlegum kunnáttuprófum.

SVERRIR JAKOBSSON,

Álfheimum 62, Reykjavík.