FÉLAGAR í Írska lýðveldishernum (IRA) myrtu í gær tvo lögreglumenn í fyrirsát við bæinn Lurgan. Dregur árásin enn úr friðarvonum þar í landi og hefur breska stjórnin ákveðið að slíta viðræðum við Sinn Fein, stjórnmálaarm Írska lýðveldishersins, en stjórnvöld hófu þær að nýju í síðasta mánuði eftir árs hlé.

Írski lýðveldisherinn

myrðir tvo lögreglumenn

Belfast, London. Reuter.

FÉLAGAR í Írska lýðveldishernum (IRA) myrtu í gær tvo lögreglumenn í fyrirsát við bæinn Lurgan. Dregur árásin enn úr friðarvonum þar í landi og hefur breska stjórnin ákveðið að slíta viðræðum við Sinn Fein, stjórnmálaarm Írska lýðveldishersins, en stjórnvöld hófu þær að nýju í síðasta mánuði eftir árs hlé.

Þegar eftir árásina hringdi ungur maður í útvarpsstöð í Belfast, nefndi lykilorð IRA og sagði hreyfinguna bera ábyrgð á ódæðinu. Breska ríkistjórnin hefur fordæmt það. "Við munum ekki láta [þennan atburð] neyða okkur til að falla frá þeirri ætlun okkar að ná fram friðsamlegu Norður-Írlandi sem allir geta sameinast um," segir í yfirlýsingu bresku stjórnarinnar.

Mikil ólga hefur verið í héraðinu þar sem árásin var gerð frá því að IRA rauf vopnahlé sitt á síðasta ári. Friðsamir lýðveldissinnar og sambandssinnar, voru í gær sammála um að árásinni væri ætlað að auka enn á klofninginn á milli kaþólikka og mótmælenda en nú gengur í hönd tímabil skrúðganga mótmælenda. Hvöttu talsmenn beggja hópa sambandssinna til að hefna ekki árásarinnar.

Reuter

HERMAÐUR á verði við brunnið flak flóttabifreiðar skæruliða IRA skammt frá lögreglustöðinni í Lurgan í gær.