SÍÐARI umferð leiðtogakjörsins í breska Íhaldsflokknum verður í dag og bendir flest til, að William Hague muni bera sigurorð af þeim Kenneth Clarke og John Redwood. Geoffrey Howe, lávarður og fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra, sagði í gær, að yrði annar hvor þeirra hægrimannanna, Hagues eða Redwoods, kjörinn, væri hætta á, að flokkurinn einangraðist enn frekar frá öllum almenningi í landinu.
Leiðtogakjör í breska Íhaldsflokknum

Vara við sigri

hægrimanna

London. Reuter, The Daily Telegraph.

SÍÐARI umferð leiðtogakjörsins í breska Íhaldsflokknum verður í dag og bendir flest til, að William Hague muni bera sigurorð af þeim Kenneth Clarke og John Redwood. Geoffrey Howe, lávarður og fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra, sagði í gær, að yrði annar hvor þeirra hægrimannanna, Hagues eða Redwoods, kjörinn, væri hætta á, að flokkurinn einangraðist enn frekar frá öllum almenningi í landinu. Háttsettur embættismaður Verkamannaflokksstjórnarinnar sagði í gær, að hún væri í sambandi við nokkra þingmenn Íhaldsflokksins, sem ekki vildu sætta sig við þróunina innan flokksins og vaxandi andúð á Evrópusamstarfinu.

Hague og Redwood hafa lýst yfir eindreginni andstöðu við fyrirhugað myntbandalag Evrópusambandsríkjanna en Howe sagði í viðtali við BBC, breska ríkisútvarpið, að kosningaúrslitin hefðu sýnt, að kjósendur vildu hófsama stefnu í Evrópumálunum. Sagði hann, að Kenneth Clarke, fyrrverandi fjármálaráðherra, væri fær um að framfylgja slíkri stefnu og sá eini, sem gæti sameinað Íhaldsflokkinn.

Hættuleg þráhyggja

Howe sagði, að með því að þrástagast á myntbandalaginu væri Íhaldsflokkurinn að endurtaka mistök Verkmannaflokksins snemma á síðasta áratug en þá einangraðist hann vegna baráttunnar fyrir einhliða kjarnorkuafvopnun.

Háttsettur embættismaður í stjórn Verkamannaflokksins sagði í gær, að nokkur hópur íhaldsþingmanna hefði verið í sambandi við Verkamannaflokkinn og hefðu viðræðurnar snúist um afstöðu þeirra til ríkisstjórnarinnar ef svo færi, að væntanlegur leiðtogi Íhaldsflokksins útilokaði þátttöku í myntbandalaginu fyrir fullt og allt.

Byltingar þörf

Archer lávarður, fyrrverandi varaformaður Íhaldsflokksins en betur þekktur sem metsöluhöfundurinn Jeffrey Archer, sagði í gær, að horfðist flokkurinn ekki augu við sjálfan sig og þá lærdóma, sem draga mætti af kosningunum, yrði hann að "jaðarflokki, sem engu máli skipti". Sagði hann, að bylta yrði starfsháttum flokksins, sem væri yfirfullur af "hlægilegum og úreltum fordómum".