Keflvíkingar, sem hafa unnið alla leiki sína í Sjóvá- Almennra deildinni, áttu í hinu mesta basli með braráttuglaða ÍR- inga í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar á laugardaginn. Að loknum venjulegum leiktíma hafði ekkert mark verið skorað, en ÍR fékk besta færið um miðjan fyrri hálfleik er boltinn small í slá Keflavíkurmarksins.

"Stóru" liðin

í vandræðum

með "litlu" liðin

Keflvíkingar, sem hafa unnið alla leiki sína í Sjóvá- Almennra deildinni, áttu í hinu mesta basli með braráttuglaða ÍR- inga í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar á laugardaginn. Að loknum venjulegum leiktíma hafði ekkert mark verið skorað, en ÍR fékk besta færið um miðjan fyrri hálfleik er boltinn small í slá Keflavíkurmarksins.

Keflvíkingar voru sterkari í fyrri hálfleik framlengingarinnar og uppskáru mark úr vítaspyrnu sem Eysteinn Hauksson skoraði úr á síðustu mínútu hálfleiksins. Í upphafi síðari hálfleiks framlengingarinnar bætti Jóhann B. Guðmundsson við öðru marki fyrir Keflavík með laglegu skallamarki. ÍR-ingar neituðu að gefast upp og þegar fimm míntúr voru eftir minnkaði Kristján Brooks muninn með glæsilegu marki eftir undirbúning Arnljóts Davíðssonar, sem var nýkominn inná sem varamaður og lék þar með fyrsta leik sinn fyrir ÍR. Breiðhyltingar voru nálægt því að jafna á síðustu mínútunni, fyrst varði Ólafur Gottskálksson vel og síðan var bjargað á línu og Keflvíkingar sluppu fyrir horn.

"Gamlir" unnu "unga"

Það hefur lengi tíðskast á æfing um hjá meistaraflokki ÍA í knattspyrnu, að skipt sé upp í tvö lið sem kallast "ungir" og "gamlir". Þessi hefð tók á sig nýja mynd á laugardaginn þegar aðallið Skagamanna mætti liði yngri leikmanna í 32-liða úrslitum bikarkeppni KSÍ.

Eldra liðið gerði þrjú glæsileg mörk í hálfleiknum; fyrst Steinar með skalla eftir hornspyrnu, þá Haraldur Hinriksson með skalla eftir góða sókn og loks Ólafur Þórðarson með skemmtilegu skoti eftir stungusendingu Haraldar.

Síðari hálfleikur hófst með látum og skoraði Kári Steinn Reynisson fyrir "unga" á 46. mínútu. Eftir markið færðist harka í leikinn og virtist sem upp úr ætlaði að sjóða á tímabili. Golac þjálfari skipti þremur kornungum drengjum inn á í eldra liðið. Þegar svo var komið höfðu "ungir" í fullu tré við "gamla" og náðu að minnka muninn í eitt mark með vítaspyrnu Pálma Haraldssonar á 75. mínútu. Kom nú upp sú undarlega staða að yngra liðið gæti jafnað og átt fullt eins mikla möguleika á að komast áfram í framlengingu, og sýnir það einna best hve fáránlegt það er, að þessi lið skuli mætast í alvöru keppni. En til þess kom þó ekki og lokatölur urðu 3:2 fyrir "gamla".

KR-sigur á Siglufirði

KR-ingar mættu til Siglufjarðar með nýjan þjálfara, Harald Haraldsson, og uppskáru 4:0 sigur. Leikið var við frekar erfiðar aðstæður á malarvellinum í bænum. Snjókoma var þegar KR-ingar mættu norður, en snjó festi þó ekki á vellinum sem var nokkuð blautur. Brynjar Gunnarsson, sem lék á miðjunni, kom KR yfir eftir aðeins fjórar mínútur. Skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Ríkharður Daðason bætti öðru marki við fyrir leikhlé og þriðja markinu í upphafi síðari hálfleiks. Brynjar innsiglaði síðan öruggan sigur með því að gera fjórða markið og annað mark sitt þegar tíu mínútur voru eftir.

Haraldur breytti byrjunarliði KR aðeins frá því Lúkas Kostic stjórnaði því. Hann setti Brynjar framar á völlinn, á miðjuna með Heimi Guðjónssyni. Þormóður Egilsson tók stöðu miðvarðar með Óskari Hrafni, en Sigurður Örn fór í stöðu Þormóðs sem bakvörður og Bjarni Þorsteinsson vinstri bakvörður í stað Ólafs Kristjánssonar. Einar Þór Daníelsson og Hilmar Björnsson voru á köntunum eins og áður og Sigþór Júlíusson með Ríkharði Daðasyni fram í stað Þórhalls Dans Jóhannssonar sem er meiddur.

Öruggt hjá Fram

Framarar mættu ungmennaliði KR í vesturbænum og sigraði örugglega, 4:0. Það gekk þó illa hjá Safamýrarstrákunum að brjóta ísinn því fyrsta markið lét á sér standa og kom ekki fyrr en fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Það var Anton Björn Markússon sem gerði markið. Í síðari hálfleik tóku Framarar öll völd á vellinum og fengu mörg upplögð marktækifæri. Steinar Guðgeirsson gerði annað markið og Þorbjörn Atli Sveinsson bætti tveimur við áður en yfir lauk.

Gunnar Már Másson gerði öll fjögur mörk Leifturs í 4:1 sigri á HK. Staðan í hálfleik var 3:0.

Ásmundur Haraldsson, sem nýlega gekk í raðir FH-inga úr KR, byrjaði vel fyrir FH og gerði fyrra mark liðsins í 2:0 sigri á Dalvík.

Mikil spenna var þegar Þróttur Reykjavík heimsótti Þrótt Neskaupstað. Heimamenn voru yfir 3:1 þegar fjórar mínútur voru eftir en mínúturnar sem eftir voru nægðu Reykjavíurliðinu til að skora þrjú mörk og vinna leikinn 3:4!

Skallagrímur þurfti framlengingu á móti Víkingi til að komast áfram. Staðan var jöfn, 1:1, að loknum venjulegum leiktíma, en Valdimar K. Sigurðsson tryggði sigur Borgnesinga með marki úr vítaspyrnu á síðustu mínútum framlengingarinnar.

Eyjamenn voru lengi að finna netmöskvana hjá Leikni í Breiðholtinu. Þeir náðu ekki að setja mark í fyrri hálfleik en eftir að Sigurvin Ólafsson kom sínum mönnum á blað með tveimur mörkum í upphafi síðari hálfleiks opnaðist vörn Breiðhyltinga og úrslitin urðu 4:0.

Morgunblaðið/Jón Svavarsson Fjör á Skaganum UNGMENNALIÐ Skagamanna stóð í aðalliðinu í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar. Aðalliðið komst í 3:0 en ungu leikmennirnir náðu að minnka muninn í 3:2 áður en yfir lauk. Hér sækir Drautin Ristic að Viktori Viktorssyni í leik liðanna á laugardaginn. Borgar Þór

Einarsson

skrifar