LÖGREGLUMENN á Norðurlandi höfðu í ýmsu að snúast um helgina og fór töluverður tími þeirra í að hjálpa vegfarendum á heiðum uppi, sem lent höfðu í vandræðum vegna ófærðar. Lögreglunni á Akureyri barst hjálparbeiðni af Öxnadalsheiði klukkan rúmlega 5 á sunnudagsmorgun. Þar voru 14 manns tepptir í slysavarnaskýlinu Sesselíubúð og komust hvorki lönd né strönd vegna ófærðar.
Snjór olli ófærð á heiðum

LÖGREGLUMENN á Norðurlandi höfðu í ýmsu að snúast um helgina og fór töluverður tími þeirra í að hjálpa vegfarendum á heiðum uppi, sem lent höfðu í vandræðum vegna ófærðar.

Lögreglunni á Akureyri barst hjálparbeiðni af Öxnadalsheiði klukkan rúmlega 5 á sunnudagsmorgun. Þar voru 14 manns tepptir í slysavarnaskýlinu Sesselíubúð og komust hvorki lönd né strönd vegna ófærðar. Leiðindaveður var á heiðinni, snjór á vegi og bifreiðar vanbúnar til vetraraksturs. Lögreglan kallaði út Flugbjörgunarsveitina og Hjálparsveit skáta og fóru menn frá sveitunum fólkinu til aðstoðar.

Lögreglumenn frá Blönduósi aðstoðuðu vegfarendur á Vatnsskarði sömu nótt, aðallega ungmenni er voru að koma af dansleik í Miðgarði í Skagafirði. Leiðindaveður og slydda var á Vatnsskarði og áttu ökumenn í erfiðleikum með að komast upp lengstu brekkurnar. Það hafðist þó með aðstoð lögreglu.

Lögreglumenn frá Húsavík aðstoðu fólk í vandræðum í Víkurskarði en þegar lögreglumenn komu þangað aðfaranótt sunnudag, voru þrír bílar fastir í snjóskafli. Nokkrir vegfarendur til viðbótar nutu aðstoðar lögreglu, enda leiðindaveður og ófærð á skarðinu.

Vegagerðarmenn á Akureyri fóru í snjómokstur á Öxnadalsheiði og í Víkurskarði á sunnudagsmorgun og vegagerðarmenn frá Sauðárkróki mokuðu snjó af Lágheiði á sama tíma. Ekki kom þó til vandræða á Lágheiði.

Morgunblaðið/Guðmundur Þór Á LÁGHEIÐI var töluverður snjór án þess þó að vegfarendur lentu í vandræðum.