Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar Framhald málsins ræðst í vikulokin EINKAVÆÐINGARNEFND mun væntanlega leggja fram tillögur næstkomandi föstudag varðandi fyrirhugaða sölu Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, en tveimur tilboðum sem bárust í verksmiðjuna var hafnað.
Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar

Framhald málsins

ræðst í vikulokin

EINKAVÆÐINGARNEFND mun væntanlega leggja fram tillögur næstkomandi föstudag varðandi fyrirhugaða sölu Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, en tveimur tilboðum sem bárust í verksmiðjuna var hafnað.

Annað tilboðanna hljóðaði upp á 617 milljónir króna og hitt upp á 725 milljónir og þegar báðum hafði verið hafnað sagði landbúnaðarráðherra ljóst að ríkið fengi meira út úr verksmiðjunni með því að loka henni sjálft heldur en að selja hana samkvæmt tilboðunum tveimur sem bárust.

Að sögn Hreins Loftssonar, formanns einkavæðingarnefndar, eru allir möguleikar um framhald málsins inni í myndinni og þar á meðal nýtt útboð, en ákvarðanir yrðu ekki teknar fyrr en að loknum fundi nefndarinnar næstkomandi föstudag.

"Það er ljóst að þessi boð sem bárust voru of lág og það var skýr fyrirvari í útboðsgögnum um það að seljandinn áskildi sér rétt til þess að hafna öllum boðum. Það var sá réttur sem við nýttum okkur. Hins vegar er fullur áhugi á því að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni og það er það sem við erum að gera þessa dagana," sagði Hreinn.