RÍKISSTJÓRNIN hefur nýlega samþykkt framkvæmdaáætlun um umhverfismál sem miðar að því að koma á sjálfbærri þróun í íslensku atvinnulífi og samfélagi á næstu árum. Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra kynnti helstu atriði áætlunarinnar á blaðamannafundi í gærdag,
Ráðherra kynnir framkvæmdaáætlun um umhverfismál

Áhersla á sjálfbæra-

þróun atvinnuveganna

RÍKISSTJÓRNIN hefur nýlega samþykkt framkvæmdaáætlun um umhverfismál sem miðar að því að koma á sjálfbærri þróun í íslensku atvinnulífi og samfélagi á næstu árum. Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra kynnti helstu atriði áætlunarinnar á blaðamannafundi í gærdag, en í henni er að finna yfir 200 ákvæði um aðgerðir sem eiga að innleiða sjónarmið sjálfbærrar þróunar í mörgum helstu atvinnuvegum Íslendinga, auk byggðaþróunar og fræðslu.

Framkvæmdaáætlunin tekur í veigamiklum atriðum mið af niðurstöðum heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 1992 og ítarlegri framkvæmdaáætlun í umhverfis- og þróunarmálum fyrir heimsbyggðina sem þar var samþykkt og ber nafnið Dagskrá 21.

Að sögn Guðmundar voru sjö nefndir settar á laggirnar hér á landi skömmu eftir Ríó-ráðstefnuna fyrir fimm árum og var hlutverk þeirra að fjalla um einstaka þætti umhverfismála. Að þeirri vinnu lokinni var gerður útdráttur úr skýrslum nefndanna og hann lagður fram sem drög að framkvæmdaáætlun fyrir umhverfisþing sem umhverfisráðherra boðaði til síðastliðinn vetur. Að sögn umhverfisráðherra voru á þinginu gerðar nokkrar breytingar á drögunum sem síðan voru færðar inn í endanlega framkvæmdaáætlun.

"Það er síðan verkefni umhverfisráðuneytisins að reyna að vinna úr þessari framkvæmdaáætlun og fylgja henni eftir," segir umhverfisráðherra, en leggur jafnframt áherslu á að fleiri aðilar þurfi að koma þar að, eins og önnur ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélögin, fulltrúar atvinnulífsins og einstaklingar. Þá segir hann að gert sé ráð fyrir því að sérstök nefnd muni endurskoða framkvæmdaáætlunina reglulega og meta það hvernig henni miði áfram.

Þegar farið að vinna að nokkrum tillögum

Framkvæmdaáætluninni er skipt í þrjá hluta. Fyrst er inngangur, þar sem m.a. er gerð grein fyrir Ríó-ráðstefnunni og hvað felst í Dagskrá 21. Í öðrum hluta er fjallað um ástand umhverfismála á Íslandi, þar sem til dæmis er gerð grein fyrir loftmengun og nýtingu hreinna orkulinda, sagt frá ástandi fiskistofna og annarra lifandi auðlinda hafsins og farið yfir alþjóðlegar skuldbindingar á sviði umhverfismála. Síðasti hluti áætlunarinnar fjallar um markmið og leiðir að sjálfbærri þróun í til dæmis landbúnaði, sjávarútvegi, íslenskum iðnaði og orkubúskapi, byggðaþróun og umhverfisfræðslu.

Þá er eru í áætluninni nefndar þrjár leiðir sem nota má til þess að beina framkvæmdum inn á brautir sjálfbærrar þróunar. Í fyrsta lagi með setningu laga og reglugerða, en það er sú aðferð sem stjórnvöld hafa að jafnaði gripið til við verndun umhverfisins. Í öðru lagi með ýmsum hagstjórnartækjum, en með þeim er leitast við að hafa áhrif á hegðun markaðarins með sköttum, niðurgreiðslum, skilagjöldum og öðrum efnahagslegum skilaboðum. Og í þriðja lagi með fræðslu og upplýsingamiðlun.

Umhverfisráðherra segir að þegar sé farið að vinna að nokkrum tillögum í áætluninni, en sem dæmi má nefna að á vegum nefndar um endurheimtu votlendis er nú unnið að rannsóknum á því hvort og þá hvernig hægt sé að endurheimta eitthvað af því votlendi sem ræst var fram um miðja öldina.

Morgunblaðið/Arnaldur Halldórsson GUÐMUNDUR Bjarnason umhverfisráðherra kynnti framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi í gær, mánudag.