ÞEGAR Guðmundur Gíslason framkvæmdastjóri Ferskra kjúklinga hóf starf hjá fyrirtækinu fyrir einu og hálfu ári var hann eini starfsmaðurinn. Hann var að pakka 200-300 ferskum kjúklingum á viku en fyrirtækið var stofnað í kjölfar þess að Landbúnaðarráðuneytið veitti leyfi til sölu á ferskum kjúklingum.
Ferskir kjúklingar Salan úr 200 kílóum í 6 tonn á einu og hálfu ári

ÞEGAR Guðmundur Gíslason framkvæmdastjóri Ferskra kjúklinga hóf starf hjá fyrirtækinu fyrir einu og hálfu ári var hann eini starfsmaðurinn. Hann var að pakka 200-300 ferskum kjúklingum á viku en fyrirtækið var stofnað í kjölfar þess að Landbúnaðarráðuneytið veitti leyfi til sölu á ferskum kjúklingum. Núna einu og hálfu ári síðar eru starfsmennirnir orðnir ellefu og það eru allt að sex tonn af kjúklingum sem fara um fyrirtækið í viku hverri.

"Aukningin á neyslu ferskra kjúklinga er gífurleg og við satt að segja bjuggumst aldrei við að þróunin yrði þetta hröð", segir Guðmundur. Eigendur fyrirtæksins Ferskra kjúklinga eru Móa kjúklingabúið á Kjalanesi og Kjötvinnsla Sigurðar í Kópavogi. Í upphafi stóð til að Móar sæu Ferskum kjúklingum alfarið fyrir hráefni en fyrirtækið hefur þurft að kaupa af Reykjagarði og Ísfugli líka.

Kryddaðir kjúklingabitar vinsælir

Í upphafi voru það einvörðungu heilir ferskir kjúklingar sem Guðmundur pakkaði fyrir verslanir. Núna selur fyrirtækið verslunum, veitingahúsum og ýmsum stofnunum kjúklinga og úrvalið hefur aukist. "Við fundum fljótt að fólk hafði áhuga á unnum vörum, krydduðum kjúklingabitum, úrbeinuðum og skinnlausum kjúklingabringum og svo framvegis. Við erum því farnir að auka úrvalið og undanfarna mánuði höfum við verið að kynna okkur unnar kjúklingavörur bæði í Bandaríkjunum og víða um Evrópu. "Sumt af því sem ég hef rekist á tel ég að myndi ganga hér en síðan eru líka ýmis krydd til dæmis sem ekki þýddi að bjóða hérlendis. Nú þegar erum við með kryddaða kjúklingavængi, hlutaðan kjúkling sem er í kryddlegi og síðan beinlausar kjúklingabringur.

"Kjúklingabringurnar eru meðhöndlaðar eins og tíðkast í Bandaríkjunum og víða í Evrópu. Í þær fer sojapróteinspækill sem heldur bringunum safaríkum við eldun."

Tandoori-kjúklingur væntanlegur

Þá segir Guðmundur að í byrjun júlí setji þeir á markað svokallaðan tandoori-kjúkling en þá er kjúklingur kryddaður að indverskum hætti og fáanlegur þannig í heilu lagi eða hlutaður. "Tandoori-kjúklingurinn er unnin í samvinnu við breskt matvælafyrirtæki."

- Munu koma fleiri slíkir réttir frá ykkur?

"Já og síðan er markmiðið í framtíðinni að vera með svokallað stóreldhús þar sem við myndum fullelda kjúkling í ýmsa kjúklingarétti. Erlendis hefur ör þróun átt sér stað í slíkum réttum og t.d. í Bretlandi fá ýmsir tilbúnir réttir æ meira hillupláss."

- Nú hefur kjúklingaverð verið mjög hátt hér á landi miðað við erlendis. Mun verðið ekkert lækka á næstunni?

"Mikil hagræðing hefur átt sér stað í greininni og bæði klúklingabændum og sláturhúsum hefur fækkað. Eftir standa færri en sterkari einingar en áður", segir Guðmundur. Hann bendir á að á næsta ári sé einnig búist við framleiðsluaukningu á kjúklingum. "Neytendur hafa á síðustu árum orðið varir við verðlækkanir á kjúklingum og verði um enn frekari lækkanir að ræða í fjölfar framleiðsluaukningar tel ég að lækkunin komi fyrst fram í frosnum kjúklingum."

- Verðið þið ekkert varir við hræðslu fólks við salmonellu?

"Í þessum efnum hefur orðið mikil breyting og sérstaklega hvað varðar gæðaeftirlit. Kjúklingar eru allt uppvaxtartímabilið undir miklu eftirliti og alla leið heim í eldhús til neytandans. Það virðist því sem þetta vandamál heyri sögunni til."

Morgunblaðið/Jim Smart

GUÐMUNDUR Gíslason framkvæmdastjóri Ferskra kjúklinga.