FRANJO Tudjman fór með sigur af hólmi í forsetakosningum í Króatíu á sunnudag en hlaut aðeins atkvæði 37% kjósenda. Kjörsókn var einungis 57% og sögðu stjórnmálaskýrendur þátttökuna og úrslitin endurspegla áhugaleysi almennings.
Tudjman endurkjörinn

Zagreb. Reuter.

FRANJO Tudjman fór með sigur af hólmi í forsetakosningum í Króatíu á sunnudag en hlaut aðeins atkvæði 37% kjósenda. Kjörsókn var einungis 57% og sögðu stjórnmálaskýrendur þátttökuna og úrslitin endurspegla áhugaleysi almennings.

Þegar um 90% atkvæða höfðu verið talin í gær var ljóst hvert stefndi þar sem Tudjman hafði hlotið rúmlega 60% þeirra. Forsetinn, sem er 75 ára, situr því önnur fimm ár á valdastóli endist honum heilsa. Treysti hann því tök sín í kjölfar sigur stjórnarflokks hans, HDZ, í þingkosningunum 1995 og bæjar- og sveitarstjórnarkosningum í apríl sl.

Stjórnmálaskýrendur sögðu almenning áhugalítinn um kosningarnar og m.a. hafi gott veður um helgina átt sinn þátt í dræmri kjörsókn því þegar vel viðrar um helgar flykkjast íbúar Zagreb til strandar.

Alþjóðlegir eftirlitsmenn með kosningunum sögðu að þær hefðu undantekningalítið farið vel fram. Þær hefðu með nokkrum undantekningum verið frjálsar en þó ekki drengilegar. Aðdragandi þeirra hefði í grundvallaratriðum verið í ólagi og ekki fullnægt lágmarkskröfum lýðræðisríkja. Munar þar mest um einræði Tudjmans yfir fjölmiðlum, einkum ríkisfjölmiðlunum, útvarpi og sjónvarpi.

Reuter

FRANJO Tudjman fagnar sigri með stuðningsmönnum sínum.