ÍGANG er farið tilraunaverkefni sem snýst um fræðslumál í bílgreininni. Ásgeir segir að sífellt komi upp spurningin um þörf á endurmenntun yfirleitt og hvers virði hún er. Fræðslumiðstöð bílgreina fékk síðastliðið haust aðsetur í Borgarholtsskóla í Grafarvogi og þar með er orðin bylting í aðstöðu þeirri sem fræðslumiðstöðin hefur til verkefna sinna.
Fræðslumiðstöð Bílgreina

Hagstæð sam-

vinna launþega

og vinnuveitenda

ÍGANG er farið tilraunaverkefni sem snýst um fræðslumál í bílgreininni. Ásgeir segir að sífellt komi upp spurningin um þörf á endurmenntun yfirleitt og hvers virði hún er. Fræðslumiðstöð bílgreina fékk síðastliðið haust aðsetur í Borgarholtsskóla í Grafarvogi og þar með er orðin bylting í aðstöðu þeirri sem fræðslumiðstöðin hefur til verkefna sinna.

Í húsnæðinu hafa námskeiðshaldarar aðgang að margs konar tækjum og búnaði, m.a. verður í haust ný kennslustofa tekin í notkun, sérhönnuð til kennslu í rafmagns- og rafeindatækni, en bilanir og bilanaleit í rafmagns- og rafeindabúnaði verða nú æ algengari í bifreiðum með verulegri aukningu á rafeina- og tölvubúnaði nú til dags. Ásgeir er fyrst spurður út í hverjir standa að fræðslumálunum og hverjir það eru sem námskeiðin eru einkum sniðin fyrir?

"Við einbeitum okkur að bílasmiðum, bílamálurum og bifvélavirkjum, en auk þess geta aðrir, s.s. starfsmenn hjólbarðaverkstæða, bensínstöðva o.fl. komið að þessu í styttri ferlum, og það eru Bíliðnafélagið og Bílgreinasambandið sem standa að þessu. Það má því segja að það séu atvinnurekendur og launþegar sem hér eru í samstarfi með því að standa að fræðslumálum," segir Ásgeir. Og hann heldur áfram:

"Bíllinn hefur þróast hratt og nýjungar hafa verið margar allra síðustu árin. Margt í bílum er orðið háþróað og leiðir af sér nauðsyn á viðgerðarmönnum sem menntaðir eru í rafeindatækni. Þróun af þessu tagi kallar á stöðuga endurmenntun þeirra sem í faginu starfa."

­ Leiðir þetta ekki af sér að stærri verkstæðin vaxa og dafna á kostnað hinna smærri?

"Þessar breytingar hafa leitt af sér að í dag starfa vel menntaðir menn í bílgreinunum og víða hafa menn komið sér upp dýrum og flóknum tækjabúnaði. Allir sem starfa í faginu verða að fylgjast með, því ella eiga þeir á hættu að einangrast. Það er undir hverjum og einum komið, en þróunin hefur verið í þá átt, um það er ekki spurning. Ásókn í stóru verkstæðin sem rekin eru af bifreiðaumboðunum, þar sem tækjabúnaðurinn er hvað fullkomnastur, hefur aukist verulega, en þeir sem eftir sitja geta ekki verið með í samkeppninni. Þeir horfa til þess að geta ekki gert við annað en einfaldari hluti sem tengjast eldri hluta bílaflotans."

­ Er þetta ekki einfaldlega of stór fjárhagslegur biti fyrir þá sem minni eru í greinunum?

"Þetta eru fjárfestingar og við erum að tala um tæki sem geta kostað á bilinu frá 800.000 og upp í tvær milljónir. Þetta er kannski þungt fyrir einhver verkstæði, en það er líka dýrt að sitja eftir og geta ekki sinnt þeim verkefnum sem berast þessi tæki eru vissulega dýr að ég tali nú ekki um það sem brögð eru að, að menn fjárfesti í þessum tækjum, en læra síðan ekki að nota þau. Þá standa þau kannski lítt notuð.

Það þarf víða að koma til hugarfarsbreyting. Breyta þeirri hugsun sem fellst í því að menn líta á tækjakaup sem fjárfestingu, en peninga og tíma sem fer í að læra á þau sem eyðslu."

­ Hækkar ekki viðgerðarkostnaður hjá almenningi vegna þess að verkstæðin eru að kaupa þennan dýra búnað?

"Það þarf alls ekki að vera. Þvert á móti leiða þessi nýju og betri tæki og aukin hæfni viðgerðarmanna til þess að í mjög mörgum tilvikum gæti kostnaður minnkað verulega. Þá erum við að tala um að stytta þann tíma sem fer í að ákvarða hvað sé raunverulega að bílnum. Menn sem eiga ekki búnaðinn, eða eiga hann og kunna ekki að nota hann geta jafnvel eytt nokkrum dögum í að leita að bilunum og verið engu nær á sama tíma og kunnáttumaður með rétt tæki í höndunum gæti fundið meinið á nokkrum mínútum."

­ Er ekki veruleg hætta á því að einstök verkstæði og einyrkjar einangrist og hvað getið þið gert til að koma í veg fyrir það?

"Nei, það er af og frá. Við erum með rétt liðlega eitt þúsund félagsmenn sem greiða í endurmenntunarsjóðinn. Þeir fá allir auglýsingar um námskeiðin okkar, en upplag auglýsinga okkar er helmingi meira og allt fer það í dreifingu. Auglýsingar okkar fara því mjög víða og langt út fyrir raðir félagsmanna."

­ Hvað er annars helst að frétta úr greininni í næstu framtíð?

"Við erum að undirbúa meistaranám í bílgreinum frá og með haustinu og mun faglegi þáttur námsins byggjast á endurmenntunarnámskeiðunum. Hin glæsilega aðstaða sem okkur hefur verið búin hér í Borgarholtsskóla gerir okkur kleift að ýta þessu verkefni úr vör. Við verðum að geta vakið athygli á því hvað breytingar eru hraðar og hve þörfin er brýn. Það mátti ekki seinna vera að við gætum haldið úti þess háttar þjónustu sem nú stendur fyrir dyrum."

Ásgeir Þorsteinsson er fæddur í Reykjavík árið 1955. Eftir "hefðbundinn feril" eins og hann orðar það, lauk hann bifvélavirkjanámi vorið 1978. Síðan starfaði hann hjá fyrirtækinu P. Stefánsson, uns það sameinaðist Heklu árið 1980. Ásgeir starfaði hjá Heklu frá árinu 1982 sem verkstjóri og frá 1987 sem þjónustustjóri, allt til áramóta 1994/95 að hann réð sig til Fræðslumiðstöðvar bílgreina þar sem hann hefur starfað síðan og staðið fyrir fjölmörgum endurmenntunarnámskeiðum og margs konar öðru kynningar- og fræðslustarfi. Ásgeir er kvæntur Magneu R. Hansdóttur og eiga þau drenginn Helga Frey sem er tæpra tveggja ára.

Ásgeir Þorsteinsson

Þróun af þessu tagi kallar á stöðuga endurmenntun